18.02.1935
Efri deild: 5. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Kosning fastanefnda

Jónas Jónsson:

Ég álít, að nú séu nokkuð aðrar ástæður fyrir hendi viðvíkjandi skipun landbn. en voru í haust. Þá lágu stórmál fyrir n., og var sú ástæða fyrir því, að fjölgað var þá í n., en nú er sú ástæða ekki fyrir hendi. Ég vil aftur á móti benda á, að það er önnur n., sem full þörf er á, að væri mannfleiri en þingsköp mæla fyrir, en það er allshn. Það má gera ráð fyrir, að sú n. fái til meðferðar ýms stór mál, t. d. fátækramálin o. fl.

Viðvíkjandi landbn. svara ég tilmælum hv. l. landsk. því, a. m. k. fyrir mitt leyti, að ég sé ekki ástæðu til þess, að fjölgað verði mönnum í þeirri n., nema það komi í ljós síðar, að slíkt verði óhjákvæmilegt.