04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. sagðist vera búinn að gleyma mörgu af því, sem sagt hefði verið við fyrri hluta þessarar umr., og það er ekki nema eðlilegt, að hann sé búinn að gleyma ýmsu af því, og hitt er þá heldur ekki furða, þó ég hafi ekki mörgu að svara, þar sem hann beindi orðum sínum meira að öðrum.

Út af brtt. hv. þm. N.-Ísf. vil ég segja það, að ég gæti heldur fylgt henni heldur en frv., en get þó ekki fallizt á að hafa ákvæði svo laus sem þau eru þar. Það er góð regla, að Alþingi ákveði fast, hve mikið skuli greiða, en gefi það ekki á annars vald að geta látið hlaupa á svo miklu, að það muni fullum helmingi. Það er ekki lítið vald, sem á þann hátt er sett í hendur annars aðila en þess, sem í raun og veru á að ráða.

Það er alltaf óþægilegt, þessar nýir skattar eru settir á eignir, sem búið er að ráðstafa til svo eða svo langs tíma, og leigusamningar allir og aðrar ráðstafanir miðaðar við það, sem húsið þarf að bera. En ég get með engu móti fallizt á, að það sé betra, þótt þetta sé hægt að gera ár eftir ár, því þá ríkir fullkomin óvissa um, hve mikið húsin þurfi að gefa af sér þangað til hámarki þessara gjalda er náð. Þá er bæði réttlátara og í alla staði betra, að Alþingi líti á, hve langt það sér sér fært að ganga, og setji ákveðið gjald, sem ekki sé hreyfanlegt. Ég hygg, að ekki færi fjarri sanni, að farinn væri meðalvegurinn, en það yrði líkt og er hér í Reykjavík, eða 8‰ af húsum, 6‰ af byggingarlóðum og 1‰. af öðrum löndum og lóðum. Þetta finnst mér, að mundi vera stillt í meðalhóf. Mér finnst bæði eðlilegt og sjálfsagt, að Alþingi sleppi ekki úr höndum sér þeim eðlilega rétti, sem það hefir til að ákveða þetta. Hinsvegar er sá reginmunur á frv. sjálfu og brtt. hv. þm. N.-Ísf., að samkv. hans till. verður þetta raunverulegt fasteignagjald, þ. e. a. s. án þess að þar sé hægt að blanda inn í og bæta við öðrum tillitum. Ég efaðist um þetta í fyrstu, en ég hygg það tvímælalaust, að sá mismunur, sem þar er leyfður á gjöldum, eigi aðeins við mismunandi eignir, svo sama gjald komi alltaf á samskonar eignir.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ímyndunarafl okkar gerðist allfjörugt, þegar við værum að ræða um 2. gr. frv. En er það ekki einmitt sjálfsagt, að þm. beiti ímyndunarafli sínu? Ég veit satt að segja ekki, til hvers meðferð mála á Alþingi er, ef ekki einmitt til þess, að þm. beiti ímyndunarafli sínu við umr. og reyni að finna og benda á sem flest af því, sem getur leitt af því, að einstakar lagaheimildir og ákvæði nái gildi, og á hvern hátt þau séu líklegust til að koma að tilætluðum notum. Þm. geta bezt eftir slíkar athuganir gert sér grein fyrir, hvort lögin muni verða til góðs eða hvort þau kynnu að verða svo skaðleg eða hættuleg í meðförum, að þeir vilji ekki vera með að samþ. þau. Hv. frsm. meiri hl. hlýtur að vita, að það er aldrei of vel athugað, hvað af lögum kunni að leiða. Eins hlýtur honum að vera það kunnugt, að oft koma í ljós óþægilegar smugur á lögum, og þær eru einmitt vegna þess, að málin eru ekki nógu vel brotin til mergjar; en það er einmitt hlutverk þm. að sjá við þessum smugum. Það er hlægilegt í þessu sambandi að tala um mikið ímyndunarafi, þó dregnar séu rökréttar ályktanir af því, sem í frv. stendur, þar sem talað er um að hafa fasteignagjöldin misjafnlega há, eftir því hve margir íbúar eru í húsunum. Það þarf sannarlega ekki mikið ímyndunarafi til þess að sjá, að þetta er sambland af fasteignaskatti og álagning eftir efnum og ástaeðum. Ýmsir segja, að ýmislegt hafi farið fram á Ísafirði, sem hafi farið langt fram yfir allt ímyndunarafl, og þess vegna er full ástæða til að spenna ímyndunaraflið, þegar slíkt mál sem þetta liggur fyrir.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um það sem einhverja frámunalega fjarstæðu, ef það ætti að leggja hæst gjald á þau hús, sem flestir trúa í. En það er sannarlega engin fjarstæða. Sá, sem þrengir miklum fjölda saman í eitt hús, hefir meira upp úr því en hinn, sem hefir rúmgóðar íbúðir, og þess vegna engin fjarstæða — ef annars er gerður munur á fasteignagjaldi af húsum —, að einmitt af því húsi, sem flestir búa í, sé greiddur hærri skattur. Það væri líka meira í anda þeirrar stefnu að letja menn til þess að hrúga um of í húsin og stuðla að því, að fólk hefði sæmileg húsakynni.

