04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Ég er nú búinn að gleyma sumu af því, sem fór á milli okkar hv. 1. þm. Reykv. fyrir nokkrum dögum, en það gerir víst ekki mikið til, því ég ætla, að margt af því hafi verið rifjað upp af þeim hv. þm., sem nú hafa tekið til máls, svo að þegar ég svara þeim, verður það jafnframt að mestu leyti svar til hans.

Mér þykir leitt, ef hv. samnm. minn, 1. þm. Eyf., ætlar nú að ganga á móti málinu á síðustu stundu og nota fyrirvara sinn á þann veg. Ég vil benda honum á, að mér finnst ekki alveg hægt að bera Siglufjörð saman við aðra kaupstaði landsins í þessu efni. vitanlega á Siglufjörður að fá rétt til þess að afla sér nauðsynlegra tekna eitthvað í áttina við það, sem aðrir kaupstaðir fá. En maður verður m. a. að taka það til athugunar, að mikill fjöldi landsmanna flytur til Siglufjarðar vissan tíma af árinu til þess að stunda þar atvinnu, og ef leggja ætti skatt á þessa menn þar, sem einnig bera skatta heima í sínu héraði, þá yrði það a. m. k. að vera mjög í hófi. Þetta er ekki svona á Ísafirði. Þangað safnast menn ekki til þess að reka þaðan atvinnufyrirtæki sín um lengri eða skemmri tíma. Það er því ekki hægt að bera það saman að leggja t. d. gjald á upp- og framskipun á Ísafirði og þeim bæjum, sem eins stendur á um, og á Siglufirði. Þangað koma e. t. v. á 2. hundr. þús. tunnur undir síld, tilsvarandi af salti o. s. frv. Hér með er þó ekki sagt, að það eigi að skattleggja neitt vörur í Ísafirði með réttinum til upp- og framskipunar. Það er vitanlega nú tekið gjald fyrir þetta af þeim, sem láta skipa upp eða fram vörum, og það er ekkert víst, að það gjald mundi hækka, þó bærinn tæki það að sér.

Þetta vildi ég segja við hv. 1. þm. Eyf., að ég tel ekki, að það megi leggja tekjuöflun handa Siglufjarðarbæ eftir alveg sömu linum eins og tekjuöflun annara bæja, þó Siglufjörður verði vitanlega að fá heimild til tekjuöflunar eftir því sem menn sjá fært.

Hæstv. forseti hefir komið hér fram með brtt. um að nema burt úr frv. heimild bæjarstj. til þess að taka einkarétt á upp- og framskipun. Ég held, að allar brtt. miði að þessu sama. En ástæðurnar, sem hann fyrir fram fyrir þessu, finnast mér ekki vera veigamiklar. Hann drap á, að Eimskipafél. mundi missa tekjur við þetta. Það getur vel verið, en það kæmi þá líka niður á erlendu skipafélögunum. Það er alls ekki víst, að bærinn yrði neitt ósanngjarnari í ákvörðun upp- og framskipunargjaldanna heldur en Eimskipafélagið. Ég ætla, að a. m. k. hér í Reykjavík hafi það allverulegar tekjur af upp- og framskipun. Það kom fram einhversstaðar í umr., að það gæti orðið teygjanlegt, að bæjarstj. mætti hækka upp- og framskipunargjöldin, ef um verulega kaupgjaldsbreyt. væri að ræða, því hún ákvæði sjálf, hvað hún teldi verulega kaupgjaldsbreyt. Ég veit ekki annað en Eimskipafél. geti breytt uppskipunargjaldinu líka hvenær sem kaupgjaldsbreyt. verður, mér finnst ekkert hættulegt, að bærinn fái sama rétt.

Ég geri ekkert úr því, að árekstur kynni að verða milli afgreiðslumanna skipanna og þeirra, sem sjá um uppskipunina, í þessu tilfelli bæjarins. Það er engin hætta á, að slíkt kæmi fyrir frekar heldur en undir þeim kringumstæðum, sem nú eru.

Við vitum, að hvert stykki er bókfært og merkt því númeri, sem það hefir á farmskrá, allt er skjalfest og nákvæmlega hægt að rekja, hvaða hlutir fara í land o. s. frv.

