04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Emil Jónsson:

Hv. frsm. lét þess ekki getið, að ágreiningur væri innan landbn. um flutning þessa frv. Að vísu er þessa getið í grg. frv., en ég vil þó árétta það betur.

Eins og hv. frsm. sagði, voru það 3 frv., er til n. komu í vor, en þeim hefir verið blandað saman í eitt. Fjórir af nm. samþykkta, en ég hefi ekki tekið afstöðu með, og er í mörgum atriðum á móti frv.

Ég er sammála flm. um það atriði, að ábúðareða afnotaréttur jarðar er eitt af merkilegustu málum landbúnaðarins. Ég hefi oft heyrt, að menn hafi flosnað upp af því þeir hafa ekki getað greitt lán eða afborganir, sjaldan af öðrum ástæðum, þeir hafa ekki getað staðið straum af búum sínum, ekki innt af hendi þær greiðslur, sem hvíldu á sjálfri jörðinni.

Ég þarf ekki að rekja efni frv. það er, eins og hv. frsm. gat um, steypt saman úr efni þriggja frv., frv. til l. um ættaróðal og óðalsrétt, sem flutt var af 5 þm. Sjálfstfl., frv. til l. um afnám sölu þjóð- og kirkjujarða, flutt sameiginlega af Framsfl. og alþfl., og frv. til l. um bygging og ábúð jarða, flutt af tveim Framsfl. mönnum. Þessum frv. var svo vísað í vor til landbn., en hún vísaði þeim aftur til Búnaðarfél. Íslands. En Búnaðarfél. hefir hummað fram af sér að láta uppi skoðun sína á frv. hverju fyrir sig, heldur hefir það látið semja nýtt frv., sem þetta frv. er í aðalatriðum samhljóða. Mér þykir þetta verri aðferð en taka afstöðu með frv. hverju um sig, þar sem stungið er upp á svo mismunandi leiðum. Það er rétt, eins og stendur í grg. fyrir frv. um ættaróðal og óðalsrétt, að uppi eru í landinu tvær stefnur, önnur að haldið sé áfram sjálfseignarakipulaginu, það stæli bændur til viðnáms örðugleikunum og styrki framtak þeirra. Hin stefnan heldur því fram, að taka beri fyrir sölu á opinberum jarðeignum og ríkið kaupi smátt og smátt allar jarðir. Þetta eru tvær höfuðstefnur, sem verður að taka afstöðu til. En í þessu frv. hafa menn smeygt því fram af sér að taka afstöðu. mg í þess stað hefir verið samið nýtt frv., sem tekur hvergi afstöðu, en soðið er upp úr hinum öllum. Eins og öll málamiðlunarfrv. hefir það nokkra kosti, en líka þeirra galla. Ég ætla að fara nokkrum orðum um 3.höfuðkafla frv.

Frv. það, sem alþfl.menn fluttu með nokkrum. Framsfl.mönnum, fór fram á það, að tekið væri fyrir alla sölu á þjóðjörðum og kirkjujörðum. Þetta mál var alltaf ofarlega á baugi hjá Alþfl. og var samið um það milli stjórnarflokkanna, þegar stjórn var mynduð. Því er undarlegt, að tekin er nú upp sölustefnan á þjóðjörðum af þeim mönnum, sem fluttu frv. í fyrra. Þá vildu þeir ekki selja jarðirnar, en eru svo nú með þessu frv. Á því, hvort jarðirnar eru seldar sem ættaróðal eða sjálfsábúð, er prinsipielt ekki annar munur en sá, að ráðstöfunarréttur á ættaróðulum er bundinn nokkrum takmörkunum, en hér er þó sala á opinberri eign. Mér virðist, að með sölu þjóð- og kirkjujarða (sem munu vera alls um 1000 á landinu) hafi ekki unnizt það, sem að var stefnt í upphafi, en ég vil ekki í þessum umr. fara út í það. En ég vil undirstrika, að með þessari undanþágu með þjóðjarðasöluna, að mega selja jarðirnar sem ættaróðul, þá er upphafið bannið gegn þjóðjarðasölunni og hægt að selja hvaða jörð sem er.

