22.10.1935
Neðri deild: 54. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Ég skal vera fáorður. Ég vil aðeins vekja athygli á misskilningi, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann segir, að eftir gömlu tilskipununum eigi að koma greiðsla landshluta fyrir að draga nótina á land upp eða nota á annan hátt land jarðeiganda, en ekki fyrir veiðiréttinn. Þetta er ekki rétt, og ég skal gefa skýringu á þessu með því að lesa upp 2. gr. í tilsk. frá 1872, þar sem segir: „Geri nótarmenn með þessu skaða á túni, engjum eða haga eða á friðlýstu æðarvarpi eða selalögnum, eða það verði almennum afnotum landeignarinnar til fyrirstöðu, skulu fyrir það koma sanngjarnar skaðabætur.“ Hér er því gert ráð fyrir sérstöku gjaldi, ef skaði verður á landareign, eða fyrir afnot á landi. Aðalgjaldið kemur því fyrir afnot af veiðiréttinum, og styður þetta mitt mál.