22.10.1935
Neðri deild: 54. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Jónas Guðmundsson:

Ég hefi í rauninni ekki neinu að svara hv. þm. N.-Þ. Hann kvaðst ekki vita, hvaða rök það væru í málinu, að veiðiaðferðirnar hefðu breytzt, en þó er þetta þungamiðjan. Bæði Jónsbók og tilsk. frá 1872 gera ráð fyrir, að ekki sé hægt að nota veiðiréttinn, nema nota um leið land eigandans, og fyrir þau afnot eiga bæturnar að koma. En síðan Jónsbók og tilsk. frá 1872 voru samin, eru komnar nýjar veiðiaðferðir og ný veiðarfæri, svo sem snurpinót, sem hægt er að taka með fiskinn án þess að hagnýta sér nokkuð land manna.

Hvað því viðvíkur, að erfitt sé að ákveða, hvað veitt er innan netlaga, vil ég segja það, að enginn maður getur um það dæmt, þegar lögð er t. d. 120 faðma löng nót, hvað mikið veiðist í hana innan 60 faðma frá landi og hvað utan, það yrði þá að setja merki á síldarnar, sem koma í nótina innan og utan netlaga. Og hér er alls ekki um það að ræða, að hagnýta þurfi land, — ekki einu sinni festar þarf að nota. Þetta sýnir, að með hinum breyttu veiðiaðferðum er fallin niður ástæðan fyrir því, að veiðimenn gjaldi landshlut eins og áður. Í l. frá fyrri öldum kom gjaldið fyrir það, er bátum var lagt í landi annars manns eða afli settur á land. Það, sem ég færði fram um breyttar veiðiaðferðir, eru því fullkomin rök í málinu. Til þess að fyrirbyggja, að þrætur yrðu út af því, hvað tekið væri af afla í netlögum og hvað utan þeirra, þá var breytingin tekin upp á tilsk. frá 1872, sú sem samþ. var á síðasta þingi. Og það er ekki sízt starf Alþingis að setja skýr ákvæði um þessa hluti, og það var einmitt bezt gert með l. í fyrra, þar sem leyfið er miðað við, að nótin sé ekki fest við land eða legufæri. Mér finnst engin rök hafa komið fram, er sýni, að heppilegt sé að breyta lagasetningunni frá síðasta þingi.