18.10.1935
Efri deild: 47. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Við hv. frsm. minni hl. höfumst ólíkt að. Ég gekk inn á að ræða málið frá þeirri hlið, sem að honum snýr, skoða málið frá hans sjónarmiði og meta þau rök, sem hann hafði fram að bera. En þetta gerði hv. þm. ekki. Ég hefi verið að sýna fram á, að l. gangi hér á rétt landeiganda. En þó það geti, eins og ég hefi áður tekið fram, stundum valdið nokkrum ágreiningi, hvernig eigi að skipta afla og hve mikill hluti hans hafi verið tekinn innan netlaga, þá réttlætir það á engan hátt, að borinn sé fyrir borð margra alda réttur landeiganda í þessu efni. Um skiptingu aflans tel ég sjálfsagt, að shlj. framburður skipverja yrði látinn gilda. Ef hv. frsm. minni hl. vildi ræða þá hlið málsins, sem ég hefi snúið að honum, með jafnmikilli sanngirni og ég hefi sýnt hans málstað, hygg ég, að hann myndi snúast á mína sveif. Hann benti á, að l. hefðu verið samþ. á þinginu 1934 án mótmæla. Ég tók það einmitt fram og viðurkenndi, að mér hefði yfirsézt og málið ekki verið nógu vel athugað. En þegar maður verður var við, að eitthvað hefir þannig farið í gegnum hendur hans án nægilegrar athugunar, á hann að vera fús til að bæta úr því. Hitt, að frv. sé flutt fyrir aðra, er að vísu rétt, því það snertir mig ekki persónulega og ég því lítill aðili í því máli. En ég býst við, að eins standi á fyrir hv. frsm. minni hl., að hann sé hér ekki að verja hagsmuni fyrir sjálfan sig, heldur aðra. — Vænti ég, að hv. d. skilji málið og veiti því brautargengi.