20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Þeir tveir hv. þdm., sem hafa tekið sér fyrir hendur að mæla með því, að þetta frv. verði samþ., hafa báðir talað um þau mótmæli, sem komið hafa fram úr Vestmannaeyjum. Í raun og veru hafa þeir lagt meira upp úr mínum orðum um það heldur en ég gaf tilefni til. Ég sagði aðeins, að ég áliti rétt, að þessi mótmæli kæmu hér fram, úr því að þau hefðu borizt Alþ., og það voru ekki tök á að bera þau fram annarsstaðar en við þessa umr., því að málið hefir ekki verið til umr. í Nd. Ég sagði jafnframt, að þó að mótmælin kæmu fram, þá gátu þau ekki verið afgerandi ástæða til þess að vera með eða móti málinu. Ég ætlaði ekki að leggja dóm á það, hvort frv. eigi ekki að ganga fram, en mér finnst aðrar ástæður, sem ég hefi borið fram, miklu veigameiri og hv. þm. hafa ekki getað hnekkt þeim. Það er auðvitað mál, að löggjöf í þessu efni verður aðeins umgerð utan um reglugerð, og þó að Vestmannaeyjar hafi að vísu sérstöðu hvað þetta snertir, þá ætti þessi löggjöf að vera fullnægjandi fyrir þær. Það er sem sagt þetta, að Vestmannaeyjar hafi þannig sérstöðu, að þar séu ekki lögð gjöld á aðra en íbúana sjálfa. Hv. frsm. meiri hl. benti á annan stað, þar sem svipað stæði á. Ég get bent á þrjá staði, þar sem líkt er ástatt um. Það er ekki mjög mikil verzlun út frá Seyðisfirði, a. m. k. ekki meiri en út frá Siglufirði. Hinsvegar koma til Vestmannaeyja margir, sem þessi gjöld bitna á, menn, sem eiga heima annarsstaðar, en sækja vertíðina til Vestmannaeyja, svo að menn taka raunverulega þátt í þessum gjöldum víðsvegar að af landinu, og atvinnuvegum er yfirleitt svo háttað hér á landi, að fólk er ekki mjög staðbundið. Fólk fer til Vestmannaeyja á veturna, svo að það er sannarlega almenns efnis, þegar sett er þannig löguð löggjöf. Ég álít rétt, að þegar á að fara að setja almenna löggjöf um þetta, þá sé betra og réttara, að Vestmannaeyjar standi eins að vígi og hinir kaupstaðirnir og komi þá undir hina almennu löggjöf, sem ég þykist vita, að verði sett annaðhvort á þessu þingi eða vetrarþinginu 1936. Ég sé ekki, að Vestmannaeyjar líði neitt tilfinnanlegt tjón, þótt það drægist nokkra mánuði, að þetta yrði að lögum, ef það yrði, sem og er talið víst, að það verði snemma á næstu ári komin löggjöf, sem heimili kaupstöðum að leggja á gjöld til þess að auka tekjur sínar. Þó að það sé auðvitað neyðarúrræði að þurfa að grípa til þessara ráða, þá virðist mér hér varla verða við það ráðið. — Hvað þessum fundi viðvíkur, sem hv. þm. var að tala um, get ég sagt það, að það hafa eflaust margir fundir verið haldnir í Vestmannaeyjum, þar sem ekki hafa verið tekin fyrir öll vandamál kaupstaðarins, svo að það sannar ekkert, þó að þessu hafi ekki verið hreyft þar. En mótmælin, sem seinna hafa komið fram, sýna það, að til er í Vestmannaeyjum allmikill hópur manna, sem er á móti þessu. Hv. frsm. meiri hl. vildi nú að vísu gera minna úr þessu heldur en rétt er, því að af þessum mönnum, sem hafa skrifað undir þetta skjal, er megnið kjósendur. Ég hefi ekki verið að halda því fram, að þetta mótmælaskjal væri nokkur mikilvæg ástæða, þótt ég hins vegar vildi geta þess, að það væri fyrir hendi.