02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. sagðist ekki vita, hvaða ástæður væru yfirleitt fyrir því, að háskólinn snerist á móti þessu frv. í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir, en mér þótti það dálítið undarlegt, að hann sagði í sömu andránni, að þessar ástæður væru þess eðlis, að hann gæti ekki tekið þær til greina. Ég skil ekki þessa röksemdafærslu hv. frsm., hvernig meiri hl. n. getur fordæmt skoðanir háskólans án þess að kynna sér þær, enda tel ég nú sjálfsagt, að n. hafi þegar gert það. Það er nú svo, að skoðanamunur innan háskólans um þetta mál er ákaflega mikill, og það er mjög hættulegt að knýja fram afgreiðslu á því máli án þess að ágreiningurinn sé jafnaður.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir þessi skoðanamunur komið fram í tveimur frv., er lögð voru fram hér á þinginu. Eru þau þetta frv. og annað frv., sem flutt var í hv. Nd. af tveimur hv. þm., og er það í því formi, sem háskólinn óskar eftir, að farið verði eftir. Frv. þessi eru sem sé frv. um stofnun atvinnudeildar og rannsóknarstofnunar við Háskóla Íslands og svo þetta frv. um rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna við Háskóla Íslands, sem hér liggur fyrir.

Munurinn á þessum tveimur frv. er í aðalatriðum sá, að frv. það, sem hér liggur fyrir, fer fram á, að sett verði á stofn rannsóknarstofnun fyrir atvinnuvegina, sem í fyrirsögn frv. heitir að sé við Háskóla Íslands, en virðist við nánari athugun ekki eiga að verða skyldari háskólanum en það, að bygginguna á að reisa við hlíðina á háskólanum. Þar á ekkert lífrænt samband að vera á milli. Í frv. síðar er aðeins gefið í skyn, að þegar ákveðnir aðilar komi sér saman um, þá skuli tekin kennsla í háskólanum af starfsmönnum rannsóknarstofnunarinnar í þeim fræðigreinum, sem stofnunin einkum fjallar um. Þá á háskólinn að verða einskonar sel eða útibú frá rannsóknarstofnuninni. Það er bersýnilegt, að rannsóknarstofnunin er hér aðalatriðið, enda á hún að heyra undir annað ráðuneyti en háskólinn, sem verður einskonar sel frá rannsóknarstofnuninni, þar sem starfsmenn hennar eiga að kenna án sérstakrar borgunar. Það á að verða líkast því, þegar vinnumaður, sem ráðinn er á heimili, er lánaður eitthvað burtu til þess að vinna eitt og eitt dagsverk án borgunar, en er eftir sem áður fastur starfsmaður á heimilinu, rannsóknarstofnuninni. Það er vitanlegt, að hér á háskólinn, sem hefir mikla þörf fyrir fé og fengið hefir leyfi til að afla sér fjár með sérstökum hætti, með því þó að greiða fyrir leyfið há gjöld, að fá að verja sínu fé til byggingar, sem þó á ekki að verða partur af háskólanum og má ómögulega heita deild við háskólann.

Í samræmi við þau mótmæli, sem komið hafa fram í háskólanum gegn þessu frv., hafa 2 hv. þm. í hv. Nd. borið fram frv. um atvinnudeild og rannsóknarstofnun við Háskóla Íslands, sem er algerlega í samræmi við háskólalögin, sem samþ. voru hér í þessari d. og eru nú fyrir hv. Nd. Í frv. um atvinnudeildina er ákveðið, að deildin skuli vera skipuð eins og aðrar deildir háskólans og skuli heyra undir sama ráðuneyti og þær. Það væri algerlega óhæfilegt í okkar löggjöf, að ýmsar deildir eins skóla eða stofnunar heyri undir ýmsar deildir stjórnarráðsins eða ýmsa ráðh. Slíkt væri alveg gagnstætt því, sem gerist í okkar löggjöf. Ef ætti nú að fara að breyta þessu, þá yrði að skipta háskólanum þannig að láta t. d. guðfræðideildina heyra undir kirkjumálaráðuneytið, læknadeildina undir þann ráðh., sem hefir heilbrigðismálin, og lagadeildina undir dómsmrh. Svo ætti að skipta öðrum skólum í landinu milli ráðh. og láta hvern skóla heyra undir það ráðuneyti, sem fer með skyld mál hverjum skóla. Það hefir verið svo, að allir skólar í landinu hafa þótt eiga að vera undir stjórn kennslumálaráðuneytisins. Því hefir verið treyst, að sá ráðh. taki tillit til velferðarmála allra skóla í landinu.

