21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. taldi það mestu firru, að ég skyldi andmæla frv. Hann ætti þó að vita, að ég er ekki einn um þetta, þar sem flestir Ísfirðingar, sem látið hafa til sín heyra um frv., hafa andmælt því harðlega. Annars ætla ég mér ekki að fara langt út í þessa ræðu hv. þm. Ég geri ekki ráð fyrir, að henni hafi verið ætlað að hafa mikil áhrif. Hann talaði um, að ég myndi víst vilja fara fram á, að gjöld af lóðum í Rvík yrðu jöfn, hvort sem þær eru verðmætar eða ekki. Ég veit ekki, hvort ég á að svara svona vitleysu. Ég hélt því fram, að það væri sjálfsagt að breyta gjöldunum á Ísafirði, svo að þau færu eftir verðmæti lóðanna. Ég veit ekki, hvort þetta hefir snúizt svo í höfðinu á hv. þm., að hann héldi, að ég hafi viljað láta leggja gjöldin á eftir flatarmáli.

Hv. þm. sér alltaf rautt, ef ég stend upp hér í d., en ég verð að virða honum það til vorkunar. Ég má víst reyndar ekki tala sérstaklega um hann persónulega, því að ég sé, að hann er ekki viðstaddur.

Þá sagði hv. þm., eins og til tryggingar því, hvað hóflegt uppskipunargjaldið ætti að verða, að það yrði ekki hærra en meðaltal af gjaldi síðustu þriggja ára. En meðan bærinn hafði uppskipun, voru gjöldin ákaflega há, og eru nú auk þess ólögleg.

Það er rangt hjá hv. þm., að ég hafi ekki tekið eftir því, að lóðargjöld ættu að hverfa, ef þessi gjaldstofn kæmist á. En ég taldi skynsamlegra að láta lóðargjöldin haldast heldur en leggja þennan nýja fasteignaskatt á. Ef á að leggja gjöld á borgarana, þá vil ég, að bæirnir geri eitthvað fyrir þá í staðinn. Í öðru lagi vil ég, að gjöldin séu ákveðin með lögum, en bæjarstjórnum sé ekki heimilað að leggja þau á eftir geðþótta sínum, þó að sagt sé, að miða eigi við þetta og þetta, þá er ekkert tiltekið í frv., hvernig má miða við það, ekki sagt, hvort gjaldið er t. d. hærra af hundraði þar, sem fáir búa, eða ekki. Það getur vel snúizt svo í höfði þessa hv. þm., að hann vilji leggja á eftir því, hver á húsið. Mig grunar það helzt.

Ég hefi hér undirskriftaskjal frá Ísfirðingum, sem ég gat um áðan. Ef hv. dm. hafa ekki haft tíma til þess að athuga það, þá vildi ég lesa skjalið, með leyfi hæstv. forseta. Það er sú eina rödd, sem komið hefir frá Ísafirði í þessu máli, önnur en samþykkt bæjarstj. með eins atkv. mun. Skjalið hljóðar svo:

„Undirritaðir húseigendur í Ísafjarðarkaupstað leyfa sér að senda háttv. Alþingi mótmæli út af frv. því um húsa- og lóðaskatt hér í bænum, sem fram hefir verið borið á Alþingi samkv. samþ. meiri hl. bæjarstj. hér (5 atkv. gegn 4).

Þótt við hvorki sem borgarar bæjarins eða húseigendur sérstaklega viljum mæla okkur undan sanngjörnum og nauðsynlegum sköttum til bæjarfélagsins, verðum við að mótmæla þessum skatti af eftirtöldum ástæðum:

l. Framkvæmd reglugerðar um innheimtu skattsins er algerlega lögð í hendur meiri hl. bæjarstj. frá ári til árs, og stighækkun hans háð geðþótta sama meiri hl. Yrðu slík lagaákvæði einstæð hér á landi og opnuð leið til þess, að skatti þessum mætti beita sem pólitískum skatti“.

Ísfirðingar mega vita hvað þeir eru að segja þarna. Þeir þekkja það.

2. Eins og skattstiginn er hugsaður og ráðgerður af meiri hl. bæjarstj., yrði hann ósanngjarn handahófsskattur.

3. Stighækkun skattsins, ef til framkvæmda kæmi, á að vorum dómi að byggjast á arði húseigna eða lóða, en ekki afnotum, þar sem það er öllum kunnugum vitanlegt, að hér í bæ er um engar „luksus“-íbúðir að ræða. Þessi skattgreiðsla yrði því í framkvæmd óeðlilegur og einstæður skattauki á þá ákveðnu notkun borgara á fjármunum sínum, að vilja búa sæmilega.

4. Skattur þessi yrði og óhjákvæmilega til þess að hækka bæði húsaleigu og lóðaverð, sem hvorttveggja er fullhátt fyrir, og því auka enn dýrtíðina í bænum og draga úr mönnum hvöt til þess að eignast sjálfsíbúðir, sem telja verður þó æskilegt frá sjónarmiði alls bæjarfélagsins“.

Ég vil sérstaklega undirstrika síðasta atriðið, sem tilfært er í skjalinu, því að það er háskalegt að leggja þunga steina í götu þeirra manna, sem eru að brjótast í því að fá þak yfir höfuð sér. Allir skattar á híbýli manna verða til þess, að sem fæstir vilja eiga hús; þeir vilja þá skjóta sér undan að eiga sjálfir eignirnar, en sæta lagi að nota heldur annara eignir.

Ég ætla svo ekki að fara um þetta fleiri orðum. Ég get sagt, eins og hv. þm. Ísaf., en bara með meiri sanni en hann, að ég hefi sáralitlu að svara haus ræðu. — Þessar undirskriftir frá nokkuð á 2. hundrað manns, ekki eftir pólitískri flokkaskiptingu, heldur frá mönnum, sem líta á þetta af skynsemi, vega mest í málinu.