21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. 3. landsk. taldi það vera stærsta gallann á þessu frv., að vörugjaldið væri þungaskattur, en ekki verðskattur.

Mér þykir það verulega athyglisvert í þessu sambandi, að það eina, sem hv. þm. hefir við þetta frv. að athuga og andmælir, er, að vörugjaldið skuli vera þungatollur, en ekki verðtollur. Ég mun, ef mér endist aldur til að koma á bæjarstjórnarfund í Vestmannaeyjum síðar, benda á, hvað þessi hv. þm. taldi vera aðalgalla frv. í umr. hér á Alþingi. Annars er ekki rétt að tefja tíma þingsins með því að elta ólar um annað eins smáræði og þetta. Hv. þm. endaði ræðu sína með því að biðja Alþingi að fella þetta frv. Og verði það gert, hefir það þá þýðingu fyrir Vestmannaeyjakaupstað nú þegar á næsta ári, að bæjarfélagið verður að miklu leyti ófært til að fullnægja þeim kröfum, sem til þess eru gerðar um að bæta úr atvinnuleysinu og sjá fyrir þeim, sem ekki hafa önnur úrræði en að leita á náðir bæjarins um framfærslustyrk. Þessi hv. þm. hefir ekki annað til þess máls að leggja en að sporna á móti því, að Vestmannaeyjakaupstaður geti fullnægt þessum kröfum, sem hinir fátækustu á meðal bæjarbúa gera til hans. Hv. þm. vill gera bæjarfélagið ófært til þess að standa við skuldbindingar sínar í þessum efnum.

Þá var hv. þm. að tala um þungan skatt á skófatnaði. Ég get upplýst hv. þm. — og kannske líka þessi hv. þm. (PÞ) þurfi fræðslu í þessu efni —, hvað þetta gjald kemur þungt niður á skófatnaði. Það eru 5 kr. á hvert tonn, 50 aurar á hver 100 kg. Hv. þm. hefir orðið tíðrætt um skósendingu, sem hann varð að greiða þetta gjald af. Það er líklegast eina skósendingin, sem honum hefir borizt. Það er um hann eins og manninn hjá Holberg, sem ferðaðist frá Haderslev til Kiel. Honum varð svo tíðrætt um þá ferð, að hann mátti aldrei vatni halda, ef minnzt var á nokkurn hlut, án þess að minnast á ferðina til Kiel. Eins er um hv. þm.; honum hefir orðið mjög tíðrætt um þessa óbærilegu skósendingu. En ég skil ekki. hverskonar skófatnaður þetta hefir verið. Maður hefir heyrt talað um blýhatta, en ekki hlýskó, en það lítur nú út fyrir, að skór hv. þm. hafi verið gerðir úr ákaflega þungu efni, úr því að skatturinn, sem eins og ég sagði áðan ekki er nema 50 aurar á hver 100 kg., kom svona hart niður á þeim.

Ég sé ekki, að hægt sé að neita bæjum yfirleitt um svipaðar leiðir og þetta til að afla sér tekna, þegar hvergi er slakað til á þeim kröfum, sem landslýður og Alþ. gera til bæjarfélaganna um framlög í einu og öðru skyni. Ég veit ekki til þess, að verið sé að gera neinar ráðstafanir til þess að létta gjöldum af bæjarfélögunum. Eins og sakir standa munu allir, sem hafa heilbrigða skynsemi, kannast við það, að útlitið er ekki slíkt framundan, að ástæða sé til þess að ætla, að þær kröfur, sem illt árferði orsakar, að gerðar eru til bæjarfélaganna, fari minnkandi í framtíðinni. Þess vegna verður að telja það — á meðan ekki eru gerðar neinar framkvæmdir til þess að létta gjöldum af bæjunum né heldur til þess að beina öðrum tekjulindum í bæjarsjóðina — fullkomið óvit að skerða þær tekjulindir, sem bæjarsjóðir hafa og hafa reynzt vel eins og þetta litla gjald. Þetta vörugjald, þótt smátt sé, aðeins fáir aurar á mjölpokann, hefir þann kost, að það næst allt í bæjarsjóð. Er það mikill kostur og munar miklu á því og hinum óbeinu gjöldum. Hv. 3. landsk. fullyrti, að þetta gjald væri óvinsælt hjá almenningi. Ég held nú, að almenningur láti sig mjög litlu skipta þetta gjald. Það finnur enginn til þess, — gjaldabyrðin er yfirleitt orðin svo mikil. Enda veit ég til þess, að það er engin óánægja yfir þessu gjaldi, önnur en sú, sem einstaka menn, eins og hv. 3. landsk. reyna að koma af stað í því að fala sér álits og fylgis hjá hinum minna þroskaða hluta kjósendanna, sem halda, að hægt sé að halda áfram að gera allar mögulegar kröfur til bæjarfélaganna án þess að þau séu studd í því að afla sér fjár til þess að uppfylla þessar kröfur. Ég skal að vísu játa, að þegar þetta gjald var lagt á fyrst, voru ekki allir þeir, sem nú fylgja því, samþykkir því. En það stafaði af misskilningi. Menn héldu, að þetta yrði tilfinnanlegt gjald, en reynslan hefir sýnt, að svo er ekki, ég hefi hér bréf frá bæjarstjóranum sjálfum um það, að þetta gjald hafi reynzt vel og að engin óánægja sé yfir því nema sú, sem einstaka pólitíkusar eru að reyna að blása upp, en tekst þó ekki, sjálfum sér til framdráttar.

