29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

ég skil ekki tefja mikið hv. d., en ég get tekið undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um þetta mál. — Ég vildi þó segja nokkur orð út af þeim orðum hv. 1. landsk., að hann teldi það réttmæta meginreglu að leggja á eftir efnum og ástæðum. Ef á að framfylgja þeirri meginreglu, þá fæ ég ekki séð, að það sé meining þeirra, sem að þessu frv. standa, að fasteignagjöld skuli t. d. ekki lögð raunverulega á húseign, heldur á eigandann, því að ef ekki ætti að hafa þessa aðferð, raunverulega að leggja á eigandann og miða við efnahag hans, en ekki húsið sem slíkt, þá mundi ekki verða fullnægt þeirri meginreglu, að leggja gjaldið á eftir efnum og ástæðum. Ég vil ekki til, að það séu nokkursstaðar ákvæði um fasteignagjöld í ýmsum kaupstöðum þessa lands, þar sem þau ákvæði eru sett þannig fram, að það sé mismunandi, eða að það sé innan þess ramma, sem það á að vera hér, án þess að taka það fram í l. sjálfum, við hvað eigi að miða, þegar gjaldið sé lagt á. En hér er ekki talað um það, hvernig gjaldið skuli lagt á, heldur að það skuli vera mismunandi og ákveðið eftir reglugerð, sem bæjarstj. samþ.

Það, sem er tekið fram í gr., við hvað eigi að miða, er íbúafjöldi, eftir því hvað húsið er verðmætt, miðað við fasteignamatsverð. Þá fæ ég ekki betur séð en að þarna verði að miða við eiganda hússins, en ekki húsið sjálft, því að ef gjaldið átti að vera mismunandi, eingöngu miðað við íbúafjölda hússins, þá hlyti slíkt að koma þannig út, að þeir, sem væru fátækastir og skulduðu mikið út á sín hús, yrðu að greiða mest gjald, og þá er ekki náð þessari meginreglu, sem ætlazt er til af hv. flm.

Ég veit, að hv. þm. Ísaf. hefir verið hér að undirstrika l. um vatnsveitu í Reykjavík, þar sem gjaldið, sem greiða á til bæjarins fyrir vatn, er mismunandi eftir íbúafjölda. En þetta er ekki sambærilegt vegna þess, að þetta gjald er raunverulega ekki skattur, heldur er það aðeins greiðsla á andvirði vatnsins, sem látið er eigendum húsanna í te, og því getur það ekki talizt skattur frekar en greiðslur fyrir t. d. gas eða rafmagn. Það er þess vegna engan samanburð hægt að gera á þessu, því að með vatnsveitugjöldin er gengið út frá því, að greitt sé eftir íbúafjölda, og þar er fylgt þeirri meginreglu, að þar, sem íbúarnir eru fleiri, þar verða gjöldin hærri.

Ég er alveg undrandi yfir því, að löggjafinn skuli vilja setja slík ákvæði, hvernig eigi að skattleggja íbúa þessa kaupstaðar, vegna þess að það er útilokað annað en að þar verði beitt misrétti.

Ég vil nú taka dæmi, tvö hús á Ísafirði. Annað tilheyrir efnuðum borgara, hitt fátækum. Eigi nú að fylgja reglu hv. 1. landsk., að leggja á eftir efnum og ástæðum, þá á sá vitanlega að greiða hærri skatt af sínu húsi, sem efnaðri er. En ef efnaði maðurinn selur sitt hús fátæka manninum, hvernig á þá að fara að? Fylgir þessi hái skattur þá húsinu áfram, eða á að lækka skattinn af því að fátæki maðurinn er orðinn eigandi hússins? Ég fæ ekki séð, ef á að fylgja þessari meginreglu, að leggja á eftir efnum og ástæðum, að komizt verði hjá að breyta gjaldinu af þessu húsi. Þannig getur þá bæjarstj. lagt þessi gjöld á eftir því sem henni þykir við eiga í hvert skipti. Ég efast um, að þetta sé ekki brot á 36. gr. stjórnarskrárinnar, að engan skatt megi á leggja breyta né af taka nema með lögum. Það er að vísu lögbundið, að ekki megi fara uppyfir visst hámark, 1%, en annars er bæjarstj. frjálst, innan hvaða takmarka þetta gjald er sett. Það er því fullkomlega athugunarmál fyrir hæstv. forseta, hvort hann vill ekki vísa þessu máli frá, sem brjótandi í bág við stjskr. Í frv. eru líka ákvæði, sem brjóta í bág við gildandi l., án þess að tekið sé þá fram um leið, að þau ákvæði eigi að nema úr gildi. Í 3. gr. er gefið veð fyrir 2 ára vöxtum, sem brýtur í bág við ákvæði um, að vextir hafi ekki veð í fasteign nema eitt ár frá gjalddaga. Væri því ástæða til að setja í frv., að það ákvæði væri þá úr gildi numið. Ég tel þess vegna, að það sé a. m. k. ekki gott til eftirbreytni, ef þetta frv. verður samþ., og löggjafinn fer inn á þá braut, að láta þann meiri hl., sem á hverjum tíma ræður í einstökum kaupstöðum, geta jafnvel ráðið því, hvort borgararnir eiga í þessu tilfelli að greiða svona og svona háan skatt af sínum eignum, en í öðrum tilfellum tífalt lægri, sem í mörgum tilfellum getur orðið til óánægju og tortryggni gagnvart þeim, sem með það fara. Löggjafinn á að ákveða, hvernig með þetta skuli fara, en ekki gefa bæjarstj. það frjálst.