30.10.1935
Efri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

144. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Eins og sagt er í grg. er frv. þetta komið frá Landsbankanum til fjmrh. og þaðan til fjhn. þessarar deildar, sem flytur málið.

Málið liggur þannig fyrir, að 10. flokkur veðdeildar Landsbankans, sem stofnaður var 1932, er að þrotum kominn og því nauðsyn á nýjum flokki. Aðalbreytingin frá hinum fyrri lögum er í þessu frv. sú, að ákvæðið um heimild ríkissjóðs til að kaupa bankavaxtabréf, sem að vísu hefir ekki verið notuð, hefir verið felld niður. Með frv. fylgdi svo hljóðandi bréf frá bankastjórn Landsbankans:

Landsbanki Íslands.

Reykjavík, 19. okt. 1935.

Úr 10. flokki veðdeildarinnar, sem tók til starfa 1. marz 1932, er nú búið að veita lán að upphæð samtals 4890000 krónur, og eru þá eftir af þessum flokki 1110000 krónur.

Þar sem gera má ráð fyrir, að eftirstöðvar þessa flokks endist eigi nema nokkuð fram yfir áramót, leyfum ver oss hér með að senda yður, hæstvirti fjármálaráðherra, meðfylgjandi uppkast að frv. til laga um heimild fyrir veðdeildina til að gefa út nýja flokka (seríur) bankavaxtabréfa, með ósk um, að það verði lagt fyrir Alþingi það, sem nú stendur yfir, og að þér styðjið að því, að það nái fram að ganga.

Með því að undirbúningur að stofnun nýs flokks tekur nokkuð langan tíma, væri æskilegt, að afgreiðsla fyrrgreinds frumvarps yrði hraðað sem allra mest.

Virðingarfyllst

Landsbanki Íslands

Magnús Sigurðsson. Georg Ólafsson.

Til fjármálaráðherra, Reykjavík.

Ég vil geta þess, að fjhn. hefir tekið trúanlegan þennan undirbúning Landsbankans og því ekki farið svo nákvæmlega út í málið sem vant er um mál. Ég tel þó rétt, að n. geri samanburð á þessu frv. og fyrri lögum, svo að hún gangi úr skugga um, að rétt sé frá öllu gengið.

Vera má, að sumum þyki verra, að heimildin um lántöku ríkissjóðs er felld niður. En þess er að gæta, að heimildin var ekki notuð til lántöku handa síðasta flokki, enda mun ekki þykja ára vel til lántöku nú.

Það er vitað, að gengi veðdeildarbréfa Landsbankans er lágt. Þeir, sem lánin fá, verða oft að láta allt að 1/4 í afföll. Þetta er þeim mun óhentugra, þar sem aðeins er lánað út á 40% af virðingarverði fasteigna, svo að mönnum er hvergi gert að skyldu að eiga eins mikið af húsum sínum og í þessu kapitalfátæka landi. Landsbankinn varði áður nokkrum hundruðum þúsunda til kaupa á bankavaxtabréfum, og gerði það gengið hærra. Þessu hefir nú verið hætt, af því að fé er ekki fyrir hendi. En þótt lánskjörin séu ekki hagstæð, taldi fjhn. sjálfsagt að flytja þetta frv., til þess að veðdeildarlánastarfsemin falli ekki niður.

Nefndin leggur til, að frv. verði samþ., en óskar hinsvegar, að forseti dragi nokkuð að taka það á dagskrá, svo hægt sé að bera frv. saman við eldri löggjöf.