05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

119. mál, kjötmat o.fl.

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég gat ekki orðið samnm. mínum í landbn. samferða í þessu máli. Í þessu frv. er lagt til, að í staðinn fyrir 1 yfirkjötmatsmann og 3 aðstoðarmenn, sem nú eru, skuli vera 3 yfirkjötmatsmenn. Ég get ekki séð, og hefi ekki heldur heyrt flutt gild rök fyrir því, að þessi breyt. leiði til betra kjötmats en nú er. Ég hefði fremur haldið, að með því að hafa einn yfirkjötmatsmann fengist meiri trygging fyrir því, að matið færi fram á sama hátt um allt land og yrði betur samræmt. Ef þessi breyt. nær fram að ganga, þá er þessi yfirumsjón í höndum þessara þriggja matsmanna, og er hver þeirra sjálfráður í sínu starfi, og finnst mér engin trygging fyrir því, að matið verði framkvæmt á sama hátt hjá þessum þremur mönnum. En það hygg ég, að menn ættu að vera sammála um, að æskilegt sé, að samræmi komist á í þessu efni. Ég skil ekki, að nokkrum manni komi til hugar að rökstyðja þessa breyt. með því, að um sparnað sé að ræða. Það getur að vísu verið um nokkur hundruð krónur — 300 til 400 — að ræða á ári, þótt mér þyki hæpið, að sparnaðurinn verði nokkur við þetta, en jafnvel þó að hann fengist, tel ég ekki borga sig að spara þær fáu kr., ef nokkur hætta gæti verið á, að matið kæmi að minni notum. Undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, þar sem frosið kjöt er orðið svo mikill þáttur í útflutningnum og hefir verið síðustu árin, þá er enginn efi á því, að það er ekki litið komið undir því, að matið fari sem bezt úr hendi. Það á að veita tryggingu fyrir því, að kjötið sé eins og það samkv. mati á að vera. Af þessum ástæðum verð ég að álíta, að hér sé um afturför en ekki framför að ræða hvað matið snertir. Ég sé mér því ekki fært að ljá þessu frv. fylgi mitt, en mun greiða atkv. á móti því.