Það, að láta þá stofnun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, heyra undir atvmrh., sýnir því ekkert annað en það, sem skin út úr frv., að rannsóknarstofnunin á aðeins að vera í þágu atvinnuveganna, og af því svo lítið er um fé í ríkissjóði, á að taka þetta fé háskólans 200 þús. kr., til þess að gefa atvinnuvegunum þessa stofnun. Og til þess að fá þetta fé er því offrað að hnýta því aftan við nafn frv., að þetta eigi að vera stofnun við háskólann.

Í hinu frv. er gert ráð fyrir, að stofna skuli atvinnudeild við háskólaun, og eru í því frv. auk þess öll þau sömu ákvæði um rannsóknarstofnun og eru í þessu frv. h. u. b. óbreytt. Kennarar við atvinnudeildina eiga svo samkv. stöðu sinni að verða yfirmenn og starfsmenn við rannsóknarstofnunina hver á sínu sviði. Þannig verður því kennurum háskóladeildanna sköpuð aðstaða til þess að vinna við rannsóknarstofnunina, hverjum fyrir sína deild. Mér finnst þetta fyrirkomulag svo eðlilegt og útlátalaust, að ég er algerlega hissa á því, að því skuli vera mótmælt, og hvers vegna þetta frv. nær ekki fram að ganga, enda hefi ég enga ástæðu heyrt færða fram gegn því. Þetta er ekkert dýrara fyrirkomulag, og yfirleitt virðist ekkert vera því til fyrirstöðu. Eftir frv. því, sem hér liggur fyrir, er aftur á móti ekkert samband milli rannsóknarstofnunarinnar og háskólans. Háskólinn á bara að leggja fram allt sitt fé til stofnunarinnar, en hún má ekki einusinni heita deild við háskólann.

Þar sem þetta er 2. umr., þykir mér hlýða að athuga nokkuð einstakar gr. frv.

Í 1. gr. er sagt, að stofnunin eigi að heita rannsóknarstofnun Háskóla Íslands. Ég verð nú að segja það, að mér þykir út af fyrir sig þetta nafn ákaflega óheppilega valið. Um nokkurt skeið hefir hér verið til stofnun, sem heitir rannsóknarstofa Háskóla Íslands. Þar sem nú þessi stofnun virðist eiga að starfa áfram, þá sýnist það vera skynsamlegra að velja hinni nýju stofnun nafn þannig, að þessar tvær stofnanir þekktust sundur, en það er alveg eins og með þessu nýja nafni sé ætlazt til, að menn villist á þessum tveimur stofnunum, og mér þætti hreint gaman að vita, hve margir menn, sem ekki hafa sérstakan kunnugleika í þessum efnum, vita það, hver er munur á rannsóknarstofu háskólans og rannsóknarstofnun háskólans. Ég hygg, að þeir verði ekki margir. Það er því alveg augljóst, ef þessar tvær stofnanir eiga báðar að starfa í framtíðinni, að þá verður að velja þessari nýju stofnun eitthvert heppilegra nafn, svo sem rannsóknarstofnun atvinnuveganna, eða því líkt. En þetta er nú kannske afsakanlegt eða skiljanlegt, af því það hefir nú skinið í það gegnum meðferð þessa máls, að rannsóknarstofu háskólans eigi að leggja niður. Það hefir ekki verið talað um það upphátt, því það hefir ekki verið álitið vinsælt úti um landið. Yfirmaður rannsóknarstofunnar er orðinn mjög vinsæll úti um landið fyrir störf sín, og því ólíklegt, að því yrði tekið með þökkum, að sú stofnun verði lögð niður, sem þó upphaflega a. m. k. var tilgangurinn, og því hefir það ekkert þótt saka, þó sett yrði á stofn rannsóknarstofnun háskólans. Þrátt fyrir þetta er nafnið gersamlega óskiljanlegt. hér á að safna saman starfsmönnum, sem ekki koma háskólanum nokkurn hlut við, nema þá helzt efnafræðingurinn. Þarna eiga að starfa fiskifræðingur ríkisins o. fl., sem ekkert eru tengdir við háskólann. Náttúrlega er þetta „pent“ nafn, rannsóknarstofnun háskólans, en það er alveg eins og þegar barn er heitið í höfuðið á einhverjum mikilsmetnum manni, að það þykir ákaflega „pent“, en stundum hefir verið álitið, að einhver klókindi væru á bak við slíkar nafngiftir, að til þess væri þá ætlast, að sú virðulega persóna, sem þannig var heitin, gæti átt von á gjöfum frá þeim, sem hún er heitin í höfuðið á. Ég býst við, að þannig sé ætlazt til, að háskólinn gefi rannsóknarstofnuninni hús, en það versta við þetta er það, að það er bara ekkert að vita, að háskólinn vilji gefa þetta hús. Það er ekki hægt að taka fé háskólans nema með leyfi hans, og það er ekki fengið, þó meiri hluti háskólaráðs hafi hér gefið einhvern ádrátt.

