20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Jón Auðunn Jónsson:

hér stendur nokkuð sérstaklega á um þetta mál. Þessi lög eru nú í gildi og þarf einungis að framlengja þau. Vestmannaeyjakaupstaður hefir sérstöðu að því leyti, að hann hefir engin verzlunarviðskipti við önnur héruð, og vörugjöld, sem þar eru lögð á til bæjarþarfa, koma ekki niður á öðrum en borgurum bæjarfélagsins. Þessu er öðruvísi háttað þar, sem kaupstaðir og kauptún eru í sambandi við héruðin umhverfis, sem reka þar verzlun sína. Þá verða slík vörugjöld einnig skattur á alla íbúa þeirra héraða.

Í öðru lagi vil ég benda á, að hér er aðeins um að ræða löggjöf til eins árs; og það getur áreiðanlega ekki verið skoðun hv. 4. landsk., að almenn löggjöf um aukna tekjustofna handa bæjarfélögum verði komin svo fljótt í gildi, að hægt verði að framfylgja henni snemma n næsta ári.

Um brtt. þær, sem fram hafa komið í Nd. við frv. um heimild fyrir Sauðárkrók til að leggja á vörugjald, er það að segja, að flm. frv. skoða það sem tilraun til þess að drepa frv. Það hefir þá nýlega skipt um stefnu í þessum málum í Nd., ef slíkar brtt. verða samþ., enda óskaði hæstv. fjármrh. eftir, að málið yrði tekið af dagskrá, þegar brtt. komu fram.

Hv. 4. landsk. las hér upp mótmæli gegn þessu bæjargjaldafrv. frá 240 mönnum í Vestmannaeyjum. Það er nú tiltölulega lítill hluti af íbúum kaupstaðarins, líklega ekki nema 1/10 hluti af þeim sem greiða þar gjöld til bæjarþarfa.

Ég held, að hv. 4. landsk. geti ekki tekið slík mótmæli alvarlega og flutt þau sem aðalástæðu gegn þessu máli. (JBald: Ég bar það ekki fram sem aðalástæðu). Hv. þm. hefir ekki í öðrum tilfellum tekið til greina skrifleg meðmæli eða mótmæli frá kjósendum, sem þinginu hafa borizt um þau mál, sem það hefir haft til meðferðar. Ég hygg, að hann hafi ekki viljað taka til greina mótmæli frá borgurum Ísafjarðarkaupstaðar gegn bæjargjaldafrv. hv. þm. Ísaf., sem þetta þing hefir afgr., og hann mun ekki hafa tekið hátíðlega meðmæli frá mörgum þúsundum kjósenda víðsvegar um land, þar á meðal frá ýmsum flokksmönnum sínum, þegar þeir á síðasta þingi sendu þingmönnum áskoranir um að lögfesta frumvörp milliþingan. í sjávarútvegsmálum. Það hlýtur því að vera eitthvað sérstakt á bak við þessa kröfu hv. þm., um að frv. verði tekið af dagskrá, annað en undirskriftir 1/10 hluta gjaldenda í Vestmannaeyjum, sem gera má ráð fyrir, að hafi verið gengið hart að til þess að þeir skrifuðu undir mótmæli, eftir því sem sagt er. Ég get því ekki skilið, að þetta sé aðalástæða hv. þm. fyrir því að fresta samþykkt frv. — Hér er aðeins um að ræða framlenging á gildandi lögum til eins árs. Og þó er það sérstaklega annað, sem réttlætir þetta frv., eins og ég áður gat um, en það er, að vörugjaldið, sem ákveðið er í frv., snertir ekki íbúa annara héraða, en kemur aðeins niður á íbúum kaupstaðarins.