Ég sé ekki að það sé neitt hættulegra, þó bærinn fái rétt til upp- og framskipunar, að gjöldin eru ekki miðuð við verðmæti. Þau eru ekkert miðuð við verðmæti hjá Eimskipafél. Það er tiltekin upphæð fyrir hvert stykki, sem skipað er upp eða fram, og það er áreiðanlega miðað við þyngd, en ekki verðmæti. Ég sé ekki, að á nokkurn hátt sé þrengt kosti þeirra, sem vörurnar eiga, né stofnað til vandræða á nokkru sviði, þó þetta sé í höndum bæjarins. Auk þess hefir Ísafjarðarbær haft þennan rétt í tvö ár og firma á Ísafirði í 10 ár, og tekið hann þannig frá Eimskipafélaginu. Hvernig sem ég velti þessu fyrir mér, get ég ekki séð, að það valdi neinum óþægindum fyrir almenning, þó upp- og framskipunin sé í höndum bæjarins, og hún átti ekki að þurfa að vera dýrari. Eftir frv. er ekki að sjá, að ætlazt sé til, að fylgt verði öðrum reglum í þessu efni heldur en fylgt hefir verið hingað til.

Hv. þm. N.-Ísf. hefir einnig flutt brtt. við þetta frv., og að því leyti eru till. hans í samræmi við till. hæstv. forseta, að hann ætlast til, að heimildin til einkaréttar á upp- og framskipun falli niður. En fleira felst í þessum till., m. a. það, að heimildin til að innheimta lóðargjald lækki nokkuð, að takmörkin, sem í frv. eru 0,1 og 1%, verði 0,4 og 11,8%. Þetta er nokkuð lægra hámark, en sannast að segja þótti mér hámarkið fulllágt í frv.; ég held, að það mætti vera hærra. Annarsstaðar mun hafa verið lögleitt allt að 2% lóðargjald. Brtt. draga svo mjög úr frv., að mér finnst ekki hægt að fallast á þær. Ég játa, að 2. gr. frv. er nokkuð teygjanlega orðuð, og það hefir gefið ímyndunarafli hv. 1. þm. Reykv. og annara lausan tauminn til þess að útmála, hvernig væri hægt að fara með íbúana. Ég sé ekkert óeðlilegt við það, að við ákvörðun gjaldsins sé tekin til hliðsjónar íbúatölu húsanna, eins og segir í gr. Grundvöllurinn á þrátt fyrir það að vera fasteignamatið, og það verður að treysta því, að bæjarstj. fari í þessu efni hæfilega fram. Ef ég léti ímyndunaraflið leika lausum hala á sama hátt og hv. þm., gæti ég sagt, að eftir þeirra tali ætluðust þeir til, að af lélegu húsunum, þar sem flestu fólki er hrúgað saman, ætti að greiða hæstan skatt. Mér finnst það eðlileg hugsun, sem kemur fram í frv., að ef fátt fólk býr í dýrri íbúð, þá sé borgað meira. Þetta yrði að sjálfsögðu eftir mati, sem bundið væri föstum reglum.

Þá er þetta, sem hv. 1. þm. Reykv. vék að, og einnig kemur fram í brtt. hv. þm. N.-Ísf., að skylda bæinn til þess að taka að sér ýms verk í notum þess, að hann fái fasteignagjaldið. Það má vel vera, að það sé ekkert á móti því að gera bænum einhverjar slíkar skyldur. En athugandi er það, eins og hv. þm. N.-Ísf. gat um, að Ísafjörður, sem var einn af þeim fyrstu bæjum á landinu, sem réðust í að koma upp vatnsveitu, hefir engan vatnsskatt tekið undanfarandi ár. Hér í Reykjavík og víðar er vatnsskatturinn allhátt gjald. Ef bærinn hefði tekið vatnsskatt, þá hefði hann á þann hátt náð nokkrum tekjum í sjóð. En þetta hefir ekki verið gert, og má líta á það, að bærinn hefir ekki gengið eins langt og aðrir kaupstaðir í því að leggja á eignir manna, og því engin ástæða til þess að skylda hann til að inna af hendi sérstakar ráðstafanir.

Ísafjarðarkaupstaður lætur greiða fyrir sóthreinsun, en varnir gegn eldsvoða framkvæmir hann án þess að tekið sé fyrir það sérstakt gjald, og er ekki líklegt, að það verði gert; enda þyrftu þá til þess sérstök lög, sem heimiluðu það; og ef bærinn ætlaði að fara að taka gjöld fyrir einstök verk, þá væri hægt að stöðva það, því slíkt væri ekki hægt án þess að veitt væri til þess heimild með lögum.