Þá er sagt í 3. gr., að fiskideildin skuli hafa með höndum eftirlit með síldar- og fiskigöngum. Ég hafði nú haldið, að síld væri fiskur, og ég sé ekki, hvers vegna ekki er alveg eins nefndur þorskur, ísa o. fl. tegundir fiska, sem við höfum gagn af. (SÁÓ: Hér er miðað við sérstakt fiskveiðitímabil). En því er þá ekki líka talað um lax og silung? Það eru þó dálítið sérstæðar fiskitegundir. Nei, þetta heitir ekkert annað en vitleysa á íslenzku máli, og sýnir það eitt, þegar svo smávægilegar vitleysur eru samþ. í frv., að ekki er um annað hugsað en að sulla frv. einhvern veginn í gegnum þingið án þess það sé athugað. Þetta er aftur á móti leiðrétt í hinu frv.

Þá er í 3., 4. og 5. gr. talað um þær rannsóknir, sem hinar þrjár deildir rannsóknarstofnunarinnar eiga að hafa með höndum. Þar er t. d. talað um fjörvirannsóknir og búfjárrannsóknir. Mér er að vísu ekki kunnugt um það persónulega, en ég hefi fengið um það upplýsingar hjá forstöðumanni rannsóknarstofu háskólans, að þessar rannsóknir hafa farið þar fram og munu verða framkvæmdar þar eftirleiðis eins fullkomnar og hægt er hér á landi. Það er því alveg augljóst, að þetta ætti að taka út úr frv. á þessum stað og setja í annan kafla, sem raunar vantar í frv., en ætti að vera um það, sem rannsóknarstofnun háskólans felur rannsóknarstofunni að vinna.

Í 7. gr. eru ákvæði um það, að rannsóknarstofnun háskólans skuli hafa heimild til að láta úti og selja hverskonar lyf, sem hún vinnur sjálf eða útvegar frá öðrum rannsóknarstofnunum. Þetta eru alveg óþörf ákvæði. Ég held, að á síðasta þingi hafi verið samþ. l. um það, að slík stofnun sem þessi skuli hafa þennan rétt. Þetta er því óþarft.

Þá eru í 10. gr. taldir. upp ýmsir menn, sem heimilt er að krefjast starfs af í þágu rannsóknarstofnunarinnar. Það átti vitaskuld í þeirri upptalningu fyrst og fremst að nefna rannsóknarstofu háskólans, því henni verður rannsóknarstofnunin að fela þegar frá byrjun mjög mikilvægt starf, og það er ákaflega einkennilegt að gleyma þeirri stofnun, sem frá upphafi á að hafa a. m. k. fjörvirannsóknirnar og búfjársjúkdómarannsóknirnar.

Þá kemur nú 13. gr. Þar er ein nefndin á ferðinni. Maður getur kannske sagt, að hún sé meinlaus og gagnslaus, en ég er þó ekki viss um, að svo sé. Það er nú svo, að vísindamönnum, sem eru að vinna við rannsóknir, er ekki hægt að skipa fyrir verkum nema mjög takmarkað. Það er ekki hægt að skipa þeim að finna upp eða að komast að niðurstöðum. Vísindamaðurinn verður að starfa eftir sínu höfði, og hann leiðir stundum ýmislegt merkilegt í ljós án þess að vita af því, hann stendur oft á þröskuldinum áður en varir. Þannig er þetta venjulega með vísindalegar rannsóknir. Hitt er miklu sjaldgæfara, að hægt sé að skipa vísindamönnunum að rannsaka og komast að ákveðinni niðurstöðu. Þess vegna finnst mér geta komið til mála, hvort þessi n. er ekki a. m. k. gagnslaus, eða jafnvel verra en það. Í n. þessari skulu eiga sæti fulltrúar frá atvinnuvegunum, en það er nú svo sem ekki þannig, að þessir atvinnuvegir séu fulltrúalausir í landinu. Ég veit ekki betur en að landbúnaðurinn hafi Búnaðarfélag Íslands, fiskframleiðendur Fiskifélagið og iðnaðarmenn iðnráðið. Þessir aðilar ættu að hafa fullkominn áhuga fyrir því að efla hver sína atvinnugrein án þess verið sé að skipa þessa aðila í sérstaka n. Það er nú komið svo með þetta nefndafargan, að það nær ekki nokkurri átt, það er orðið að innflúensufaraldri hér á Alþingi, þar sem ekkert frv. sleppur við að sýkjast. Í hvert einasta frv. er sett n., annars er ekkert vit í því, og gott ef ein n. dugir. Ég held, að þessi n. sé alveg óþörf, og hún getur ef til vill undir sumum kringumstæðum verið lakari en ekkert.

