19.10.1935
Neðri deild: 52. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

111. mál, gelding húsdýra

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Út af orðum hv. þm. V.-Húnv. vil ég taka það fram, að ummæli hans geta alls ekki náð til mín eða landbn. Stóryrði þau, sem hann varpaði til stjórnarflokkanna, þar sem hann var að bregða þeim um alvöruleysi í störfum á þinginu og heimskulegt glamur, eru aðeins venjulegt geðvonzkuraus hjá honum, sem ekki hefir við nein rök að styðjast. Ég segi fyrir mitt leyti og f. h. landbn., að þetta mál, sem hér liggur fyrir, er okkur mikilsvert alvörumál. Þau ákvæði, sem sett eru með þessu frv., eru í fullu samræmi við kröfur tímans um meðferð húsdýra. Það er ekkert hégómamál, hvernig farið er með „þarfasta þjóninn“ og önnur húsdýr, sem þetta frv. á að ná til. Það er full þörf á því, að dýrin séu meðhöndluð mannúðlegar en áður hefir tíðkazt og eins og siðuðum mönnum sæmir. Þó að þetta sé að vísu ekkert stórmál, þá er það samt sem áður þýðingarmikið nauðsynjamál. Og ég hefi aðeins rætt um það eins og efni stóðu til. Vænti ég svo, að það hljóti nú fullnaðarafgreiðslu í þessari hv. þd.