06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það er alrangt hjá hv. 6. þm. Reykv., þegar hann vill láta líta svo út, að það hafi staðið stöðug barátta um það á milli þingflokkanna, hvort þetta gjald skyldi vera lagt í sjávarútveginn eða ekki. Hv. þm. orðaði þetta svo, að stjórnarflokkarnir hefðu knúð fram gjaldið gegn vilja sjálfstæðismanna, þeir hafi viljað hafa galdið miklu lægra. Hv. þm. veit sjálfur, að þetta er tilhæfulaus uppspuni. Stjfrv. gerði ráð fyrir, að gjaldið væri 7%. Þá kom brtt. frá einum eða tveimur sjálfstæðismönnum um, að það yrði haft 5%. Síðan náðist fullt samkomulag um, að það yrði 6%. var það samþ. með öllum greiddum atkv., nema einu, gegnum þingið. Svo stendur þessi hv. þm. upp og talar um siðferði - og drengskap (!), sem honum er tamt um að tala, og heldur því fram, sem hver maður í hv. deild veit, að er rakalaus uppspuni frá upphafi til enda.

Hitt sagði hv. þm. rétt, að það, sem menn greinir á um, er þetta: Á að létta þessu gjaldi af með öllu eða á að létta því af sjávarútveginum þannig, að leggja á ríkissjóð tilsvarandi gjald til markaðs- og verðjöfnunarsjóðs. Um þetta er ágreiningur á milli flokkanna. Hv. þm. vill láta halda áfram að greiða þetta fé til markaðs- og verðjöfnunarsjóðs, en vill láta ríkissjóðinn borga það. Hann heldur, hv. 6. þm. Reykv., að hann geti ginnt menn til fylgis við sig, sem stunda útgerð og verzlun, með því að segja: Ég létti gjaldi þessu af ykkur, en ríkissjóður borgar það. Hv. þm. vill láta líta svo út, sem það sé aðallega honum að þakka, að gjaldinu verður af létt. Stjórnarflokkarnir líta svo á, að rétt sé að létta af þessu gjaldi, og það án þess að frá ríkissjóði komi tilsvarandi greiðslur í staðinn til markaðs- og verðjöfnunarsjóðs.

Þá sagði hv. þm., að ég hafi dregið inn í umr. stjórn Sambands ísl. fiskframleiðenda. En í grg. fyrir frv. því, sem ég gat um áður, segir: „Mál þetta kvaðst hann einnig hafa borið undir stjórn Sambands ísl. fiskframleiðenda nokkru áður en þing kom saman, og hefði það haft þar mikið fylgi.“ En mér er kunnugt um, að fylgið var ekki meira en það, að málinu var vísað frá. Hann segir, að það hafi verið skipuð nefnd til þess að athuga þetta mál. En ég hefi ekki séð neina grg. frá henni, nema ef vera skyldi þessi ágæta grg., sem fylgir frv. En ég er annars hissa á því, að nokkur þm. skuli láta sér sæma að líta slíkt plagg sem þessi grg. er koma inn á Alþ.

Það hefir verið ágreiningur um það, hvort eigi að afnema þetta gjald með öllu, þannig að ríkissjóður fái ekkert í staðinn, eða afnema gjaldið og sjá ríkissjóði fyrir tilsvarandi upphæð. En hv. þm. talar gegn sinni fyrri breytni, þegar hann segir, að ágreiningur hafi verið um að leggja þetta gjald á. - Ég get svo fyrir mitt leyti látið þessa umr. falla niður.