Þá vil ég minnast á 14. gr. þessa frv., en það er hún, sem segir, á hvern hátt þessi stofnun geti tengzt við háskólann. Upphaflega var þessu þannig fyrir komið, að háskólinn átti ekkert að segja um þetta atriði. Starfsmenn rannsóknarstofnunarinnar áttu bara sjálfir að segja til um, hvenær kennsla skyldi hafin. Svo átti atvmrh. að vera þar með í ráði líka. Þessu hefir nú verið breytt þannig, að háskólaráðið hefir einnig atkv. um þetta. En það er í minni hl., svo að það getur ekki sjálft ákveðið, hvenær kennsla hefst. Ef þetta kemst á einhverntíma í blárri framtíð, sem varla er unnt að eygja ennþá, og hin tilvonandi háskólabygging endist svo lengi, að búið verði að stofna deildina, áður en þarf að fara að endurnýja bygginguna, þá verður þetta þannig framkvæmt, að háskólinn verður einskonar útibú eða sel frá rannsóknarstofnuninni. Starfsmennirnir eiga að stunda kennsluna við háskólann án sérstakrar borgunar. Starfsemi þeirra á að vera eins háttað og starfsemi manna, sem eru í föstum stöðum og eru valdir í ólaunaðar n. til þess að vinna ýms nefndarstörf.

Þá kem ég að síðustu málsgr. 14. gr. frv. Þar segir, að kennarar rannsóknarstofnunarinnar myndi sérstaka kennsludeild í háskólanum, sem skuli lúta sömu almennum fyrirmælum um skipulag sem aðrar kennsludeildir háskólans.

Ég er ekki viss um, hvernig þetta ákvæði getur samrýmzt öðrum ákvæðum frv., t. d. ákvæðum 8. gr. Þetta hlýtur að rekast hvað á annað. 8. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að atvmrh. feli einum af starfsmönnum hverrar deildar rannsóknarstofnunarinnar deildarstjórn til 5 ára, en samkv. háskólalögunum og frv. um Háskóla Íslands skal háskólaráð kjósa forstöðumenn deildanna til 1 árs í senn. Ég sé ekki, hvernig þetta getur samræmzt. En samkv. hinu frv. er þetta atriði alveg ljóst. Þar er gert ráð fyrir því, að allir kennarar rannsóknarstofnunarinnar myndi eina háskóladeild, sem kjósi sér svo einn deildarforseta til eins árs, sinn í hverja deild stofnunarinnar. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum forstjóra, heldur skal einn af prófessorum atvinnudeildarinnar vera deildarforseti þeirrar deildar, eins og tíðkast um aðrar deildir háskólans. Það eru því margir ágallar á þessu frv., en þótt hv. meiri hl. þingsins vilji sem minnst tillit til óska háskólans taka, þá ætti samt að mega vænta þess, að sómasamlega verði gengið frá þessu máli.

