20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Jón Baldvinsson:

Ég vil afbiðja mér heiðurinn af því að hafa komið fram með þessa röksemd. Ég held, að það hafi verið hv. þm. sjálfur, sem talaði um það, að Vestmannaeyjar hefðu nú einusinni þessa löggjöf og þess vegna mætti ekki slíta henni. Ég get játað, að þetta er nokkur ástæða, en ekki svo mikilvæg, að hún nægi til þess, að framlengd verði þessi lög. Það hefir þegar verið borið fram frv. um þetta almennt, og getur vel verið, að það verði samþ. Ég segi ekki, að það verði endilega á þessu þingi, en það gæti vel orðið og þess vegna er ekki víst, að það þurfi að slíta þetta sundur. Það er af þeim ástæðum, sem ég vildi biðja forseta að láta málið bíða, þó ekki væri nema þangað til útséð er um, hvað gert verður í þessu máli á þingi, þar sem ekki þarf nema stuttan tíma til að koma því fram.