29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

95. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. (Sigurður Einarsson):

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. á þskj. 294 við 1. gr. þessa frv. Hún er á þá leið, að í stað þess, sem í frvgr. segir: „Nú óskar bæjarstjórn, að reist sé hús fyrir gagnfræðaskóla í kaupstöðum og leggur fram fé í því skyni, og er þá ríkissjóði skylt að leggja fram sinn hluta á móti“, þá segir í brtt., að í stað orðanna „ríkissjóði skylt að leggja fram sinn hluta á móti“ í 1. málsgr. 1. gr. komi: skylt að veita fé úr ríkissjóði á næstu fjárlögum, hlutfallslega við framlag kaupstaðarins“. Það, sem fyrir mér vakir með því að flytja þessa brtt., er nokkuð það sama og vakir fyrir hv. þm. Borgf. með brtt. hans, að ríkissjóði verði ekki gert að skyldu að leggja fram fé án þess að tími vinnist til að taka það upp í fjárlög. Mér finnst brtt. mín líka gleggri en brtt. hans.

Að bera slíka brtt. fram sem þessa er sannarlega ekki út í bláinn, því að það hefir sýnt sig, að með því skipulagi, sem nú er á þessum málum, þá getur annar aðilinn tafið mjög fyrir framgangi þessara mála. Hér er því um það að ræða að framkalla jafnrétti á milli ríkissjóðs og bæjarfélaganna í þessum efnum, og að sá aðilinn, sem frumkvæðið á að hafa um þessa hluti, fái aðstöðu til að geta hrundið málinu áfram án þess að hinn geti orðið framgangi þess til hindrunar. Þetta hlýtur hv. þm. Borgf. að skilja, því að það er alveg hliðstætt því, að þegar bóndi vill girða land sitt, þá getur hann látið nábúa sinn girða á móti sér. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt. þessa. mér virðist hún gleggri en ákvæði frv. og brtt. hv. þm. Borgf., en þó sneitt framhjá því skeri, sem helzt getur orðið til steytingar í þessu máli.