22.10.1935
Neðri deild: 54. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir ekki staðið upp til að mótmæla neinu í ræðu minni, og skoða ég það þannig, að hann hafi tekið rök mín til greina, og þarf ég því ekki frekar að snúa máli mínu til hans. En nú hefir hv. 6. landsk. í þess stað gengið í lið með meiri hl. n., enda var hann flm. þessa máls á fyrra þingi, og hann vill nú færa fram rök móti frv. og leggur til, að það verði ekki samþ. Hv. 6. landsk. segir í fyrsta lagi, að það sé ekki rétt í sambandi við þetta mál að vitna í gömul lagafyrirmæli, því að veiðiaðferðir hafi breytzt. Það er vitanlega rétt, en það gefur ekkert til kynna um það, að eignarrétturinn hafi breytzt, svo að ég fæ ekki skilið, hvaða rök þetta eiga að vera hjá hv. 6. landsk.

Önnur ástæða, sem hv. þm. bar fram móti frv., var sú, að erfitt væri að segja um, þegar kastað væri fyrir síld, hvað veiddist innan netlaga og hvað utan, og út af því getur orðið þrætumál. Það er vitanlegt, að ágreiningur getur risið út af þessari veiði, en ef ekki á að setja lagafyrirmæli neinsstaðar þar, sem slíkt getur komið fyrir, þá yrði fátt ákveðið í l. Og ég get nefnt dæmi. Í lögum um laxveiði í ám er svo ákveðið, að landeigandi eigi veiðirétt út í 1/3 árinnar. Það mun oft vera erfitt að ákveða, hvort þessum fyrirmælum sé hlýtt eða ekki, en það er engu síður rétt að setja þau. Og til þess eru dómstólar að skera úr í svona málum. Annarsvegar skil ég ekki vel þann ótta, sem kom fram hjá hv. þm. um það, að mönnum væri íþyngt með þeim landshlut, sem frv. gerir ráð fyrir, því að hv. 6. landsk. tók fram sjálfur, að það væri mjög sjaldgæft, að þessa landshlutar væri krafizt, m. a. vegna þess, hvað erfitt væri að sanna um veiði í netlögum annars manns. En þá ætti að vera lítil ástæða til að óttast, að veiðimönnum sé íþyngt með slíku gjaldi. — Hinsvegar er það óviðfelldið að setja eða láta haldast lög, sem brjóta í bág við eignarréttinn, meðan hann er í gildi í landinu.

Ég tel ekki, að annað hafi komið fram í ræðu hv. 6. landsk., sem ástæða sé til að svara.