02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get svarað fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. í stuttu máli, þó get ég engu lofað um það, að svar mitt fullnægi hv. þm. Það liggur í augum uppi, að réttur sá, er háskólaráð áskilur sér til þess að koma með brtt. við frv., þýðir ekki annað en það, að háskólaráðið vill una við frv. í þeirri mynd, sem það var lagt fyrir háskólaráðið, en einstakir menn í háskólaráðinu vilja fylgjast með því, hvaða viðtökur og afgreiðslu frv. fær á Alþingi og haga sínum brtt. þar eftir. Ég játa, að ég hefi ekki alveg nýlega átt tal við háskólaráðið, en mér er þó óhætt að fullyrða, að þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv., hafa ekki valdið skoðanaskiptum hjá háskólaráði.

Að því er snertir afgreiðslu málsins skal ég taka það fram, að mér er það kappsmál, að frv. verði afgr. áður en þingi verður frestað, af því ég hefi von um, að hagt verði að byrja á fyrirhugaðri byggingu þegar á þessu ári. Það er öllum hv. þdm. kunnugt, hversu húsakynni háskólans og efnarannsóknarstofu ríkisins eru bágborin, en fjöldi þarfra verkefna bíða meðferðar þangað til sú stofnun, sem frv. gerir ráð fyrir, kemst á laggirnar.