23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Magnús Jónsson:

Af því að hér er um stórt mál að ræða og ekki tvímælalaust, bjóst ég ef til vill við, að því yrði fylgt úr garði af einhverjum þeirra manna, sem áhuga hafa fyrir framgangi þess, en fyrst svo er ekki, vil ég segja örfá orð um málið almennt, áður en því verður væntanlega vísað til 2. umr.

Það eru í raun og veru þrjú mál, sem mætast í þessu máli hér. Það er byggingarmál háskólans, hvernig það verður leyst, það er stúdentafjöldinn, og það er að lokum þörfin fyrir að koma upp rannsóknarstofnun fyrir atvinnuvegina.

Byggingarmál háskólans kemur þannig inn í þetta frv., eins og hv. þm. er kunnugt, að það voru þau mjög svo einkennilegu ákvæði sett í l. um happdrætti háskólans, að greiða skyldi 1/5 af nettóágóða happdrættisins í ríkissjóð. Þannig skattlagði ríkissjóður í vissu falli sjálfan sig með þessu, því að þó að einstaklingar, sem fá sérleyfi, verði að greiða eitthvað fyrir það, þá er það ekki eins eðlilegt, að ríkissjóður skattleggi sjálfan sig, þar sem hann veitti sjálfum sér óbeinlínis nýjar tekjur, því að það er vitanlegt, að tekjurnar af happdrættinu ganga allar til að inna af hendi eina af þeim skyldum, sem ríkissjóður hefði samkv. hlutarins eðli og samkv. l. um byggingu háskólans annars orðið að taka að sér einmitt á þessu árabili, sem hér um ræðir. Það undarlega ákvæði var sett í I., og náttúrlega aðeins skiljanlegt út frá því, að ríkissjóður er í mikilli peningaþörf. En ég þykist vita og sé það á þessu frv., að það sé ekki nema eðlilegt, að þessum hluta af ágóða happdrættisins yrði varið til þessa sama verks eða annars náskylds, og að á þann hátt sé byggingarmáli háskólans komið inn í þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Annað af þeim málum, sem ég sagði, að kæmi ber til greina, er stúdentafjölgunin við háskólann. Nú er svo komið, að háskólinn rúmar ekki þann stúdentafjölda, sem vill halda þar áfram sérnámi. Og í tveimur deildunum, læknadeild og lagadeild, er svo komið, að nú eru þar svo margir bæði við nám og nýútskrifaðir, að nú er séð fyrir þörf sérfræðinga í þeim greinum um alllangt árabil. Það er náttúrlega mjög athugavert, þegar menn leggja á sig svo gífurlega mikið sérnám sem hér um ræðir, án þess að það geti orðið mönnum að verulegu liði, ef þeir ekki taka fyrir embætti eða önnur störf, sem þessa sérþekkingu þarf til. Þess vegna hefir verið mikið um það rætt, bæði innan háskólans og utan. Vil ég þar minna á ræðu, sem hæstv. forsrh. hélt í útvarpi s. l. nýár, þar sem hann taldi nauðsynlegt að geta beint einhverju af þeim stúdentafjölda inn á einhverjar aðrar brautir, og þá helzt af öllu sveigt þann straum aftur inn í það praktíska líf þjóðarinnar. En það hafa menn sérstaklega hugsað sér að gera með því að setja á stofn við háskólann kennslu, sem veitti stúdentum fræðslu, sem snerta sérstaklega atvinnuvegina og afkomumöguleika þjóðarinnar á því efnalega sviði. Út á þetta gekk frv., sem borið var fram á Alþingi í haust um stofnun atvinnudeildar við háskólann, þar sem sumpart átti að rannsaka og sumpart að kenna búvísindi, fiskifræði og ýmiskonar iðnfræðslu, t. d. efnafræði, eðlisfræði og annað slíkt. Og þá er ég kominn að þriðja málinn, sem hér er komið að í þessu frv., en það er þörfin til að koma upp rannsóknarstofnun fyrir atvinnuvegina. Það er enginn vafi á því, að sú þörf er orðin mjög aðkallandi, og í raun og veru einkennilegt, að ekki skuli vera búið að gera það fyrr, jafnmikil verðmæti og hér er um að ræða, þar sem um aðalatvinnuvegi okkar er að ræða og allt, sem að þeim lýtur og getur blessað þá. Nú er það sýnilegt, að þessi þrjú mál mátti sameina, og það hygg ég, að hafi verið gert með frv. hv. þm. Snæf., sem flutt var í Nd. samhliða þessu, sem sé að stofna atvinnudeild og kennslu í því, sem snertir sérstaklega atvinnuvegina og mundi taka á móti svo og svo miklum hluta af stúdentum, og starfsmenn við þessa deild sem sérfræðingar á sínu sviði yrðu þeir, sem voru starfsmenn við rannsóknarstofnunina í þágu atvinnuveganna, og til þess að koma upp húsi fyrir þessa stofnun væri varið þessum hluta af nettóágóða happdrættis háskólans. þessi þrjú mál voru því þarna algerlega sameinuð. Ég held, að innan háskólans hafi enginn ágreiningur verið um þessa lausn málsins. — Það litla og að ýmsu leyti ófullkomna frv., sem kom fram á þinginu í haust, var látið fara til skipulagsn., og þar var búið til úr því allt annað frv. um rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna, og það var tengt við háskólann aðeins með einu litlu orði, orðinu „við“, — rétt í orði kveðnu, og svo er ákveðið, að einhverntíma í blárri framtíð, þegar ráðh. og þessi stofnun ákveða, skuli verða tekin upp kennsla í þessum greinum og þeir, sem þarna starfa, skyldu þá verða kennarar í þessum greinum við háskólann. En að þessi stofnun yrði ekki í neinu lífrænu sambandi við háskólann, sest bezt á því, að það á að leggja hana undir annað ráðuneyti en háskólinn heyrir undir. Hann heyrir, eins og menn vita, undir kennslumálaráðuneytið, en ekki skipt þannig, að t. d. læknadeildin heyri undir heilbrigðismálaráðuneytið, guðfræðideildin undir kirkjumálaráðuneytið eða lagadeildin undir dómsmálaráðuneytið. Það er því augljóst, að ef þessi rannsóknarstofnun hefði átt að verða sem ein deild háskólans, þá hefði hún verið látin heyra undir kennslumálaráðuneytið líka, en ekki tekin þannig ein út úr.

