21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Pétur Ottesen:

Ég býst við, að ég muni fara nokkuð minna ferða í þessu máli og ekki eiga samleið með ýmsum þeim, er atkv. hafa greitt með því.

Ég viðurkenni, að réttmæt hugsun felst í öðru frv., sem hér liggur fyrir um þetta efni. Ég sé ekki, að annað beri á milli en það atriði, að þeir, sem flytja frv. á þskj. 105, gera ráð fyrir, að í þessum deildum, sem stofna á við háskólann, fari fram kennsla í sambandi við þær rannsóknir, sem allir eru sammála um, að þar eigi að fara fram. Ég viðurkenni réttmæti þessarar hugsunar.

Hvað snertir fiskiveiðadeild, þá er þegar búið að leggja grundvöll að slíkri deild. Það hefir Fiskifélag Íslands gert. Hefir það lagt til þess nokkurt fé, og fiskifræðingi þeim, sem taka á við þessari deild, hefir verið veitt fé til undirbúnings. Auk þess hefir verið veittur styrkur til þess máls með lóðum undir byggingar, sem Fiskifélagið hefir komið sér upp og skapa eiga húsrúm fyrir slíka rannsóknarstofnun.

Um búnaðardeild er það að segja, að það mál er ekki heldur nýtt, því að rannsóknarstofa háskólans, sem komið hefir verið á fót, hefir í ýmsu sama hlutverk og þau, sem þessi deild á að hafa. Geri ég ráð fyrir, að sá maður, sem nú hefir þar forstöðu, verði líka forstöðumaður deildarinnar.

Þá er iðnaðardeild. Þar er málið skemmst á veg komið. Þó hefir Trausti Ólafsson starfað um hríð að slíkum rannsóknum, og hefir hann rannsakað ýms þau viðfangsefni, sem gert er ráð fyrir, að þessi iðnaðardeild hafi með höndum, og hefir verið gert ráð fyrir, að Trausti Ólafsson tæki við forstöðu þeirrar deildar, eða m. ö. o., að það er komið sæmilegt skipulag á starfræksluna, þó hún eigi vitanlega eftir að þróast frá því, sem nú er, eftir því sem kringumstæðurnar leyfa.

Það aðalatriði, sem er nýtt í frv., er að reisa nýja byggingu yfir þessa deild, sem vitanlega kostar allmikið fé. Það er að vísu rétt, að nokkur hluti þess á að fást með lotterísölu, en þar sem sá hluti á að öðrum kosti að ganga til ríkissjóðs, má í raun og veru segja, að það sé beinlínis, eða a. m. k. óbeinlínis frá honum tekið. Mun þetta áætlað um 10 þús. kr. á ári í 10 ár, eða um 100 þús. kr. Um hitt þarf ekki að deila, að jafnvel þó ekki verði mikil útfærsla á starfi deildarinnar, þá má gera ráð fyrir ýmsum skipulagsbreyt., sem hafa viðbótarkostnað í för með sér. Á þskj. 102 er að vísu gerð tilraun til þess að sýna fram á, að kostnaðurinn þurfi ekki að aukast mikið frá því, sem nú er, en við þurfum ekki að ganga þess duldir, að hann verður miklu meiri en ætlað er, án þess að geta reiknað á móti nokkurn sýnilegan vinning fyrir þjóðarbúið sem heild.

Með tilliti til þess ástands, sem nú er um leiðir til þess að afla fjár til að halda atvinnuvegunum uppi, verður naumast talið hyggilegt að sækja inn í atvinnuvegina mikið fé í óarðbæra hluti, eins og t. d. þessa byggingu. Ég vildi því gefa hv. Alþ. bendingu um að fara varlega í því að leggja á stór útgjöld, sem hægt er að komast hjá í bráð. Mér sýnist því frv. ekki fullkomlega tímabært og við geta leyst nauðsynlegustu verkefnin með þeim stofnunum, sem við nú höfum, og hlíft okkur við nýjum byggingum, enda skylda að hlaða nú ekki á þjóðina útgjöldum, sem hægt er að komast hjá að leggja á. Fyrst og fremst verðum við að auka framleiðsluna, svo hún geti starfið undir útgjöldunum.

Ég býst við, að allir séu sammála um, að viðhorfið í viðskipta- og atvinnumálum sé ægilegt. Og með tilliti til þess verð ég að segja, að ekki sé ráðlegt að leggja í framkvæmdir, sem hafa mikinn kostnað í för með sér, en halda heldur áfram, þó hægra fari, á þeirri leið, sem við nú erum á, til frekari þróunar. — Ég mun því greiða atkv. móti báðum frv.