02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

115. mál, útflutningur vikurs

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Af því að hv. 1. þm. Reykv. bjóst við, að þetta mál rétti að fylgja þeirri steintegund, sem talað var um í gær, þá vil ég ekki neita því, að vit geti verið í því. Þó finnst mér, að ekkert sé á móti því að taka frá þetta mál um vikurinn, því það mál hefir verið athugað í skipulagsnefnd. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég hefi áhuga á því, af því að ein helzta vikurnáman er í mínu kjördæmi. Ég býst við, að það geti verið mjög vafasamur gróði að því að vinna vikurinn. Mér finnst rétt að segja frá því, hvernig sú aðferð er, sem þeir hafa hugsað sér að nota til þess að vinna vikurinn. Þeir ætla sér að veita vatni yfir sandana og skola vikrinum þannig niður í Jökulsá, og þaðan niður í sjó, en þar ætla þeir að veiða hann í net, og flytja hann svo á bílum til næstu hafnar. Það getur verið, að þetta lánist, en þó mun það vera bundið annmörkum. [Hér mun vanta eitthvað í ræðuna.]

Ég hefi fengið munnlegar upplýsingar um það, að það hafi verið gerðar stórvægilegar uppgötvanir af húsameistara með þessar steintegundir, sem verða þá annaðhvort ekkert notaðar eða að það getur numið þúsundum tonna. þess vegna er þessi skattur svo hlægilega lítill og óverulegur, að ef á annað borð er um eitthvað hér að ræða, þá er verið að spila úr höndum ríkisins möguleikum til verulegrar tekjuöflunar.

Ég vil um leið leiðrétta það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það þyrfti að kaupa dýrar vélar til að vinna steininn. Það þarf ekki. Ég lít svo á, að vel geti komið til mála að flytja hann út sem hráefni fyrst um sinn, ef menn vildu ekki leggja í vélar. Mig grunar, að bak við þessa hugmynd standi peningamannafélag, sem hefir séð, að einn af starfsmönnum ríkisins er búinn að gera merkilega uppgötvun á þessu sviði og ætlar sér að gera þetta að „spekúlations“-máli.

Ég vona, að hv. 1. þm. Reykv. sé þakklátur fyrir þessar upplýsingar og að hægt skuli vera að flytja þessa vöru út og gera hana verðmæta, og þó að hún væri nú flutt óunnin, þá væri hægt að koma breytingu þar á tiltölulega fljótt, ef til kæmi.