Ég held, að ég hafi nú svarað hv. 3. landsk. En mig langar aðeins til að bæta við lítils háttar upplýsingum um vinsældir þeirrar skattastefnu, sem hv. 3. landsk. telur, eins og hann stendur í flokki nú, að hann eigi að halda á lofti og það eru beinu skattarnir. Það hefir alltaf verið fast programatriði hjá sósíalistum, að öll gjöld til ríkis og bæja eigi að taka með beinum sköttum en ekki óbeinum. Og þeir halda því fram, að beinu skattarnir komi ekki við nema efnaða fólkið. Þetta kann að hafa verið svo til að byrja með. En ég held, að nú á síðasta ári hafi almenningur, a. m. k. í mínu kjördæmi, orðið þess fyllilega var, að innheimtumenn ríkisins væru farnir að líta í kringum sig til þess að ná í tekju- og eignarskatt jafnvel hjá fólki, sem ekki er auðugt að fé. A. m. k. bárust mörg hundruð bréf frá ríkisskattanefndinni til Eyja núna um hátíðirnar til ýmsra gjaldþegna þar, og vöktu þau mikinn óhug, verkamönnum og fleirum, sem enga atvinnu reka, en selja vinnu sína öðrum, var hótað járnum og steglum, ef þeir gæfu ekki upp þetta og þetta. — Ég vil í allri vinsemd benda hv. 3. landsk. á, að eftir því, sem við horfir nú, og eftir því, sem ríkisskattanefnd verður skv. l. og skyldu sinni að seilast ofan í vasa fleiri fátækra manna í landinu heldur en áður hefir verið, þá er ekki víst, hvort það er hyggileg kosningapólitík hjá þeim sósíalistum að mæla stöðugt með beinu sköttunum, eins og þeir hafa talið sér öruggt að gera fram að þessu. — rétt áður en ég fór að heiman kom til mín kona, sem er nýbúin að missa manninn sinn. Hún berst áfram með lítinn búskap ásamt einni dóttur sinni. Hún hafði einmitt fengið mjög ýtarleg skilaboð frá ríkisskattanefndinni, þannig löguð, að konan sagðist sjá, að ef hún ætti nokkurn hlut til, þá yrði hún að láta það af hendi. Ég þekki þessa konu vel. Hún hefir búið fleiri ár í Vestmannaeyjum, og það eru margir, sem hafa svipaða aðstöðu og hún. Heimili hennar er sparsemdarheimili, og hefir lítið verið gert að því að sækja skemmtanir þar eða eyða í annan óþarfa. Bæði var það svo meðan húsbóndinn lifði og þó ennþá frekar eftir fráfall hans, enda hefir konan séð sig til neydda að gæta hinnar ýtrustu sparsemi. Það, sem hún sagði við mig eftir þau áhrif, sem hún hafði orðið fyrir af eftirgrennslunum skattanefndarinnar, voru nokkurn veginn þessi orð: Ég hefi alla mína tíð verið sparsöm. Ég hefi álitið það sjálfsagt, enda hefir ekki önnur leið verið fær. En mér finnst nú orðið, eins og þegar maður fær svona ýtarleg skilaboð og maður sér, að það á að hirða hvern eyri, sem afgangs er, að ég sé farin að verða kærulausari fyrir því, hvort ég dreg saman eða ekki. — Þetta er ekki stórt dæmi, en það er eftirtektarvert dæmi um það, hvernig beina skattaöflunin getur verkað og hlýtur að verka á almenning í landinu, þegar hún er útfærð eins og nú. Því það er ekki allt auðugir menn, sem skattan. eltir á röndum með eftirgrennslunum og jafnvel hótunum um það, að skatturinn á þeim verði hækkaður, ef þeir gefi ekki upp hinar margvíslegu upplýsingar, sem heimtaðar eru. — Ég vil í þessu sambandi geta þess, að í þessu dæmi mínu felst ekki nein árás á þau yfirvöld, sem eiga að útfara þessi l., því þau eru ekki annað en verkfæri í höndum löggjafans. En ég vil beina athygli hv. d. að því, að beina tekjuöflunin í ríkissjóð hefir alveg eins sínar skuggahliðar gagnvart gjaldendunum og engu síður heldur en óbeina tekjuöflunin. Ef landslýð hefir ekki verið þetta ljóst fram að þessu, þá er ég þess fullviss — svo margir hafa talað um þetta við mig að undanförnu —, að honum fer að verða það ljóst úr þessu.

Ég bið hæstv. forseta afsökunar á því, að ég hefi farið dálítið út fyrir ramma þessa máls, en vegna þess, að mótmælin, sem fram hafa komið, eru talsvert almenns eðlis hjá hv. 3. landsk., þá þótti mér tilhlýðilegt að tala líka nokkuð almennt um þetta mál.