04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jón Auðunn Jónsson:

Það er ekki ofsögum sagt, þó að hv. frsm. meiri hl. segi, að 2. gr. frv. sé óljóst orðuð. Þess vegna m. a. kom ég með nýja brtt., sem er í samræmi við þá löggjöf, sem gildir í öðrum bæjarfélögum í þessu efni. Hv. frsm. minntist á, að of mikið væri að lækka ákvæðið um lóðagjaldið niður í 0,8 % úr 1%. Hér í Rvík er þetta gjald nú 0,6%. Ég skal þó engan veginn vera á móti því, ef hv. frsm. vill koma með brtt. um að hækka þetta upp í 1%. Ég veit, að Ísafjarðarkaupstaður þarf þessara tekna með.

Ég skal ekki fara inn á þær deilur, sem eru á milli hv. frsm. meiri hl. og hv. 2. þm. Eyf. En það var líkt hv. frsm. að segja, að það væri ekki víst, að gjöldin yrðu hækkuð, en þó vildi hann ekki ábyrgjast neitt um það. Þetta er hans venjulega varfærni. Og ég kann vel að lesa úr því, þegar hann talar svona, hvað hann meinar.

Annars ætti það að vera nægur mismunur í gjöldum, að maður, sem býr í einkaíbúð, sem að fasteignamati er 20 þús. kr. virði, greiði fjórum sinnum meira en annar, sem býr í einkaíbúð, sem er metin 3 þús. kr. virði. Það virðist eins og það ætti að vera meiri nauðsyn að hvetja menn í Ísafjarðarkaupstað til að eignast sín eigin hús heldur en menn annarsstaðar, því að eins og margir vita, hefir ekki tekizt að framkvæma þar enn löggjöf um verkamannabústaði, þrátt fyrir það, þótt jafnaðarmenn hafi verið þar í meiri hl. í bæjarstj. á undanförnum árum. Á fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 1931—1934 voru áætlaðar um 47 þús. kr. í þessu skyni, en greiddar 2233 kr. Það virðist því sem sú stj., sem þar er og hefir farið með bæjarmál þar að undanförnu, leggi ekki ákaflega mikla áherzlu á að koma upp verkamannabústöðum og á þann hátt að bæta íbúðir fátækra manna í bænum.

Bæjarsjóður og hafnarsjóður hafa að vissu leyti aðstöðu til að fá nokkrar tekjur umfram það venjulega af uppskipun. Það stendur svo á, að hafnarsjóður á hús, sem eru vel fallin til vörugeymslu og standa nærri bryggju bæjarins, þar sem öll út- og uppskipun frá póstskipum fer fram. Þessi hús eru leigð þeim mönnum, sem hafa afgreiðslu skipa með höndum, fyrir um 20% af sannvirði þeirra. Að hægt er að leigja húsin svo hátt, liggur í þeirri góðu aðstöðu, að þau eru svo nærri bryggjunni. Bærinn fær því óvenjulega háar tekjur af þessum húsum, auk þess sem hann fær útsvar af rekstri skipaafgreiðslunnar, ef hann gefur arð, sem alltaf mun hafa verið, nema þá af Djúpbátnum, sem annast alla skipaafgreiðslu fyrir sýsluna.

Ísafjarðarkaupstaður hefir aldrei haft neinn einkarétt á upp- og útskipun þar. Út af því hefir orðið dómsmál, og var það dæmt þannig, að bærinn hefði það ekki. Enda, ef hann hefði þann rétt, þá væri engin þörf á löggjöf um, að svo skuli vera. En bærinn fékk óbeint tekjur af skipaafgreiðslunni með því, að hann leigði Nathan & Olsen eign hafnarsjóðs fyrir miklum mun hærra verð en hægt hefði verið að renta þá eign á annan hátt.

Hv. þm. minntist á, að ekki hefði verið tekinn vatnsskattur af bæjarbúum sem fasteignagjald. Það er alveg rétt. En ég álít samt, að réttara væri að taka vatnsskatt alveg sérstaklega, vegna þess að á Ísafirði stendur til að gera kostnaðarmiklar endurbætur á vatnsleiðslunni til þess að tryggja, að ekki verði vatnsskortur í bænum á ýmsum tímum árs. Ég er ekki í vafa um, að þegar undið verður að þeim framkvæmdum, þá verður farið fram á að fá leyfi til að leggja á vatnsskatt. Það er ekki nema sanngjarnt. Og vegna íbúa bæjarins er ég ekki á móti því, að sá skattur verði lagður á nú þegar.

Hv. frsm. minni hl. fannst brtt. mínar ekki svo skýrar, að ekki mætti, þó þær yrðu að l., mismuna mönnum í gjöldum, eftir því til hvers eignirnar væru notaðar. En ég álít, að þar séu skýr ákvæði um í a-lið brtt., því að þar stendur með leyfi hæstv. forseta: „Af öllum húsum, úr hvaða efni sem þau eru og til hvers sem þau eru notuð, 0,5—1%.“ Hinsvegar er ég hv. frsm. ósammála um, að rétt sé að setja hámarksgjaldið þegar í stað. Ég álít rétt að hafa nýja skatta fremur lága, á meðan menn eru að venjast þeim, en hækka þá síðar.