Háskólaráðið var kvatt á fund skipulagsn., þegar hún samdi þetta frv., og fékk gerðar á því smábreyt. Árangurinn varð svo þetta frv., sem borið var fram af meiri hl. allshn. Nd., sem er nú komið hingað til þessarar d. með ofurlitlum breyt.

En það er sem sagt eins og ég hefi lýst, að þetta mál hefir snúizt svo merkilega við, ég vil segja í höndunum á háskólaráðinu líka. Hér er hvorki um að ræða stofnun sérstakrar deildar við háskólann eða heldur, að þessi 20% séu tekin til þessarar stofnunar, og finnst mér það nokkuð „fatalt“, svo merkilegt að hafa ekkert fram af því, sem maður atlaði að fá fram.

Ég skal ekki ræða þetta mál frá háskólans sjónarmiði; ég ræði það auðvitað frá þingsins sjónarmiði, en ég vil þó benda á það, að með þessu beygist málið þannig til, algerlega að nauðsynjalausu, út af þeirri braut, sem átti að beina nokkrum hluta stúdentanna inn í það praktíska líf. Það er sett upp stofnun, þar sem eiga að komast að fullmenntaðir menn, sem eiga að fást við rannsóknir. Sú stofnun er vitanlega þörf og góð út af fyrir sig, en það má bara ómögulega nota um leið þá starfskrafta til að koma upp nýrri kennsludeild við háskólann. Það má ekki vinna svo mikið til þess, að til þess megi verja því fé, sem þarf til þess að reisa hús yfir þessa stofnun. Það er því fjarstæða, að háskólinn leggi hér fram neitt af því fé, sem honum er ætlað til sinnar byggingar og hann hefir mjög mikla þörf fyrir.

Ég skal geta þess, af því að ákaflega mikið er lagt upp úr meðmælum háskólaráðsins, að þar stóðu tvær deildir með og tvær á móti, og svo var rektor með því, svo að ekki voru nú allir ánægðir með það. Ég vil svo skýra frá því, að nýlega var haldinn fundur af stúdentum og kennurum háskólans, þar var þetta mál rætt í hér um bil 5 stundir, og þar kom ekki fram ein einasta rödd, sem mælti með þessu frv., nema frá þessum 3 mönnum, sem mynduðu meiri hl. háskólaráðsins. Nú liggur fyrir áskorun frá öllum kennurum háskólans nema þessum þremur, að halda í kvöld kennarafund um málið. Og ég er alveg sannfærður um það, að Alþingi hlýtur að taka svo mikið til greina skoðanir háskólans í sínum eigin málum, að það hiki við að afgr. Þetta mál í skyndi gegn vilja allra kennara og stúdenta háskólans, að þremur mönnum undanskildum, sem fyrir einhver atvik hafa látið til leiðast að vera með þessu frv.

Ég hefi nú nokkuð rætt þetta mál almennt, eins og vera ber við þessa umr., en náttúrlega eru ýms einstök atriði, sem ástæða er til að ræða um, en þau bíða 2. umr.

Ef þessi hv. d. vill ekki fallast á að breyta þessu frv. í áttina til þess, sem hitt frv. er og ég hefi ekki heyrt eitt orð vera haft á móti, þá verð ég að segja það, að ég get ekki annað en greitt atkv. á móti framgangi þessa frv. nú á þinginu. Þó hér sé um þarft mál að ræða, þá liggur ekki svo mikið á að afgr. það, að það borgi sig ekki betur að bíða til næsta þings, í þeirri von, að fást mætti samkomulag milli skipulagsnefndar og háskólans um málið.