04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

Þingfrestun

forsrh. (Hermann Jónasson):

Alþingi hefir nú á þessum fundi gefið samþykki sitt til þess, að fundum þess verði frestað þar til síðar á árinu, þó ekki lengur en til 10. okt.

Mér hefir borizt skeyti frá konungsritara um að konungur hafi gefið út svo hljóðandi bréf, er leyfi þingfrestun:

„Vér Christian hinn Tíundi, af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg.

Gerum kunnugt: Að Vér viljum hér með, að tilskildu samþykki Alþingis, veita yður sem forsætisráðherra Vorum umboð til þess í Voru nafni að fresta fundum yfirstandandi alþingis, frá því er venjulegum störfum þess verður það langt komið, að ekki þyki ástæða til lengra þinghalds að sinni, þar til síðar á árinu, þó ekki lengur en til 10. október næstkomandi.“

Samkv. þessu umboði, sem mér hefir verið gefið, lýsi ég hér með yfir því, að fundum Alþingis verður frestað þar til síðar á árinu, en þó ekki lengur en til 10. okt. næstk.

0163

Á 13. fundi í Sþ., 10. okt., las forsætisráðherra upp konungsbréf, dags. 25. sept., um að alþingi skuli koma saman til framhaldsfunda fimmtudaginn 10. okt. 1935. (Sjá Stjtíð. 1935, Á. bls. 246).

Forseti skýrði frá, að sér hefði borizt bréf frá þm. Snæf. (TT) um, að hann gæti ekki vegna starfa sinna erlendis komið til þings að svo stöddu, og frá 11. landsk. þm. (GTh) um, að hann mundi ekki sitja þetta þing, en æskti þess, að varamaður tæki sæti á þinginu. Þá gat forseti þess og, að þm. V.-Ísf. (ÁÁ) væri á fyrirlestraferð í Ameríku og kæmi ekki til þings, og 1. landsk. þm. (StJSt) væri erlendis, en hans mundi von næstu daga. - Auk þessara þm. voru ennfremur ókomnir til þings þm. Vestm. (JJós) og 1. þm. N.-M. (PHerm).

Á sama fundi var tekin til meðferðar rannsókn kjörbréfs 11. landsk. varaþm., Eiríks Einarssonar. Var gert hlé á fundinum meðan kjörbréfanefnd lyki athugun þess, en eftir það var fundinum fram haldið.