21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Páll Þorbjörnsson:

Það er ekki neitt sérstaklega skemmtilegt að þurfa að fara út í grautargerð hv. þm. Vestm., þar sem hann vili gera sín orð að mínum orðum, því það var hann sjálfur, sem sagði í sinni ræðu, að þetta kynni að koma nokkuð hart niður á skófatnaði. Ég aftur á móti helt því fram og færði rök að því, að þetta gjald kemur yfirleitt þyngra niður á neyzluvörum, t. d. korni og sykri, heldur en skófatnaði, vefnaðarvöru og því líku. Það vita allir, að hvert kg. af vefnaðarvöru og skófatnaði er dýrara heldur en hvert kg. af mjölvöru og sykri, en hvert kg. af sykri er skattlagt jafnmikið og hvert kg. af skófatnaði. Nú skulu menn hugsa sig um, og hv. þm. Vestm. líka, sem hefir meiri reynslu í að selja skófatnað en ég og veit því sjálfsagt, hvað einir skór vigta og hvað þeir kosta og hvað svo eitt kg. af sykri kostar. Sjái menn svo samræmið í þeim tölum.

Annars var dálítið brosleg upptalning hv. þm. á því, sem ekki yrði hægt að inna af hendi, ef þessi skattur yrði tekinn af. Hann lýsti því yfir, að þetta gjald myndi geta orðið um 30 þús. kr., og ef þessar 30 þús. kr. missast á þennan hátt, þá á ekki að vera hægt að veita fátækraframfærslu. ekki atvinnubætur, ekki sjúkrahjálp og ekki greiða kennurum laun o. s. frv., o. s. frv. En jafnframt gat hv. þm. þess, að í Vestmannaeyjum yrði jafnað niður um 185 þús. kr. á þessu ári. Þetta rekur sig nú hálfillilega á.

Hvað því viðvíkur, sem hv. þm. var að tala um, að þetta gjaldi væri 50 aurar á hver 100 kg. í 4. fl., þá er það hrein blekking, því jafnframt því, sem bæjarstj. Vestmannaeyjakaupstaðar fékk þessa heimild, fékk hún heimild til þess að hækka þennan sama flokk í hafnargjöldum úr 1 kr. upp í kr. 1.70, og ofan á þetta bættist svo vörugjaldið í bæjarsjóð.

Hv. þm. Vestm. lofaði að minnast þess, að ég hefði sagt, að það versta við þetta gjald væri, að það væri þungaskattur. Hann má gjarnan minnast þess, því vitanlega verður skatturinn stórum tilfinnanlegri fyrir það, að hann er þungaskattur.

Þá var hv. þm. að tala um einhvern, sem ferðaðist til Kiel frá einhverri borg, sem ég heyrði ekki hver var, og hirði ekki heldur að vita, enda mun hv. þm. kunnugri ferðalögum í því landi, sem Kiel er, heldur en ég.

Hv. þm. vildi halda því fram, að þetta vörugjald væri ekki óvinsælt. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði hér í fyrra, þegar rætt var um bæjargjöld fyrir Akureyri. Það var einn af helztu stuðningsmönnum hv. þm. Vestm., sem stofnaði til almenns borgarafundar til þess að mótmæla þessu vörugjaldi á sínum tíma. Ég hygg, að þar hafi verið saman komnir eins margir kjósendur hv. þm. Vestm. eins og hinir, og ég má segja, að það hafi verið samþ. nær mótatkvæðalaust að mótmæla þessu gjaldi. (JJós: En sömu mennirnir samþ. það rétt á eftir). Já, það er rétt, en ég ætla nú ekki að fara út í það, hvernig hv. þm. fékk þessa sömu menn til þess að samþ. það seinna. — Hv. þm. vildi halda því fram, að það væri hinn minna þroskaði hluti kjósendanna, sem hægt væri að espa upp á móti þessu gjaldi. Ég þori vel að fara út í það að fá mótmæli gegn þessu gjaldi, og þá skyldi það sýna sig, að það yrði eins stór hluti af kjósendum þessa hv. þm., sem væru þessu gjaldi mótfallnir. Og get ég vel unnað hv. þm. að kalla þá menn hinn minna þroskaða hluta kjósendanna.

Þá varð hv. þm. tíðrætt um bréf ríkisskattanefndarinnar, sem hann sagði, að komið hefðu í hundraðatali til Eyja. Það er nú náttúrlega orðum aukið, þótt þau hafi komið nokkuð mörg. Ekkert varð þó á vegi mínum, enda býst ég við, að þau hafi mest komið til hinna efnaðri borgara, sem einhverju hafa að leyna sínum framtölum. — Hinn fróðlega fyrirlestur um ekkjuna hirði ég ekki að fara út í. Þetta getur allt verið rétt hjá hv. þm. En það getur ekki breytt viðhorfinu til beinu skattanna, þó einhver kona hafi orðið skelfd yfir því að fá bréf frá skattanefndinni, þar sem óskað var að fá betri upplýsingar viðvíkjandi ástæðum hennar og tekjum.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta mál, en ég vil endurtaka það, að ég vænti þess, að þetta mál fái sömu meðferð og frv. um vörugjald fyrir Akureyrarbæ.