13.11.1935
Efri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og kom fram við fyrri umr. þessa máls, voru þá í því tveir ásteytingarsteinar. Annar hefir nú verið tekinn burt úr frv., en hinn, um fyrirkomulag fasteignagjaldsins, er eftir ennþá.

Um þetta efni flyt ég nú brtt. á þskj. 479, og má skoða hana sem samkomulagstill. í þessu efni. Það var sem sé bæði deilt um upphæð þessa gjalds, sem hv. þm. N.-Ísf. hugsaði sér að færa niður, og svo einnig um það ákvæði, að heimilt skyldi vera að ákveða með reglugerð, að fasteignargjaldið skyldi vera misjafnlega hátt eftir því, hvernig eignin er notuð. Brtt. mín á þskj. 479 gengur út á það, að nema aðeins burt úr gr. rétta ákvæði, en láta hitt óbreytt. Ef hún er samþ., má búast við, að kaupstaðurinn geti fengið þennan tekjulið óskertan, því að það yrði eftir sem áður hægt að ákveða gjaldið mismunandi hátt allt upp að því hámarki, sem nú stendur í frv. — Annars er búið að tala svo rækilega um þetta atriði, að ég sé enga ástæðu til að orðlengja frekar um það. Ég sé, að hv. þm. N.-Ísf. hefir borið fram brtt. um sama efni, og gengur hann það lengra, að hann vill ekki aðeins, að þetta ákvæði falli burt, heldur vili hann einnig breyta nokkuð gjaldinu sjálfu.