19.10.1935
Neðri deild: 52. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

111. mál, gelding húsdýra

Hannes Jónsson:

mér gefst hér tækifæri til þess, í sambandi við þetta mál, að staðfesta það, sem ég sagði áðan við atkvgr. um það mál, sem síðast var afgr. hér í þd., að störfum þessa þings fylgdi svo mikið alvöruleysi og hundavaðsháttur, að það væri algerlega óviðunandi. Ég endurtek þetta, sérstaklega af því að hv. þm. S.-Þ. hékk utan í skrifstofustjóra alþingis hér í þd. og var eitthvað að hvísla um, að ég væri að ráðast á hann fyrir þessa ósvinnu. En mér finnst það lítt sæmandi, þegar þdm. úr stjórnarflokkunum eru að þrefa um það dag eftir dag hér í þd., hvort hundar og kettir eru húsdýr eða ekki. Þeir hafa sjálfir deilt mest um þetta, og sýnir það bezt, hver alvara fylgir störfum þessa þings. Enn fremur má benda á það, til sönnunar þessum skrípaleik, að í dag rís hér upp í þd. hv. þm. Mýr. og tekur aftur brtt. hv. 2. þm. N.—M. á þskj 399 við þetta frv., fyrir hans hönd, en þær voru bornar hér fram í gær, eins og hv. þdm. er kunnugt. Annars ætla ég ekki að ræða þetta ómerkilega mál, sem hér er til umr. og svo miklum deilum hefir valdið í stjórnarliðinu, en vil aðeins í þessu sambandi, um leið og það er afgr. út úr þd., skora á stjórnarliðið að taka til afgreiðslu hin stærri mál, sem fyrir þinginu liggja og full alvara fylgir, en eyða ekki hinum dýrmæta tíma Alþingis í þýðingarlaust glamur um heimskuleg og ómerkileg mál, eins og það, sem hér er til umr.

Ég get ennfremur bent á umr. um annað mál, sem nýlega fóru fram hér í þd., þar sem stjórnarliðar deildu um það, hvort reikningar opinberra starfsmanna til ríkisstj. eiga að vera sanngjarnir eða ekki. Það er ekki von, að vel fari, þegar svona er í pottinn búið af þeim, sem stjórna störfum þingsins. Ég gríp tækifærið til að taka þetta fram, svo að öllum verði ljóst, við hvað ég átti með fyrirvara mínum áðan.

Ég vil óska, að hæstv. forseti stilli svo til, að sem fyrst verði tekin á dagskrá þýðingarmeiri mál en þau, sem rædd hafa verið hér í þd. undanfarna daga, og að þeim verði hraðað til nefnda.