21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Páll Zóphoníasson:

Herra forseti! Ég vil benda hv. þm. Hafnf. á það, sem ég hefi áður sagt, en hann virðist ekki hafa tekið eftir, að eins og 13. gr. frv. ber með sér, er rannsóknarstofnuninni skylt að ráðfæra sig við nefndina, en henni er ekki skylt að taka tillit til þess, sem hún ráðleggur. Rannsóknarstofnuninni er skylt að senda nefndinni skýrslu yfir það, sem hún ætlar að gera, til samþykktar, en nefndin ræður þar engu. Það skiptir engu máli, hvort hún er samþ. eða ekki. Ef n. á ekki að vera annað en slíkt pappírsgagn, aðeins til þess að sýna, að atvinnuvegirnir hafi þar fulltrúa, þá mun ég ekki fylgja þessu frv.

Brtt. mína við 14. gr. tek ég að sjálfsögðu aftur, herra forseti, þar sem hún er tekin inn í till. hv. þm. Hafnf. og hv. þm. V.-Ísf.