29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Garðar Þorsteinsson:

Ég þóttist ekki haga orðum mínum þannig, að hæstv. forseti þyrfti að rjúka upp á nef sér út af því. Ég sagðist ekki bregða honum um hlutdrægni, þótt ég hinsvegar leyfði mér að efast um, að atkvgr. færi fram, ef þrjá menn vantaði úr hans flokki. Þetta hefir kannske verið hreinskilni, sem hefði mátt liggja í láginni, en ef hæstv. forseti vildi spyrja fleiri hv. þdm. um álit þeirra á þessu atriði, þá þori ég að segja, að þeir væru ekki svo óhreinskilnir, að þeir létu ekki alveg sömu skoðun í ljós og ég hefi gert.

Annars er það vitanlegt, að þessir hv. stjórnarflokkar beita alltaf sama ofríkinu og ofbeldinu í næstum því hvaða máli sem er, en vitaskuld stendur hæstv. forseti þar ekki fremstur. Hann vill sýna pólitískum andstæðingum sínum sanngirni, en menn eins og hv. þm. Ísaf. taka aldrei tillit til neins nema að fá fram þeirra málstað með réttu eða röngu.