Þegar þess er gætt, að vatnsveitan á Ísafirði, sem er prýðisgóð, var gerð aldamótaárið og er þannig orðin 35 ára gömul, en samt hefir aldrei verið tekin þar vatnsskattur, þá sýnir það sig, að bæjarstj. er ekki sérlega ágeng gegn gjaldendum í bænum og henni þess vegna vel trúandi til að fara vægilega með vald sitt, sem ef til vill mætti segja, að væri teygjanlegt eftir 2. gr. síðari málsgr. Ég get því ekki séð, að neinar ástæður hafi komið fram gagnvart frv., sem geri það að verkum eða séu fullgild rök fyrir því, að frv. eigi að breyta, eða það sé svo háskalegt eins og hv. þm. N.-Ísf. vill vera láta. Bærinn hefir ekki gengið svo langt í álögum sínum á gjaldendur, að nokkur rök séu fyrir því að væna hann um ósanngirni í þeim efnum. Bærinn hefir haft þann almenna rétt að leggja á eftir efnum og ástæðum. Menn eru sjálfsagt þar eins og annarsstaðar á ýmsu máli um, hvernig það hafi verið gert, því þau gjöld eru þess eðlis, að ekki er alltaf hægt að hafa þau réttlát. Nú hefir það sýnt sig, að bærinn hefir þörf fyrir aðrar tekjur., bæði vegna þess, að þessi gjöld eru of lág til að borga allt það, sem bærinn þarf, og líka vegna hins, að bærinn hefir þörf fyrir tekjur á öðrum tíma en þeim, sem aukaútsvör eru greidd á. Þetta hefir verið gert fyrir Reykjavík. Hér hafa verið lögð á fasteignagjöld, og þegar það var gert, voru einkum færðar fyrir því tvær ástæður. Í fyrsta lagi sú, að nauðsynlegt væri að skapa bænum vissan tekjustofn, annan en aukaútsvörin, og í öðru lagi, að hann fengi þær tekjur inn á öðrum tíma en aukaútsvörin. M. ö. o., það var bæði gert til þess að auka tekjurnar og til tryggingar því, að á sem flestum tímum væru einhverjar öruggar tekjulindir. Þetta er nákvæmlega það sama sem nú er farið fram á fyrir Ísafjarðarkaupstað.

Ég vil ennfremur bæta því við viðvíkjandi því, sem teygjanlegt er talið í 2. gr., að ég sé ekkert á móti, þó hærra fasteignagjald sé greitt af verzlunarhúsum heldur en almennum íbúðarhúsum; með því er aðeins fylgt þeirri sömu reglu, sem er á ýmsum öðrum sviðum. Það eru ýms gjöld hærri á verzlunum heldur en þau eru almennt, má þar t. d. nefna símagjöld, sem alltaf eru hærri á verzlunarfyrirtækjum en einstaklingum, ef til vill að nokkru með það fyrir augum, að þar sé meiri notkun, sem þó er engan veginn víst að sé og í ýmsum tilfellum er alls ekki. Ég sé heldur ekkert á móti því, þó hærra gjald sé greitt af verzlunum heldur en af nauðsynlegum íbúðum.

Mér sýnist, að frv. megi standa eins og það er. Þó mundi ég ekki setja mig á móti ákveðnara orðalagi á 2 gr., ef till. um það kæmi fram. En hér liggur ekki annað fyrir en að draga úr frv. og skerða þann rétt til tekjuöflunar, sem farið er fram á í því, og vil ég því mælast til, að það sé látið ganga áfram óbreytt.

Hér er ekki farið fram á meiri réttindi en þau, sem aðrir bæir hafa fengið, eða það myndi þá helzt vera einkaréttur á upp- og framskipun á vörum úr þeim skipum, sem leggjast við bryggjur bæjarins, en þetta hefir bærinn haft á hendi áður. Bærinn hefir lagt mikið fé í að kaupa bryggjur, og í notum þess hefir hann haft þann rétt, sem hér er farið fram á að lögfesta.

Ég vil svo að lokum endurtaka tilmæli mín um það, að frv. verði látið ganga óbreytt áfram.