13.11.1935
Efri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Við 2. umr. ræddum við um öll þau atriði, sem hér á að breyta, nema það ákvæði, sem hv. 1. þm. Skagf. flytur nú brtt. við, og ef til vill einn lið frá hv. þm. N.-Ísf. — Ég skal taka þessar till. eftir röð, eins og talað hefir verið fyrir þeim. Er þá fyrst brtt. frá hv. 1. þm. Reykv., að fella niður heimild bæjarstj. til þess að láta gjaldið vera mismunandi hátt, eftir því til hvers eignin er notuð. En í raun og veru er þetta skorðað, því að þeir, sem leggja gjaldið á, mega ekki fara lengra en upp í það hámark, sem er í a- og b-lið 2. gr. Innan þess ramma er hægt að leggja gjaldið á, en út fyrir hann er ekki hægt að fara. Þar eru reistar skorður, sem mér finnst alveg rétt að gera, en mér finnst, að bæjarstj. eigi að fá að hafa svolítið sjálfræði um þetta. Sé ég því ekki ástæðu til að samþ. brtt. hans. Bæjarstj. er bundin við hámark og er þarna markað afartakmarkað svið.

Þá ber hv. þm. N.-Ísf. fram brtt. um að fastákveða skattinn, og í sjálfu sér má vel vera, að það sé ekki fjarri lagi, en þar við er þó það að athuga, að þá missir bæjarstj. réttinn til að mismuna skattinum innan þess ramma, sem henni er markaður. Að því leyti sé ég ekki ástæðu til að samþ. brtt. og mun því greiða atkv. á móti henni. Þó get ég fallizt á e-liðinn, þar sem það er lagt til, að eignir eins og lóðir, sem ætlaðar eru til ræktunar, fiskreitir og aðrar slíkar lóðir, falli undir fastákveðið gjald, 0,1%.

Af þessum brtt. er það till. hv. 1. þm. Skagf., sem engum ágreiningi veldur. Það verður að teljast réttast, að gjaldið sé lagt á eiganda eignarinnar, því að það er engan veginn víst, að sá þinglesni eigandi eigi eignina, því að hann getur vel verið búinn að gefa öðrum afsal. Hans till. tel ég því rétt að samþ., en hvorki till. hv. 1. þm. Reykv.till. hv. þm. N.-Ísf., nema c.-liðinn, sem mér finnst vel mega koma á eftir þeim liðum, sem nú eru í 2. gr. frv.