21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég vænti þess, að hv. þdm. hafi veitt því athygli, að það hafa borizt hingað mótmæli frá fjölda manns á Ísafirði gegn þessu frv. Og ég vil taka það fram, að eftir mínum kunnugleika virðast undirskriftirnar undir þessi mótmæli ekki vera pólitískar; þær virðast vera mjög af báðum hinum stærri stjórnmálaflokkum þar á staðnum. En þessar undirskriftir eru mjög almennar, eftir því sem ég fæ bezt séð, meðal þeirra manna, sem fasteignir eiga. Ég vil líka taka fram, af því þetta frv. er stutt með því, að það hafi verið samþ. af bæjarstj. á Ísafirði, að af 9 í bæjarstj. greiddu 5 atkv. með frv., en 4 á móti. Svo stuðningurinn við þetta mál frá Ísafirði held ég sésvona nokkuð rýr.

Um frv. að öðru leyti skal ég segja þetta: Hér er farið fram á tvo gjaldstofna fyrir ísafjarðarkaupstað. Mér kemur það ekki svo mjög á óvart, þó þessi kaupstaður eins og aðrir komist að þeirri niðurstöðu, að það sé erfitt að jafna niður útsvörum á borgarana eftir efnum og ástæðum, þegar ríkissjóður er um það bil að leggja algerlega undir sig þennan eina gjaldstofn, sem bæjarfélögin hafa hingað til haft, með mikilli velþóknun hv. flm. þessa frv. og samherja hans hér í d. Það rekur nú að því, sem ég og margir fleiri hafa spáð, að þegar ríkið sýnir þá ágengni að hrifsa undir sig einasta gjaldstofninn, sem bæirnir hafa haft, þá fara þeir að keppa við ríkissjóð um aðra gjaldstofna, sem hann hefir setið einn að áður. Það er fullillt að hafa stofnað bæjarfélögunum út í þessi vandræði, en hitt er þó verra, ef sömu menn fara svo að grípa til örþrifaráða til þess að bæta úr þeirri skyssu, sem þeim hefir orðið á, og koma fram með till. um gjaldstofna, sem eru eins fjarri öllu skynsamlegu viti eins og mér virðist þessi vera. Ég heyri að vísu, að hv. 1. landsk. söng þessu frv. mikið lof. Mér skildist hann telja líkt á komið með því gjaldi, sem lagt yrði á gegnum einkarétt á uppskipun og framskipun, eins og gjaldinu, sem á leggst til tekjuöflunar í Vestmannaeyjum samkv. frv. næst á undan á dagskránni. Þetta er náttúrlega alls ekki rétt. Hv. þm. hefir líklega ekki athugað það, að hér verður lagt gjald á mjög mikið af vörum, sem fara til skattþegna utan Ísafjarðarkaupstaðar, en í Vestmannaeyjum mun það ekki vera svo neinu nemi. Hér er verið að heimila að leggja skattgjald á menn úr öðrum sveitarfélögum heldur en því, sem teknanna á að njóta, menn úr Ísafjarðarsýslum t. d. Það má vitanlega deila um, hvort það væri að öllu leyti óréttmætt, en hofs verður þó a. m. k. að gæta í slíku, og líklega má færa rök fyrir því, að það komi hart niður á ýmsum í næstu þorpum, ef Ísafjarðarbær fengi að skattleggja með uppskipunargjöldum vörur til þeirra, ef það yrði nokkuð að ráði.

Hv. þm. sagði, að það væri að vísu ekki fordæmi fyrir því annarsstaðar, að bæir mættu taka þannig lagaða einokun á framskipun og uppskipun en það væri mjög gott fordæmi fyrir því á Ísafirði. En þetta eina fordæmi er nú þannig, að Ísafjarðarkaupstaður braut lög á borgurunum í 10 ár, eins og hv. þm. sjálfur lýsti yfir, að væri staðfest með dómi. Svo bætti hv. þm. við, að þennan tíma, sem Ísafjarðarkaupstaður hafði upp- og framskipunina með höndum, hefðu uppskipunargjöldin verið hin sömu eins og áður og síðan. Ég vil nú minna hv. þm. á, að það var ekki alveg sami kostnaður við uppskipunina og framskipunina áður en bæjarstj. Ísafjarðar hrifsaði undir sig þessa einokun, meðan kaupgjaldið var 50 til 60% hærra heldur en það varð eftir að bæjarfélagið fór að hafa með þetta að gera. Og það er ekki heldur satt, eftir því sem mér er skýrt frá af fyrrv. bæjarstjórn á Ísafirði, að uppskipunar- og framskipunargjöldin séu þau sömu og áður var. Svo ég held, að það sé ekki of mikið sagt, þó ég segi, að það, sem hv. 1. landsk. ekki fór rangt með í þessu efni, hafi þá a. m. k. verið byggt á misskilningi.

