04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Einar Árnason:

Tilgangur þessa frv. er sá, að útvega bæjarsjóði Ísafjarðarkaupstaðar nýja tekjustofna, eða auknar tekjur. Frv. þetta er í raun og veru tvíliðað. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að leggja skuli gjöld á allar fasteignir í lögsagnarumdæminu, og í öðru lagi, að bærinn taki einkarétt til upp- og framskipunar á vörum úr skipum, er við bryggjur bæjarins leggjast. — Um fyrri liðinn ætla ég ekki að ræða; þar er ekki lagt út á neina nýja braut um tekjuöflun, en hinsvegar er í síðari liðnum lagt út á nýja braut í þeim efnum. Að vísu er frv. þetta miðað við Ísafjarðarkaupstað einan, en ég hygg, að ef þeim kaupstað verða veitt einkaréttindi til þess að starfrækja fermingu og affermingu skipa, þá muni mega gera ráð fyrir því, að fleiri bæjar- og jafnvel sveitarfélög komi þar á eftir. Löggjafarvaldið verður því að athuga það, að hér er nýtt spor stigið, ef þetta verður samþ., sem leiðir af sér fleiri slík. Ég hefi leyft mér að flytja brtt. um, að felld verði burt úr frv. öll ákvæði, er snerta þetta atriði. Ég lít svo á, að hér sé lagt út á talsvert varhugaverða braut. Mér skilst hér vera um það að ræða, að skipta einu starfi í tvö, þannig að bæjarstj. taki að sér og feli vissum manni hluta af starfinu, en að sumu leyti sé það í höndum þess útgerðarfélags, sem í hlut á. T. d. ræður nú Eimskipafél. Íslands afgreiðslumenn á öllum þeim höfnum, er skip þess koma á, til þess að sjá um uppskipun og afgreiðslu skipanna. Þessir menn eru trúnaðarmenn félagsins, sem bera ábyrgð á störfum sínum gagnvart útgerðarfélaginu. Þessa menn á nú að losa við þessa ábyrgð. Hinsvegar eiga vörueigendur eftir sem áður að ganga að útgerðarfélaginu viðvíkjandi öllu ólagi á afgreiðslu og afhendingu vara. Það er vitanlegt, að oft vill það brenna við, að vörur skemmast eða týnast; út af því sprettur ýmiskonar rekistefna, en ef ekki verður sannað, að öðrum en afgreiðslum félagsins sé um að kenna, þá verður félagið að bera ábyrgð á þesskonar mistökum. Það er því áreiðanlega mikilsvert fyrir félagið, að afgreiðslan sé í góðu lagi, og hefir það því vitanlega mikinn áhuga fyrir því, að afgreiðslumaður þess á hverjum stað sé starfi sínu sem bezt vaxinn. sé misbrestur þar á, hefir Eimskipafél. rétt til þess að víkja afgreiðslumanninum frá starfi. Ég ætla ekki að rekja það, hvernig þessir hlutir mundu verða í framkvæmdinni undir því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, en mér finnst ákaflega hætt við því, að Eimskipafél. standi höllum fæti í því máli, ef ólag yrði á afgreiðslunni, þar sem félagið hefir enga íhlutun um hana. Það er því ákaflega hætt við því, að upp komi ýmiskonar ágreiningur milli Eimskipafél. og bæjarstj. á Ísafirði, og Eimskipafél. kunni að hafa rétt fyrir sér; þá getur það ekki náð sínum rétti, þar sem bærinn hefir einkarétt á afgreiðslu skipanna, og þann einkarétt er ekki hægt að taka af bænum. Ég tel því ákaflega hætt við, að undir þessu fyrirkomulagi kunni að rísa upp ýmiskonar klögumál, sem annars væru ekki til.

Í grg. frv. er það tekið fram, að aðaltilgangur frv. sé sá, að auka tekjur bæjarsjóðs Ísafjarðar. Ég ber ekki brigður á það, að bæjarsjóðnum sé nauðsynlegt að auka sínar tekjur, eins og fleiri bæjarsjóðum, en ég álít þetta ósanngjarnan og óheppilegan tekjugrundvöll, sem auk þess muni að litlu gagni koma nema með því að hækka gjöldin ákaflega mikið, og þar sem það er vitanlegt, að uppskipunargjöldin eru ekki lögð á vörurnar nándar nærri eftir verðgildi þeirra, mundi mikil hækkun á uppskipunargjöldum koma ákaflega ósanngjarnlega niður. Hinsvegar ef bæjarstj. ákveður „skikkanleg“ gjöld fyrir upp- og framskipun á vörum, þá hygg ég, að bæjarsjóður fái ekki af þessari starfsemi þær tekjur, sem nokkuð dregur, en sennilegt, að fyrirkomulagið leiddi af sér óánægju, sem annars yrði komizt hjá, og að afgreiðslan mundi verða stirðari, þar sem framkvæmd afgreiðslunnar og ábyrgð á henni væru ekki lengur á einni og sömu hendi. — Ég held, að Alþingi eigi frekar að fara aðrar leiðir en þessa til þess að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaga.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en ég býst ekki við að geta léð þessu frv. atkv., ef brtt. mínar verða ekki samþ., því ég tel þetta mál svo mikilsvert, að það þurfi gaumgæfilegrar athugunar við áður en Alþingi gengur út á þá braut að leyfa slíkt fyrirkomulag á afgreiðslu skipa á hinum ýmsu höfnum landsins.