06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Forseti (JörB):

Út af ummælum hv. þm. G.-K. er hann beindi því til forseta að hafa gætur á flutningi þingfrétta í útvarpið, þá vil ég taka þetta fram: Útvarpið hefir farið fram á það, að forsetar sæju um þingfréttaflutning í útvarpið og tilnefndu mann til þess að hafa það starf með höndum, og að þeir bæru ábyrgð á þingfréttum þeim, sem fluttar væru í útvarpið. En forsetar hafa ekki álitið sig hafa aðstöðu til þess að hafa eftirlit með slíkum fréttum, og svarað útvarpinu á þá leið, að það tilnefndi mann til þess að hafa þetta starf með höndum, sem þeir svo samþykktu, og sæi útvarpið algerlega um fréttaflutninginn frá þinginu. Það leiðir því af sjálfu sér, að þar sem hér er um mikið starf að ræða, en forsetar að jafnaði bundnir við sín störf, þá yrði erfitt fyrir þá að fylgjast með þingfréttunum, því að ef þeir ættu að vera forsvarsmenn af hálfu þingsins hvað fréttirnar snertir, þá yrðu þeir jafnan að fara yfir handrit fréttamanns. Og þó að svo væri, að forsetar gerðu þetta, þá væri það alls ekki á þeirra valdi að stöðva t. d. tilkynningar, sem atvmrh. vildi koma að og fá birtar í útvarpinu. Slíkt væri fyrir utan þeirra verkahring.