Þá vil ég minnast á 15. gr. Hún rúmar eitt af aðalatriðum þessa máls. Það er peningaspursmálið. Þar er svo ákveðið, að til rannsóknarstofnunarinnar skuli ganga það 20% gjald, sem ríkið áskildi sér, þegar háskólinn öðlaðist sérleyfi fyrir happdrættið. Þetta er vel til fundið, og er ekkert athugavert við það. Ég vil benda hæstv. stj. og hv. meiri hl. þings á það, að þetta hefði verið rétta og eðlilega leiðin, fyrst ómögulega mátti setja upp atvinnudeild við háskólann. Þá hefði verið rétt að leggja til, að fyrir þetta 20% gjald yrði sett upp sjálfstæð stofnun í þarfir atvinnuveganna, án þess að talað væri um háskólann í því sambandi, fyrst bann mátti ekki koma þar nálægt. En þar sem það liggur á því að koma upp þessari byggingu, eins og hæstv. ráðh. minntist á, þá er fundið upp á því að tengja þessa stofnun í orði kveðnu við háskólann, til þess að brjóta ekki í bága við lögin um happdrætti, og láta gjaldið ganga til stofnunarinnar og láta hana svo endurgreiða háskólanum helming fjárhæðarinnar upp í byggingarkostnaðinn. Hinsvegar er ekkert tekið fram um það, hver þessi byggingarkostnaður verði. Það er gert ráð fyrir, að gjaldið muni nema um 200 þús. kr. á þessu 10 ára tímabili, að vísu allt eftir því, hvernig happdrættið gengur. En þegar gefnir eru út heilir seðlar, þá er óvíst, hver ágóðinn verður. Með sæmilegri sölu getur hann jafnvel enginn orðið. Ef svo er háttað, að heilir vinningar falla á heila seðla, t. d. ef borga þarf út 50 þús., 25 þús. eða 20 þús. krónur, þá verður ágóðinn áreiðanlega hverfandi lítill. Að ágóðinn af happdrættinu varð eins mikill síðasta ár og raun gefur vitni um, stafar að mjög miklu leyti af því, að stjórn happdrættisins sá sér ekki fært að gefa út meira en hálfmiða meðan happdrættið var á byrjunarstigi. Nú er í ráði að fara einnig að gefa út heilseðla, og þá er ágóðavonin vitanlega langtum minni. Verði ágóðinn í meðallagi mikill, þá verður upphæð sú, sem hér um ræðir, eitthvað í kringum 200 þús. kr. Þá fær háskólinn 100 þús. kr. aftur í þann byggingarkostnað, sem hann leggur fram. Upphaflega var gert ráð fyrir 150 þús. kr., en sú upphæð var hækkuð upp í 200 þús. kr., — en hver er tryggingin fyrir því, að þessi upphæð verði ekki hærri en 200 þús. kr., ef ekkert er um það ákveðið? Það má kannske segja, að það sé trygging, að háskólinn borgi aldrei meira en ef hægt er að svæla út úr honum 200 þús. kr. fyrir ekkert. En fyrst það er þó hægt, þá sé ég ekki annað en að hægt muni vera að halda áfram að svæla út úr honum fé. T. d. átti sundhöllin ekki að kosta meira en 200 þús. kr. til að byrja með. Það er rétt, að ég taki það fram í þessu sambandi, að byggingarmeistarinn, sem um sundhallarbygginguna sá, var ekki meiri meistari en það, að hann „planlagði“ sundlaugina þannig, að djúpi endi sundlaugarinnar átti að liggja á móti brekkunni, en grynnri endinn átti að hvíla á súlum. En hversu mörg hundr. þús. sem hafa gengið til sundhallarinnar, þá er hún samt ófullgerð, eins og kunnugt er.

Eins og ég benti á, þegar fundur var haldinn um þetta mál á Garði, þá finnst mér vera möguleiki fyrir því, að það verði aldrei byggt yfir háskólann, svo framarlega sem haldið verður áfram á þeirri braut, sem málið er komið út á. Ef háskólaráðið lætur undan slíkum röddum, þá verður aldrei byggt yfir hann. Ef byggja þyrfti yfir ríkisprentsmiðjuna, þá væri víst ekkert því til fyrirstöðu að kalla hana prentsmiðju við Háskóla Íslands og heimta, að hún væri byggð við háskólann. Það tíðkast víða erlendis, að háskólar hafa prentsmiðjur. Þannig mætti setja hverja stofnunina á fætur annari, sem ríkinu þóknast að setja upp, í samband við háskólann.

Eins og þetta peningaspursmál er leyst hér, þá er ekki nema eðlilegt, að fram komi raddir, ef fara á að byggja allt annað hús en menn dreymdi um, þegar háskólinn útvegaði sér þessa peninga, og spyrji, hvort ekki megi finna jafngóðar ástæður og þessar til þess að taka alla peningana af háskólanum til einhvers annars.

Hæstv. ráðh. lagði áherzlu á, að málinu væri hraðað nú, til þess að hægt yrði að byrja á byggingunni strax í sumar, vegna þess að þær rannsóknir og starfsgreinir, sem hér um ræðir, ættu við svo léleg húsakynni að búa. Ég vil aðeins benda þessum hæstv. ráðh. á það, að engin stofnun á landinu á við nálægt því jafnléleg húsakyni að búa og einmitt háskólinn. Háskólinn var settur niður í stofur alþingishússins 1911, svo sem mönnum er kunnugt um, aðeins til þess að tengja hann við minninguna um Jón Sigurðsson forseta. Þótti öllum það vel til fundið þá, en engum datt vitanlega í hug annað en að þetta yrði bráðabirgðahúsnæði fyrir háskólann.

