07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

119. mál, kjötmat o.fl.

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég gerði grein fyrir þeirri skoðun minni við 2. umr. þessa máls, að mér þætti vera stigið spor aftur á bak, en ekki fram, að ekki væri hafður einn yfirmaður yfir kjötmatinu til tryggingar því, að sem bezt samræmi væri í framkvæmd matsins og öllu, sem þar að lýtur. Ég gat þess við þá umr., að ég mundi flytja brtt., sem færi í þessa átt, og liggur hún hér fyrir á þskj. 488.

Brtt. gengur í þá átt, að einn þeirra þriggja yfirkjötmatsmanna, sem frv. gerir ráð fyrir, skuli jafnframt vera kjötmatsstjóri og hann hafi yfirumsjón með allri framkvæmd kjötmatsins í landinu, og að hann skuli halda fundi með yfirkjötmatsmönnunum, svo oft sem þurfa þykir, og veita þeim nauðsynlegar leiðbeiningar til þess að árangur náist um samræmingu matsins. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að ráðh. hafi heimild til þess að láta þennan kjötmatsstjóra ferðast til útlanda, ef nauðsyn þykir til bera, til þess að kynna sér meðferð kjöts í þeim löndum, sem sérstaklega framleiða kjöt til kælingar, og ennfremur að kynna sér kröfur neytenda. Er þetta í samræmi við þau ákvæði, sem sett voru í lög um fiskimatsstjóra, og ætla ég, að það geti verið eins mikil þörf á því í þessu tilfelli eins og með fiskimálin, a. m. k. þegar svona ber undir.

Kostnaðurinn af þessari breyt. er miðaður við það, að laun kjötmatsstjóra og yfirkjötmatsmanna svari nákvæmlega til þeirra útgjalda, sem nú eru til yfirkjötmatsmanns og aðstoðarmanna hans. Svo að kostnaðaraukinn verður enginn af frv., meira að segja getur verið um sparnað að ræða, því að gert er ráð fyrir, að aðstoðarmenn yfirkjötmatsmanna fái dagkaup fyrir þann tíma, sem þeir eru á ferðalagi til aðstoðar við kjötmatið, svo að þrátt fyrir þessa breyt. er heldur um sparnað að ræða frá því, sem nú er. Brtt. miðar því eingöngu að því að tryggja betra samræmi á kjötmatinu, og ætla ég, að hv. þd. líti svo á, að rétt sé að tryggja, það samræmi sem bezt.