21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Finnur Jónsson:

Ég vil aðeins gera örstutta aths. við ræðu hv. 6. þm. Reykv. Frá því sjónarmiði sem hann lítur á húseignagjöld, þá er það furða, að hann skuli haldast hér við sem þm. fyrir Reykv., með þeim fasteignagjöldum, sem nú hvíla á Rvík. Sá ótti, sem kom fram í ræðu hans við það, að óhæfilega há gjöld yrðu lögð á einstök hús, líklega eftir þeirri reglugerð, sem stjórnarráðið setti, er vitanlega ástæðulaus, þar sem hámark fasteignagjalda er ákveðið lægra í frv. en fasteignagjöld eru í Rvík. Þessi mismunur myndi þá koma fram í því, að margar eignir slyppu með lægra gjaldið. Tilætlun þeirra, sem að frv. standa, er sá, að hafa, eins og í Rvík, lægri gjöld af lóðum, reitum og erfðafestulöndum en af byggingarlóðum. En sá munur yrði til þess, að af öllum almennum húseignum yrðu fasteignagjöldin lægri en í Rvík. Hámarksákvæðið yrði aðeins notað á verzlunarhús og skrifstofubyggingar. Mér finnst, að þessi lög gefi í höndum réttlátrar bæjarstj. tækifæri til að veita fátækum borgurum ívilnanir.

Viðvíkjandi því, að frv. þetta ætti að vera dauðadæmt vegna þess, að á bæjarstjórnarfundi var það samþ. með 5:4 atkv., þá vil ég segja það — og bið hv. þm. Vestm. að leiðrétta, ef ekki er rétt hermt —, að meðmæli með frv. frá Vestmannaeyjum, sem áður var hér til umr., voru samþ. með eins atkv. meiri hl. (JJós: Já, en það var sá réttláti meiri hl.). Ég veit ekki til, að hv. þm. Vestm. telji, að það séu gild rök til þess að fella hans frv.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta. Ég hefi svarað því, sem ég þurfti að svara í ræðu hv. 6. þm. Reykv.