Það hefir lengi verið almennur áhugi fyrir því, að hægt yrði að koma upp nýrri deild við háskólann, og þá helzt rannsóknarstofu í þarfir atvinnuveganna. Menn hafa fyrir löngu komið auga á það, að til vandræða horfir, hversu takmarkaður og þröngur sá farvegur er, sem stúdentastraumurinn rennur eftir. Sérstaklega hefir það horft til stórvandræða, hvað stúdentahópurinn hefir þyrpzt í tvær deildir, laga- og læknadeildir, sem báðar eru yfirfullar fyrir löngu. Skólanum er bráðnauðsynlegt að geta sveigt stúdentastrauminn í aðrar áttir, og þá einkum í hinar praktísku áttir. Ég legg ekki svo sérstaklega mikið upp úr því, að nauðsynlegt sé endilega að gera úr stúdentunum sprenglærða „specialista“, heldur tel ég þeim nægilegt að fá staðgóða undirstöðumenntun, svo að þeir gætu t. d. komizt á visst háskólastig, yrðu t. d. kandídatar í sinni sérgrein, en það nám ætti svo að veita þeim aðgang að hinu praktíska lífi á eftir, t. d. í fiskifræði, landbúnaðarvísindum, iðnaðarstörfum og öðru þess háttar. Margir hafa og minnzt á það, að skynsamlegt væri að stofna verzlunardeild við háskólann. Það væri óneitanlega mikils virði að fá heilan hóp af háskólagengnum mönnum inn í verzlunarstéttina. Ég er viss um, að bæði stéttin sjálf og landið hefði mjög gott af því. Þessi von er alveg slegin niður.

Þetta, sem nú var nefnt, er sérstaklega ástæðan fyrir því, hvað stúdentar hafa tekið þetta mál föstum tökum. Fyrir nokkru síðan var boðað til fundar á Garði til þess að ræða um þetta mál. Fundurinn var fjölsóttur, og sótti hann fjöldi stúdenta og flestir háskólakennararnir, þar á meðal þeir þrír, sem eru meiri hluti háskólaráðs. Auk þess var þar hv. þm. Hafnf., sem manna mest barðist fyrir frv. í hv. Nd. Ég verð að segja, að ég hefi aldrei verið á einlitaðri fundi. Það kom engin rödd fram á fundinum, hvorki meðal stúdenta né heldur kennara, sem ekki fordæmdi alveg þær aðgerðir, sem hér er verið að framkvæma, að undanteknum þessum meiri hl. háskólaráðs. Þetta eru nú þau sterku meðmæli, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, á að hafa fengið. Eftir að þessi fundur hafði verið haldinn, var boðað til kennarafundar til þess að ræða málið. Ég held, að allir kennararnir, nema þeir, sem eru í meiri hl. háskólaráðs. hafi skorað á rektor háskólans að halda fundinn. Ég vil taka það fram, að allar samþykktir, sem gerðar voru á þessum fundi, voru samþ. með samhljóða atkvæðum. Skal ég lesa upp aðaltillöguna, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Almennur fundur kennara háskólans lýsir því yfir, að hann telur, að með frv. til l. um stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands, er nú liggur fyrir alþingi, sé óskum háskólans um atvinnudeild fullnægt í grundvallaratriðum, og lýsir því fylgi sínu við frv. þetta“.

Þetta var aðaltill. kennarafundarins. Þetta voru till., sem allir háskólastúdentar stóðu saman um. Þar sem minni hluti háskólaráðs vildi sýna sanngirni og ekki ganga á móti því, sem meiri hl. hafði gert, þá var samþ. varatill. í sambandi við það, sem háskólaráðið áður hafði sagt, um það, að það áskildi sér rétt til þess að bera fram brtt. Síðan komu brtt. shlj. þeim, sem hv. 1. þm. Skagf. hefir borið fram og nú liggja hér fyrir til atkvgr.

Þar sem hæstv. ráðh. og ég held næstum því hv. frsm. meiri hl. n. töldu nokkurn vafa á því. hvort háskólaráð gengi ekki að og samþ. þetta frv., þótt það vildi frekar hafa það öðruvísi, þá vil ég lesa upp niðurlagið á brtt. eftir að hún hafði verið skrifuð. Það hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn telur, að það verði að vera óhjákvæmilegt lágmarksskilyrði fyrir fjárframlögum af háskólans hálfu til rannsóknarstofnunar þeirrar, er ræðir um í lagafrv. skipulagsnefndar, að þessar breytingar verði á því gerðar“.

Ég held, að það sé ómögulegt að taka skýrara til orða en hér er gert. Þetta samþ. meiri hluti háskólaráðs engu síður en hinir kennararnir, þó að undanteknum rektor, sem var veikur og gat því ekki sótt fundinn. Ef litið er á þessar brtt., sem hér eru settar fram sem óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að háskólaráð leggi fram fé til byggingarinnar, þá er auðséð, að þær eru svo meinlausar, að ég fyrir mitt leyti gerði það með hangandi hendi að ganga að þeim á þessum fundi. Ég vildi halda mér við frv. um atvinnudeild, en vildi þó ekki brjóta þannig einróma samþykkt. Mér er óskiljanlegt, hvers vegna ekki mátti samþ. frv. um atvinnudeild. Þó var framkvæmd ein leiðrétting um það, að rannsóknarstofa háskólans skyldi hafa rannsóknir á búfjársjúkdómum með höndum.

