21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Á þskj. 190 höfum við hv. þm. V.-Ísf. borið fram brtt. við frv. þarf ég ekki að eyða mörgum orðum til að gera grein fyrir henni, því að hún er í samræmi við það, sem ég hefi haldið fram áður. Brtt. undirstrikar betur en í frv. er gert, í hverja átt beri að beina kennslunni, sem sé í átt tækni og náttúruvísinda, með hliðsjón af því, að síðari hluti kennslunnar geti farið fram erlendis.

Í sambandi við þetta viljum við flm. bera fram skrifl. brtt., sem okkur hefir verið bent á, að haft geti þýðingu í þessu sambandi. Brtt. á þskj. 190 orðist svo: „Í stað orðanna „að dómi rannsóknarstofnunarinnar og atvinnumálaráðherra“ komi: að dómi rannsóknarstofnunarinnar, háskólaráðs og atvinnumálaráðherra.“

Hér er m. ö. o. ætlazt til, að háskólaráð sé jafnrétthár dómari um málið og rannsóknarstofnunin sjálf og atvmrh. um aðrar brtt. skal ég ekki fara mörgum orðum. Um brtt. á þskj. 162 er það að segja, að 2. gr. hennar er tekin upp í okkar brtt. En 1. gr. þess þskj. er ég ekki samþykkur, því að ég tel nóg, að n. komi saman einu sinni á ári, en rannsóknarstofan hafi að öðru leyti frjálsar hendur.

Brtt. 229 leggur til, að orðið atvinnudeild háskóla Íslands verði tekið upp í frv. og að fyrirsögn þess orðist svo: „Frv. til l. um rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna og atvinnudeild við háskóla Íslands.“

Um orðið „atvinnudeild“ er ég ekki sammála hv. flm. Það er nokkuð villandi. Hér er átt við náttúrufræðideild og tekniska deild. Orðið „atvinnudeild“ er óákveðið og segir lítið um væntanlega starfsemi deildarinnar. En annars er þetta frá mínu sjónarmiði algert aukaatriði.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar, en aðeins leggja fram þessa skrifl. brtt. um, að háskólaráði sé bætt inn í sem aðilja til að dæma um það, hvenær kennsla skuli hafin við þessa rannsóknarstofnun.