Þetta frv. er harla einkennilegt að því leyti, að komið er þar fram með nýjan skattstofn. Nú er reyndar ekkert því til fyrirstöðu, að þreifað sé fyrir sér með skattstofn fyrir kaupstaðina, þar sem ríkið er búið að leggja undir sig skattstofna þeirra. En kaupstaðirnir eru löngu búnir að finna þennan skattstofn. Það hefir f. d. á Ísafirði verið lagt á menn gjald, ekki eftir efnum og ástæðum, heldur miðað við það, sem selt hefir verið af vörum. Svona gjald væri réttmætt og heppilegt, ef það væri öðruvísi á lagt. Venjulega hefir það verið tíðkað að leggja gjaldið á eftir vörumagni, en ekki eftir hagnaði af verzlun, og svo var á tímabili á Ísafirði. Gjaldið varð þá, t. d. af fiski, tiltölulega hærra, ef útflutningurinn gekk illa. En þessu mætti auðvitað koma skynsamlegar fyrir.

Nú er ætlazt til, að þessi tekjustofn sé lagður niður, en lagt sé á hið harla einkennilega fasteignagjald. Það á að leggjast mjög mismunandi á fasteignir, eftir því, til hvers eignirnar eru notaðar, og af húsum ennfremur mismunandi eftir verðmæti þeirra, miðað við fasteignamatið og íbúafjölda. Ef hús er t. d. notað fyrir verzlun eitt árið en til íbúðar annað árið, þá er gjaldið, skilst mér, mismunandi af hundraði, eftir því hve hátt húsið er metið að fasteignamati. En það sest ekki af frv., hvort prósenturnar eiga að vera hærri eða lægri, eftir því hvort húsið er metið hátt eða lágt. Bæjarstj. má sjálf semja reglugerðina og heimilast með þessu að draga menn í dilka til gjalda, eftir því sem henni þóknast.

Það er mjög óheppileg regla að leggja á borgara gjöld, sem ekki eru skýrt ákveðin í lögum, að geðþótta manna, sem ráða meiri hl. sveitarstjórna í það og það skiptið, svo að hversu þungt gjöldin falla á Pétur eða Pál, getur farið eftir því, hvort menn eru í náð hjá bæjarstjórnum þá og þá. Ég held, að Alþ. dytti ekki í hug að gefa ríkisstj. svipað vald. Ég tel þetta líka mestu fjarstæðu. Hv. frsm. sagði, að þar eð þetta fasteignagjald væri leyft annarsstaðar, þá mætti eins leyfa það á Ísafirði. En þar, sem það er annarsstaðar, annast bærinn dýr verk fyrir borgarana (sorphreinsun, sóthreinsun), sem bærinn á Ísafirði tekur fyrir sérstakt gjald. Er þar ólíku saman að jafna. Ísafjarðarbær hefir líka lóðagjöld, sem ætla mætti, að kæmu réttlátlega niður. En þau eru miðuð við stærð lóðarinnar, en ekki það, hvernig hún liggur eða hvað verðmæt hún er.

Það væri heppilegra fyrir hv. þm. Ísaf. að koma með brtt. um það, að þau væru greidd skynsamlegar, eftir fasteignamati, en ekki eftir stærð lóðarinnar, eins og nú er.

Það er rétt, að Ísafjarðarbær tekur ekki vatnsskatt. En ég hefi ekki álitið, að það væri rétt. Ég hefi ekkert á móti því, að Ísafjörður legði vatnsskatt á sína borgara. Menn eiga að borga fyrir þau þægindi, sem menn hafa, en það á ekki að leggja á menn skatt út í loftið, og einkanlega ekki að fela slíkt pólitískri bæjarstj., sem lagt getur og hefir lagt misjafnlega á borgarana eftir geðþótta sínum.

Í grg. er sagt, að ekki hafi verið lögð á hærri upp- og framskipunargjöld á Ísafirði en annarsstaðar. Í því sambandi vil ég minna á, að það er ekki réttmætt, að uppskipunargjöld séu í öllum kaupstöðum lík. Það á ekki að vera líkt uppskipunargjald í kaupstað, sem hefir byggt höfn sína upp úr algerðri hafnleysu (eins, og hér og í Vestmannaeyjum) og bæ eins og Ísafirði, sem hefir beztu höfn frá náttúrunnar hendi. Það er ekki til að gorta af, þó þessi staður fari ekki fram úr öllum öðrum um uppskipunargjald.

Ég ætla ekki að fara um þetta fleiri orðum, en ég vil endurtaka það, að frv. á sér enga stoð í vilja manna á Ísafirði. Það var samþ. af bæjarstj. með eins atkv. mun. En allir borgarar Ísafjarðar, sem hafa látið til sín heyra um þetta mál, hafa andmælt frv. með rökum, og ég skora í þm. að kynna sér þau rök.