Þá vil ég drepa á brtt. við 14. gr. frv. Þar er sagt, að þegar háskólaráð og atvmrh. ákveða skuli rannsóknarstofnunin verða sérstök deild við Háskóla Íslands, og nefnist hún atvinnudeild. Þessi stofnun á þá að ganga inn í háskólann sem raunveruleg háskóladeild. Skipulagning deildarinnar og skipun starfsmanna hennar skal lúta sömu lögum og aðrar deildir háskólans. Síðan koma fyrirmæli, sem eru svipuð fyrirmælum frv. sjálfs, um það, að ef þessi deild verður sett upp, þá þurfi að sjá fyrir undirstöðukennslu í nokkrum fyrrihlutanámsgreinum, og skal lögð sérstök áherzla á tekniskar fræðigreinir og náttúruvísindi, með það fyrir augum, að auðvelt sé að búa menn undir það, að síðari hluti námsins geti farið fram erlendis. Af því að menn eru ef til vill hræddir við þessa aukakennslu í sambandi við atvinnudeildina, þá vil ég upplýsa það, að fyrir nokkrum árum voru gerðar till. um undirbúningsfræðslu við háskólann, þannig að menn gætu numið byrjun í náttúrufræði, verkfræði og tungumálum hér heima við háskólann og lokið þannig við tveggja ára nám heima, og farið síðan til erlendra háskóla til þess að ljúka við námið þar. Ég held, að þetta hefði verið mjög heppilegt. Í fyrsta lagi hefðum við getað sparað erlendan gjaldeyri, í öðru lagi var hægt að veita færum íslenzkum mönnum atvinnu við kennsluna, og í þriðja lagi hefði frekar verið hægt að sjá, hvað í mönnum býr og hverjir eru hæfir til þess að verða styrks aðnjótandi framvegis við erlenda háskóla. Þetta hafðist ekki í gegn, en við þessa rannsókn kom það í ljós, að auðvelt var að veita þessa fræðslu hér fyrir tiltölulega litla borgun.

Breytingin á 15. gr. fer fram á það, að tryggt sé, að háskólanum sé ekki skylt að leggja fram meira en þá hámarksupphæð, sem gert er ráð fyrir í sambandi við þessa byggingu, sem sé 200 þús. kr. Þetta finnst mér sjálfsagt, en hinsvegar er það ákvæði frv. látið haldast, að rannsóknarstofnunin greiði háskólanum ekki aftur meira en helming þess fjár, sem háskólanum ber að greiða ríkissjóði samkv. lögum um happdrætti. Það verða þá undir öllum kringumstæðum fjárútlát fyrir háskólann, sem hann yrði að inna af höndum með tilliti til þess að fá þá á sínum tíma þessa deild.

Ég verð að segja eins og hv. 1. þm. Skagf., að mér er óskiljanlegt, hvers vegna ríður svo mjög á að ljúka þessu máli nú. Hæstv. ráðh. sagði að vísu, að það þyrfti að ljúka málinu nú til þess að hægt væri að byrja á byggingunni strax í sumar. En ég get alveg fullvissað hv. þm. um, að það verður ekki hægt að byrja á byggingunni í sumar, hvort sem þetta frv. fær samþykki eða ekki. Hvað sem því liður, að féð á nú ekki að fást, úr því ekki var gengið að úrslitaskilyrðum, sem háskólinn setti fyrir því, að það fengist. Þó maður sleppi því alveg, þá eru aðrar ástæður, beinlínis tekniskar ástæður, sem gera ómögulegt að byrja á byggingunni í sumar. Svo ég nefni bara eina, þá á háskólinn ennþá enga lóð til þess að byggja á. Ég hefi orðið var við, að sumir hv. þdm. halda, að háskólinn eigi lóð, en það fer fjarri því. Það hefir verið talað um lóð handa honum suður á Melum, og bæjarstj. hefir haft góð orð um að láta hana af hendi. En á því eru ýmsir annmarkar. Þessi lóð hefir ekki verið afhent ennþá, og ég tel vafasamt, að það mál leysist á þessu ári. Fyrir það fyrsta eru kvaðir á lóðinni, sem menn eru ekki á eitt sáttir um, hver á að leysa inn. Í öðru lagi er risinn ágreiningur um, hvernig þessi lóð á að vera. Menn muna vafalaust eftir þáltill., sem hv. þm. S.-Þ. fékk samþ. á þinginu í haust um ákveðið skipulag á þessari lóð, og var hún vitanlega fram borin sökum þess, að fullkominn ágreiningur er um það, hvernig lóðin á að vera. Upphaflega hugsuðu menn sér, að hún næði frá Suðurgötu og alla leið yfir melana, mýrarnar og túnin meðfram öllum suðurenda tjarnarinnar og yrði geysilega stór. Nú hefir það komið í ljós, að bæjarstj. álítur nauðsynlegt að leggja umferðargötu yfir þetta svæði. (JJ: Grútargötu). Já, við getum kallað hana Grútargötu, hún mun valda jafnmiklum ágreiningi, hvort sem hún er kölluð Grútargata eða Gullgata. Það er gott, að hv. þm. leggi til eitt uppnefni í þessu máli. Annars ætti hann nú heldur að hugsa um fylliríissögurnar, sem hann er að skrifa um þessar mundir; hann kann að gleyma einhverju af þeim, ef hann er að skjóta hér inn í umr.

