18.10.1935
Neðri deild: 51. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

119. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. (Páll Zophóníasson):

Það, sem hv. 2. landsk. hafði við frv. að athuga í gær, var viðvíkjandi þessum orðum: „eftir sanngjörnum reikningi er ráðuneytið úrskurðar.“ Leit hann svo á, að óþarft væri að taka það fram, að reikningurinn ætti að vera sanngjarn, því það lægi í hlutarins eðli, og ráðuneytið myndi ekki samþ. aðra reikninga en þá, sem væru sanngjarnir. Ég lít svo á, að þetta geti að vísu verið rétt, en með þessu er viðurkennt, að reikningarnir eigi að vera sanngjarnir, og þetta er einmitt sett til þess að minna þann, sem reikninginn semur, og þann, sem samþykkir hann, á, að hann eigi að vera sanngjarn. Ég sé þess vegna enga bót í því að fella þetta í burt og tel, að frv. megi samþ. eins og það liggur fyrir.