18.10.1935
Neðri deild: 51. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

119. mál, kjötmat o.fl.

Magnús Torfason:

Það er satt, yfirkjötmatsmenn eiga að hafa í árslaun allt að 600 kr., og ég verð að játa, að mér hefir fundizt það einsætt, að ekki eigi að gera þessum starfsmönnum landbúnaðarins of hátt undir höfði, eftir því sem vani er að launa slík störf. Ég er ekki í vafa um, að þetta er starf, sem áríðandi er að vel verði rækt og öll alúð lögð við. En frá því ber að segja, að yfirleitt er því svo farið, að þeir, sem eiga að vinna fyrir landbúnaðinn, eru hafðir útundan. Þarf í því sambandi ekki annað en að minna á hreppstjórana, sem hafa 80 kr. í árslaun, og hefir það haldizt óbreytt langan aldur og aldrei verið bætt við, þótt vitanlega hafi störf þeirra margfaldazt frá því, sem áður var, þegar þetta kaup var sett. Öll þeirra skýrslugerð er orðin meiri og margbrotnari, auk þess sem heita má, að í hverjum mánuði komi til þeirra einhverjar rellur frá stjórnarráði, hagstofu og öðrum aðilum um allskonar skýrslur um allt milli himins og jarðar.

Ég vil hreinsa mig af því, að þetta yfirmat verði ekki rækt eins vel og hugsanlegt er. En að láta mennina skaðast á því að ferðast til þess að framkvæma starf sitt er vitanlega til þess að draga úr starfi þeirra, og löggjöfin leggur ekki áherzlu á, að þeir menn standi vel í stöðu sinni, sem hún býr svo við. ver megum ekki vitna í það, þótt sýslumenn hafi ekki ferðakostnað. Fram til 1894 höfðu þeir 2 kr. á dag, en var þá tekið af. Sú stétt hefir aldrei átt upp á háborðið hjá löggjafanum, enda er nú svo komið, að kvartað er undan því af ráðuneytinu, að ekki fáist sæmilegir menn í þau embætti.

Þetta hefir líka verið borið saman við sýslunefndarmenn og sagt, að þeir hefðu ekki annað kaup en dagpeningana. vitanlega er það heiður fyrir hvern mann að vera sýslunefndarmaður í sínum hreppi, og það er nokkurskonar heiðursstaða fyrir oddvita, sem staðið hefir vel í stöðu sinni. Þess vegna sækjast fleiri eftir sýslunefndarmannsstarfi heldur en fá það. Auk þess er þess að geta, að hér er aðeins um 3—4 daga starf á ári að ræða, og það að vetrinum, svo að menn sleppa engu niður við það. En um þetta starf, kjötmatið, er slíku vitanlega ekki til að dreifa, en það starf hlýtur að verða nokkurskonar aukastarf fyrir menn. Og þó að kjötmatsmenn hafi nokkur laun, má samt búast við, að þeir verði að fella einhver önnur störf niður að meira, eða minna leyti, þau er þeir hafa áður stundað. Þess vegna er sjálfsagt, að þeir hafi eitthvað fyrir snúð sinn. Það er mín meining, að það komi ekki til mála að skipa mönnum að vinna opinber störf upp á það, að þeir séu matvinnungar og ekki meira.

Að síðustu vil ég geta þess, að í Árnessýslu fá sýslunefndarmenn ekki aðeins sína dagpeninga, heldur líka fæði. Það var gert blátt áfram af því, að með því að láta mennina vera á fæði (hjá sýslunni) alla á sama stað gekk starf þeirra miklu fljótar. Sýslufundir í Árnessýslu eru nú í 3—4 daga í hvert sinn, í staðinn fyrir fulla viku í gamla daga, eða lengur.

Af því, sem ég hefi nú tekið fram, er það bersýnilegt, að ekki er hægt að bera þetta starf, sem hér um ræðir, kjötmatsstarfið, að neinu leyti saman við störf sýslunefndarmanna.