22.10.1935
Neðri deild: 54. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Jónas Guðmundsson:

Það var víst ég, sem á síðasta þingi flutti þessi l., sem nú á að nema úr gildi með þessu nýja frv. Eins og ég tók fram þá, var það flutt vegna þess, að fiskiþingið hafði beðið um það sérstaklega, og ástæðan til þess var sú, að risið hafði upp deila, sem orðið hafði að dómstólamáli milli manna á Austfjörðum, um það, hvort heimilt væri að heimta hlut eftir dragnótaveiði, ef hann lenti að einhverju leyti í netlögum ákveðins manns. Ég er enn á þeirri skoðun sem þá, að ómögulegt sé með nokkurri löggjöf að ákveða, hvernig fara skuli með þetta, og það sé bezt eins og gengið var frá því í fyrra, að engan hlut skuli greiða af þessari veiði, vegna þess, að það verður aldrei um það sagt, hvað mikið af veiði, sem í dragnót kemur, er tekið í netlögum og hvað mikið utan þeirra. Hinsvegar er það í l. frá í fyrra skýrt fram tekið, að ef skip þarf að athafna sig í netlögum einhvers manns, þá gjaldi það landshlut, og er það sanngjarnt, þar sem það notar svæði það, sem maðurinn hefir eignarrétt yfir, til þess að hagnýta sér veiðina.

Ég býst við, að flestir hv. þdm. séu það kunnugir víðast hvar inni á þröngum fjörðum okkar lands, að þeir skilji, að það er alveg ógerningur fyrir okkur að ætla, að við getum gert það upp, þegar stórri nót er kastað á síldartorfu, hvað mikið af síldinni, sem í nótina kemur, hefir komið fyrir utan 60 faðma frá landi og hvað mikið fyrir innan, ef straumar og vindur og aðrar óviðráðanlegar orsakir hafa orðið þess valdandi, að nótinni sé lokað í netlögum einhvers manns, og hvaða sanngirni væri það, að greiða landshlut af þeirri síld, sem tekin væri langt úti á firði, fyrir það eitt, að nótin berst inn í netlög þessa manns?

Ég furða mig á því, að menn skuli nú á árinu 1935 vera að vitna í Jónsbók og tilsk. frá 1872. við vitum það, að síðan Jónsbók var samin og jafnvel síðan 1872 hefir tækni í veiðiskap farið það fram, að nú eru komin þau veiðarfæri, sem þá voru ekki hugsanleg, og sem má nota án þess að koma þurfi til að hafa afnot af landi til þess að geta hagnýtt sér veiðina. En eins og hv. frsm. meiri hl. réttilega tók fram, þá gengur tilsk. frá 1872 aðallega út á það, að greiddur sé hlutur af landnotum.

Þetta ákvæði, að þegar nót er kastað úti á firði fyrir síld eða ufsa, en er lokað inn í netlögum, skuli ekki skylt að greiða landshlut, er hliðstætt því, sem er í norsku samningunum, þar sem það er ekki talið landhelgisbrot, þó skip, sem veiðir síld utan landhelgislínunnar, reki inn fyrir línuna á meðan það er að koma síldinni um borð. Ef þetta frv. ætti nú að lögfesta, þá er bókstaflega búið að segja, að hver sá bátur, sem veiðir inni á firði og er svo óheppinn að loka nót sinni í netlögum einhvers manns, skuli greiða 4% af allri veiðinni, þó að hann geti sannað, að öll sú síld, sem í nótina kom, hafi verið veidd fyrir utan netlög. — Mér fyndist þá réttara að nema l. frá því í fyrra alveg úr gildi og láta þetta mál vera eins og það hefir verið frá 1872, þannig að þeir, sem hlut eiga að máli, verði að slást um það í hvert skipti. Reyndar munu þeir vera fáir, sem krefjast þessa hlutar og ákaflega sjaldgæft, að sannað verði, að nót sé lokað í netlögum einhvers ákveðins manns.

Mér finnst, að hér sé verið að varðveita eignarrétt, sem ekki er til. Það má leggja línu í netlögum annars manns án þess að landshlutar sé krafizt. Og því þá frekar að krefjast gjalds, þegar veitt er með veiðarfærum, sem hvergi koma í botn, og ákveða þá svo og svo mörg prósent? Ég greiði atkv. á móti þessu frv., sem ekki yrði til annars, ef samþ. yrði, en koma upp þrætum og málaferlum, sem reynt var að fyrirbyggja með l. í fyrra.