06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er aðeins örstutt aths. Ég vil beina athygli hæstv. forseta að því, að atvmrh. hefir það helzt sér til varnar í þessu máli, að það sé örðugt að stöðva útvarpstilkynningar, ef farið er út yfir hina allra tignustu menn, eða m. ö. o. ef röðin kemur að hinum óvöldu þm. Ég er sammála honum í því, að það getur verið örðugt að vita, hvar eigi að setja takmörkin, ef farið er út í það, að birta kafla úr ræðum þm. En einmitt í þessum rétta skilningi hæstv. ráðh. á þessu máli átti að felast hemill á það, að hann birti sjálfur í útvarpinu kafla úr ræðu eftir sig. En þetta tilefni verður væntanlega til þess, að settar verða nánari reglur fyrir því, hvað má flytja í útvarpinu, sem heyrir undir tilkynningar eta parta úr þingræðum, hvort sem það er frá ráðh. eða öðrum. Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur, að það nær engri átt, að hann hafi sérstöðu til þess að brjóta í þessu efni á hinn herfilegasta hátt hlutleysisreglur útvarpsins. Með því móti gæti stj. misnotað útvarpið sér til pólitísks framdráttar. Ég er viss um, að engum dettur í hug að semja slíkar reglur um þingfréttaflutning í útvarpið, að óbreyttir þm. séu þar ekki jafnréttháir og ráðh.

Um hitt atriðið, að hæstv. ráðh. hafi verið tilneyddur að birta yfirlýsingu sína í útvarpinu, vegna samvinnuslita sjálfstæðismanna í utanríkismálanefnd er það að segja, að um þetta þurfti enga samvinnu þar. Hann þurfti ekki annað en tilkynna sínum mönnum í utanríkismálanefnd, að stj. vildi ganga inn á þetta, og svo gátu þeir tilkynnt það flokksmönnum mínum eða mér. En svo gat hitt verið rifrildismál, hvort menn álitu, að þörfin fyrir þetta gjald væri enn fyrir hendi, eða hún væri niður fallin.