25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. hélt fram, að það væri allt öðruvísi ástatt um þá tekjuöflun fyrir Ísafjarðarkaupstað, sem í þessu frv. felst, heldur en þá tekjuöflun, sem farið er fram á í frv. um bæjargjöld á Akureyri. Að svo miklu leyti, sem þetta frv. fer fram á að afla bæjarfélaginu tekna gegnum einkarétt á uppskipun og framskipun, þá hlýtur það að verka nákvæmlega á sama hátt eins og þó gjald væri lagt á uppskipun og framskipun eftir einhverjum ákveðnum taxta. Hv. þm. vildi að vísu halda fram, að uppskipunin og framskipunin hefði verið svo lágt reiknað, að hún hefði ekki verið dýrari heldur en á meðan hið frjálsa fyrirkomulag var. Ég skal nú ekki um þetta segja, mér skilst, að bærinn hafi haft einkarétt á þessari starfrækslu um undanfarin 10 ár. Og ég veit ekki, hverjar breyt. hafa orðið á uppskipunar- og framskipunartaxtanum á þessu tímabili. En hitt er vitanlegt, að fyrir tíu árum var þessi taxti yfirleitt hærri heldur en nú mun tíðkast, af þeirri eðlilegu ástæðu, að þá var skammt liðið frá þeim tíma, þegar allur slíkur kostnaður var í hámarki, og breytingar á honum eru alltaf fremur hægfara í kaupstöðum. Ég get því trúað, að á þeim tíma, sem bærinn tók upp- og framskipun í sínar hendur, hafi taxtinn verið nokkuð hár, og hafi honum verið haldið í svipuðu horfi síðan, þá er sjáanlegt, að mikill gróði hefir verið að því fyrir bæinn. Enda viðurkenndi hv. þm., að svo hefði verið. Þessi starfræksla bæjarins hefir þannig e. t. v. orðið til þess að halda við óeðlilega háum upp- og framskipunargjöldum á Ísafirði. Og sú aðferð til tekjuöflunar fyrir bæinn er nákvæmlega sama eðlis eins og uppskipunar- og framskipunargjöld þau, sem Akureyrarbær fer fram 2 heimild til að leggja á. Þarna fá bæirnir í báðum tilfellum aðstöðu til þess að ná tekjum af mönnum utan bæjarfélaganna, hvort sem það er gert með beinu gjaldi af upp- og framskipun eða með hærri álagningu á upp- og framskipunina sjálfa. Þetta finnst mér ekki réttmæt tekjuöflunaraðferð, og þó sumir kunni að halda fram, að hér sé aðeins um tilfærslu á útsvörum að ræða — það séu verzlanirnar, sem bera útsvörin, og þetta komi eftir sem áður niður á þeim, sem vörurnar kaupa —, þá er a. m. k. þægilegra að leggja útsvör á verzlanirnar í samræmi við aðra, sem útsvör bera á þessum stoðum. Útsvörin verða að miðast við umsetninguna og þá útkomu, sem rekstrarreikningur hlutaðeigandi verzlunar sýnir.

Nokkuð er öðruvísi háttað um hliðstæð gjöld í Vestmannaeyjum, eins og ég tók fram í umr. um það frv., því þar er upp- og framskipunin nær einvörðungu fyrir Vestmannaeyinga sjálfa. Aðrir, sem utan við bæjarfélagið standa, koma ekki til með að greiða sem nokkru nemur gegnum þessa tekjuöflunaraðferð til bæjarsjóðs Vestmannaeyja.

Af þessum ástæðum tel ég það óréttmætt spor, sem hér á að stíga. Ég álít, að ef bæirnir eiga að fá slíka aðstöðu til tekjuöflunar, þá megi segja um einstaka hreppa, að þeir eigi að fá sömu aðstöðu til að ná tekjum af upp- og framskipun innan sinna takmarka. Og þá kæmi fram mesta ranglæti gagnvart öðrum hreppum í sama sýslufélagi. Það gæti komið fyrir, að hreppsfélag, sem hefði verzlunarstað innan sinna vébanda, fengi mestar sínar tekjur gegnum upp- og framskipunargjald, en hinir hrepparnir, sem enga verzlun hafa, hefðu engan tilsvarandi tekjustofn, og yrðu þar á ofan kúgaðir til að standa að nokkru leyti undir gjöldum þess hreppsfélags, sem verzlunina hefir. Ég er því algerlega mótfallinn þessari aðferð til tekjuöflunar, þó ég hinsvegar viðurkenni þörf bæjarfélaganna á auknum tekjustofnum. Ég álít, að það eigi að ganga inn á aðra braut, eins og gert er að nokkru leyti í þessu frv., þar sem um lóðagjaldið er að ræða. Þó e. t. v. megi segja, að vafasamt sé að leggja svo hátt gjald á lóðir sem hér er farið fram á, þá er það atriði, sem snertir kaupstaðarbúana sjálfa eingöngu. En vegna hins ákvæðisins, sem mér sýnist sama eðlis eins og ákvæði frv. um bæjargjöld á Akureyri, þá hlýt ég að verða á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga.