29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

115. mál, útflutningur vikurs

Frsm. (Emil Jónsson) [óyfirl.]:

Ég veit ekki, hvort það er rétt af mér að fara að hafa umr. um frv. Mér finnst þó, að það hafi verið talað um ýmis mál, sem ekki hafa verið merkilegri en þetta. Því að málið er dálítið sérstakt, og öllum hv. þm. er það kannske ekki eins kunnugt og þyrfti að vera.

Það er þá um málið að segja, að vikur er ákaflega merkilegt byggingarefni, vegna einangrunarhæfileika síns, og er mjög eftirsótt vara. Það er flutt inn til Noregs, Englands og Danmerkur og fleiri landa, sem ekki hafa það, aðallega frá Þýzkalandi.

Allir vita, að hér á landi er til talsvert af vikri, en hvað mikið það er, er ekki fullvitað, því að það hefir ekki verið rannsakað til hlítar. Hitt vita menn, að í Þjórsárdal og meðfram Jökulsá í Axarfirði er mikið til af honum.

Nú hafa verið hér áhugamenn, sem hafa reynt að notfæra vikurinn, aðallega á innlendum markaði. Þeir hafa flutt hann á bílum úr Þjórsárdal til Reykjavíkur og frá Jökulsá til Akureyrar, búið til úr honum plötur, til einangrunar í hús í staðinn fyrir kork.

Ef nú mætti takast hagkvæmari framleiðsla á vikrinum, og þó aðallega ódýrari flutningur, þá mætti spara með því innflutning á korki og nota í staðinn vikur.

Sveinbjörn Jónsson, byggingarmeistari á Akureyri, hefir haft forgöngu þessarar framleiðslu á Norðurlöndum og gert tilraunir með hana síðan 1925. Hann hefir búið til plötur úr vikrinum, en vegna þess hvað flutningskostnaðurinn hefir orðið mikill, hefir þetta ekki getað orðið nógu ódýr verzlunarvara.

Nú hafa umsækjendur einkaleyfisins hugsað sér nýja leið, að láta ána flytja vikurinn til sjávar, og taka hann upp í árósnum. Fellur þá flutningskostnaðurinn svo að segja úr sögunni. En til þess að ráðast í þetta, þarf mikinn og dýran útbúnað uppi á öræfum, og munu væntanlegir kaupendur ekki vera ófúsir að leggja eitthvað af mörkum, ef þeir fengju einhverja tryggingu á móti, og hafa þeir því farið fram á einkaleyfi til 10 ára til að flytja út þessa vörutegund. Þeir hafa fengið tilboð, aðallega frá enskum og norskum firmum, og hafa von um að geta selt við því verði, að framleiðslan borgi sig.

En svo að hv. þm. sjái, hvað mikill er kostnaður við vikurinn, þá skal ég geta þess, að bílfarmurinn frá Þjórsárdal til Reykjavíkur, eða frá Axarfirði til Akureyrar, kostar 30—40 kr. En ef vikurinn á að vera til útflutnings, þá má verðið ekki vera meira en 6—8 kr. Ef hægt væri að lækka kostnaðinn niður í brot af þessu verði, þá mætti takast að koma hér upp vikuriðnaði í sambandi við útflutning. En þá mun verðið líka verða miklu lægra hér innanlands, svo að ekki þyrfti lengur að flytja inn kork.

Ég skal svo ekki þreyta hv. dm. með því að tala lengur um þetta. Ég vildi nota hér tækifærið til þess að skýra málið fyrir mönnum, því að það er nokkuð sérstakt og merkilegt. En það getur verið áhættusamt fyrir þá, sem ætla að ráðast í fyrirtækið, að leggja út í kostnað við það, ef aðrir gætu eyðilagt fyrir þeim, þegar iðnaðurinn væri kominn dálítið á rekspöl.