02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

115. mál, útflutningur vikurs

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það er mikið ímyndunarafl, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir. Hann tók það sem gefið, af því að ég greiddi atkv. með afbrigðum um að málið fengi að koma fram í d., að ég mundi vera því fylgjandi. Ég vil nú segja hv. 1. þm. Reykv. það, að það er alls ekki óalgengt, að alþm. greiði atkv. með því að veita afbrigði fyrir till. og frv., sem þeir greiða svo atkv. á móti síðar. Þetta er meira að segja mjög algengt fyrirbrigði hér á Alþ. og sýnir hvorki fylgi eða andstöðu gegn till. eða frv.

En um þetta frv. er það að segja, að það stendur vissulega svipað á með það eins og frv. um einkaleyfi til þess að flytja út hrafntinnu. Ég skal játa, að ég hefi ekki fengið upplýsingar um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að því verði vísað til nefndar, og get ég ekki séð, að það séu hundrað í hættunni með að það verði afgr. í flýti. Það eru ekki nema fáir dagar eftir af þessum hluta þingsins, og er því ekki sennilegt, að þetta mál nái afgreiðslu á þessum hluta þingsins, ef það fer til n., sem mér þykir eðlilegt að það fari.

Ég hefi ekki sagt neitt um fylgi mitt við þetta frv. Ég gat vel greitt atkv. með afbrigðum án þess að láta nokkuð í ljós um það. Ég skal geta þess, að ég myndi hafa greitt atkv. með því, að brtt. hv. 1. þm. Skagf. við frv. um hæstarétt mættu komast að, þó að ég væri staðráðinn í því að greiða atkv. móti hverri einustu brtt. Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Skagf. greiða oft atkv. með að veita afbrigði, þó að þeir síðar greiði atkv. móti frv. Það þarf ekki að benda neitt á fylgi við málið.

Ég skal svo ekki segja neitt um fylgi mitt við þetta frv. eða andstöðu gegn því, fyrr en ég hefi haft aðstöðu til þess að athuga það.