Ég þekki það mikið til á Ísafirði, að ég veit, að það er fjarstæða að tala um lúksusíbúðir þar. Það getur verið, að sumir hafi þar heldur meira húsrúm en þeir gætu komizt af með minnst, en að það sé réttmætt að leggja á það nokkurn lúksusíbúðarskatt, nær ekki nokkurri átt. (JBald: Frv. minnist ekkert á það). Nei, það minnist ekki á það, en ef leggja á hærra fasteignagjald á þann, sem býr einn í húsi sínu, heldur en hinn, sem hrúgar inn í húsið eins mörgum og hann frekast getur, þá getur ekki annað legið til grundvallar fyrir því. Ég álít það hina mestu fjarstæðu að verðlauna menn fyrir það að hrúga sem flestu fólki saman í þröngar íbúðir.

Hv. frsm. meiri hl. sagði einnig, að það gæti verið ástaeða til, að hærra fasteignagjald væri greitt af verzlunarhúsum heldur en af íbúðarhúsum. Ég veit ekki, á hvern hátt það er á Ísafirði með leigu af verzlunarhúsum, en ef einhver getur haft hagnað af því að leigja hús sitt til verzlunar, þá hefir niðurjöfnunarnefnd algerlega á valdi sínu að hækka útsvar hans í hlutfalli við þann hagnað, og engin þörf á því við hliðina á aukaútsvarinu að yfirganga það hreinlega fasteignagjald, sem miðað er við matsverð eignarinnar. — Hann minntist á það í þessu sambandi, að verzlanir yrðu að greiða hærra símagjald en aðrir símanotendur. En það er ekki vegna þess, að þar sé lagður sérstakur skattur á símann, heldur vegna hins, að álitið er, að hann sé meira notaður í verzlunum en annarstaðar, og því beinlínis dýrari vegna meiri vinnu og meira slits á tækjum.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta. En viðvíkjandi hinum lið frv., sem er einkaréttur bæjarins til upp- og framskipunar, vil ég taka það fram, að ef bærinn á að hafa tekjur af vörum, sem til hans flytjast, þá verður það að gerast á þann hátt, að Alþingi ákveði rétt kaupstaða til þess að taka slík gjöld, en ég tel óeðlilegt, að Ísafjarðarkaupstaður hafi um það nokkra sérstöðu, og ég mun fylgja brtt. hæstv. forseta um að fella þetta úr frv. Ef síðar verða sett um þetta almenn ákvæði, þá ná þau að sjálfsögðu líka til Ísafjarðarkaupstaðar. Það rekur að því, og ekki sízt í sambandi við breyt. á framfærslulögunum, að bæjunum verður að útvega aukna tekjustofna, og með tilliti til þess, að þeir taka þá við framfærslubyrðinni fyrir allt landið, þá en ekki eins vandgert um, þótt eitthvað af þeim tekjum væri óbeinlínis goldið af öðrum en þeim, sem búsettir eru í bæjunum. En þetta verður að athugast á öðrum grundvelli, og ég mun, eins og ég þegar hefi sagt. greiða atkv. með þeirri brtt. hæstv. forseta að fella þetta úr frv.