En sem sagt, það er kominn fullkominn ágreiningur um, hvernig á að haga þessari lóð. Ýmsir innan háskólans og jafnvel stjórnarinnar hafa staðið á móti því, að gata kæmi þarna yfir lóðina, og það er alls ekki séð, hvenær það spursmál verður leyst. Hitt er víst, að háskólinn hefir nú sem stendur ekki ráð á neinni lóð, og það er ekki hægt að byrja á byggingu fyrr en afhending hefir farið fram. Stúdentagarðurinn var að vísu reistur þarna, en hann leysti til sín horn af lóðinni fyrir sín efni, af því stúdentarnir voru óþolinmóðir eftir því að koma honum upp, svo það kemur ekki þessu máli við. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvar ætlar hann að reisa þá byggingu, sem hér er um að ræða? Ég spurði rektor háskólans, sem er mjög ákafur í þessu máli. Hann sagði bara, að þetta kæmist í lag. En ég segi, að það kemst ekki í lag meðan allur þessi ágreiningur er óleystur. Það er nóg til þess, að ekki er hægt að byrja á byggingunni, að enginn veit, hvar hún á að standa. Og þegar búið er að ákveða lóðina, þarf að undirbúa rækilega skipulag húsanna á henni. Það er hreinasta óvit að fara að peðra upp húsum hér og hvar á lóðinni án þess að athuga fyrst, hvernig húsaskipunin í heild á að vera.

Þetta er nú út af fyrir sig nóg ástæða til þess, að aldrei verður byggt í sumar. En ég vil einnig nefna aðra ástæðu, ef menn skyldu halda, að það gerist eitthvert kraftaverk, svo lóðin verði tilbúin. Þá vantar bara blátt áfram peningana. Græddi ekki happdrættið 100 þús. kr. síðasti. ár, munu menn spyrja. Jú, það er rétt, að ágóðinn varð um 93 þús. kr., sem rann í háskólasjóð. En happdrættið getur ekki starfað með minni sjóð en sem því svarar. Það er ekkert vit í því að láta happdrættið starfa án þess að hafa varasjóð. Fyrsta árið slampaðist þetta af með því að dreifa áhættunni, en aðrir sjóðir háskólans hlupu líka undir bagga. Happdrættinu veitir alls ekki af sínum fyrsta ágóða sem varasjóði.

En þetta gerir ekki heldur nokkurn skapaðan hlut til. Stofnunin tekur ekki til starfa einum degi fyrr, þó eitthvað væri byrjað að grafa fyrir byggingunni í sumar. Það yrði bara farið þeim mun hægar við framkvæmdirnar. Nei, það á ekki að byrja fyrr en búið er að ganga frá lóðamálinu, planleggja lóðina vel og safna fyrir nægilegu fé. Þá er hægt að byrja með þeim krafti, að húsinu verði lokið á eðlilegum tíma. Því er engin ástæða til að afgr. þetta mál nú. Það verður ekkert búið að gera, þegar þingið kemur saman í haust, hvað sem samþ. er nú. Hér er aðeins um að ræða ofurkapp einstakra manna — sem ég veit ekki, hvernig á stendur —, er vilja keyra þetta mál í gegn á móti vilja næstum því hvers einasta manns í þeirri stofnun, sem hér á hlut að máli.

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég vildi nota þessa umr., áður en málið gengi lengra og í sambandi við brtt. hv. 1. þm. Skagf., til þess að gera grein fyrir minni skoðun á málinu.