04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Bernharð Stefánsson:

Það er sárafátt, sem ég þarf að taka fram viðvíkjandi þessu máli. En eins og menn sjá á nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 373, þá hefi ég skrifað undir það með fyrirvara. Með þessum fyrirvara hefi ég viljað láta það í ljós, að fylgi mitt við frv. sé bundið því skilyrði, að aðrir kaupstaðir landsins fái svipaða eða hliðstæða heimild til tekjuöflunar eins og ætlazt er til, að Ísafjörður fái með þessu frv. En nú verð ég að segja, að mér virðist ekkert horfa vænlega um það, að aðrir kaupstaðir fái hliðstæðan rétt. Fyrir hv. Nd. liggur frv. um heimild til tekjuöflunar fyrir Siglufjarðarkaupstað. Það gekk gegnum þessa hv. d. á þinginu í fyrra, en strandaði þá í Nd., og nú virðast litlar líkur til, að það verði einu sinni samþ. út úr þeirri d. Og það eru sumir þeirra manna, sem standa að því frv., sem hér liggur fyrir, sem hindra hvað mest, að hitt málið komist áfram.

Einnig var flutt frv. viðvíkjandi bæjargjöldum á Akureyri hér á þingi í fyrra, en það var fellt. Nú mætti e. t. v. segja sem svo, að þessi frv., sem ég hefi nú nefnt, væru um annað efni heldur en það frv., sem hér liggur fyrir, og því komi það ekki málinu við, sem ég nú hefi verið að segja. En ég get ekki betur séð en að í þessu frv. felist einmitt dálítið svipað eins og í frv. viðvíkjandi Siglufirði, og því sé þetta hliðstæðara heldur en kann að líta úr fyrir í fljótu bragði. í 2. lið I. gr. þessa frv. er bænum heimilað að taka einkarétt á upp- og framskipun þeirra vara, sem fara um bryggjur bæjarins. Samkv. 5. gr. frv. á að vísu að setja hámarkstaxta um upp- og framskipunargjöld og miða hann við meðaltal þessara gjalda þrjú síðustu árin, en í lok gr. segir: „nema um verulega kaupgjaldsbreyt. sé að ræða“. Nú er það vitanlega bæjarstjórnarinnar að segja um það, hvort um verulega kaupgjaldsbreyt. er að ræða eða ekki. Hún hefir þetta í hendi sinni, og sé ég því ekki betur en að gegnum þetta ákvæði um einkarétt á upp- og framskipun sé bænum opnuð svipuð leið, þó í öðru formi sé, eins og farið er fram á fyrir Siglufjarðarkaupstað, nefnilega leið til þess að ná tekjum af þeim vörum, sem til bæjarins flytjast.

Það hefir verið stungið upp á ýmsum leiðum viðvíkjandi fjárhag bæjanna, og enn mun engin föst stefna hafa verið tekin í þeim málum. En maður gæti nú farið að líta svo á, að heppilegast mundi vera í þessu efni að setja heildarlöggjöf um nýja tekjustofna fyrir bæina. (:MG: Alveg rétt; það er það eina rétta!). Ég mun þó ekki að svo vöxnu máli, meðan ég sé ekki nánar, hvernig þetta verður haft gagnvart öðrum bæjum, hindra, að þetta frv. gangi til 3. umr. En eins og fyrirvari minn gefur ótvírætt til kynna, þá er frekara fylgi mitt við málið bundið því skilyrði, að rætzt geti úr líka fyrir öðrum kaupstöðum, sem nauðsynlega þurfa að fá ráðstafanir út af sínum fjárhag.