Um erfðaábúðina ætla ég ekki að fjölyrða, þó að ýms atriði hefðu getað farið betur. Þegar ábúendaskipti verða á jörðinni, er gert ráð fyrir, að fráfarandi ábúandi fái fullar bætur fyrir allt, sem ætt hans hefir látið gera á jörðinni. En þegar þessi eini erfingi fær arfhluta allra systkina, gæti óvandaður maður, þegar hann er búinn að ná undir sig arfhluta systkinanna, farið frá jörðinni. Ef einn aðili getur þannig komizt yfir arfahluta allra systkinanna, er enginn vafi á því, að óhlutvandir menn mundu nota sér það, og þarf að takmarkast mikið betur, svo ekki verði misnotað.

Annað atriði, sem kom til tals í n., var, hvort ekki væri ástæða til að láta greiða afgjaldið í fríðu í stað ákveðinnar % í peningum. Hvort betra er, skal ég ekki segja um; en þó mun peningagreiðsla eins hagkvæm, ef jörðin er metin upp á 10—20 ára fresti. — En sem sagt, þá ætlaði ég ekki við þessa umr. að fara nánar út í einstök atriði. Þó vil ég segja fá orð um óðalsréttarkaflann. Það má segja, að aðalhugmynd frv. sé sú, að gera eitt barn efnaðs sjálfeignarbónda fært um að stunda búskap. En hér koma ekki aðrir til greina en þeir, sem eiga jarðir með minni áhvílandi skuldum en svo, að vextir af þeim nemi 3% af fasteignamati jarðarinnar. Í frv., sem lá fyrir þinginu í vor, var gert ráð fyrir, að skuldir mættu vera nokkru hærri en þetta. Býst ég því við, að eins og nú er ástatt séu það mjög fáir, sem geta gert jarðir sínar að óðulum. Ég geri því ráð fyrir, að þó Alþ. færi að gera þessa breyt., þá yrði það ekki til mikils gagns, því það yrðu svo sárfáir bændur, sem gætu fullnægt þessum skilyrðum. En það, sem er þó hér aðalatriði, er, að þeir, sem yrðu aðnjótandi þessarar verndar, væru einmitt þeir, sem sízt þurfa aðstoðar við. Sé farið að hjálpa einhverjum, þá á fyrst að veita þeim aðstoð, sem mest skulda og ekki hafa ráð á að gera jörð sinni til góða eins og þyrfti að vera. En það er svo í þessu frv., eins og mér virðist oft hafa komið fram, að fyrst er þeim hjálpað, sem bezta aðstöðuna hafa, — eða þeir eiga a. m. k. bezt með að nota sér aðstoðina —, en hinir verða útundan, sem erfiðara eiga og eru þó í mestri þörf. Ég hafði búizt við, að í stað þessa óðalsréttarfrv. hefðu komið till. um að hjálpa skuldugum bændum til þess að geta stundað heilbrigðan búskap. Það hefði verið lógískt.

Hv. frsm. minntist á, að hér væri um forréttindi að ræða, enda er það svo eins og frá frv. er gengið. En ég hefði heldur viljað hjálpa þeim, sem verr eru stæðir, til þess að komast upp til jafns við þá, sem betur mega, í stað þess að stofna til forréttinda fyrir þá, sem bezta aðstöðu hafa, og hjálpa þeim þannig til að komast enn lengra fram úr hinum.

Ég veit ekki, hvort ég þarf á þessu stigi málsins að fara lengra inn á einstök atriði. Þó vil ég geta um eitt atriði, sem hv. frsm. kom inn á. Hann gat þess, að fé það, sem ríkið hefði lagt fram til jarðabóta og annara umbóta, hefði orðið til þess að skrúfa upp verð jarðanna. En ég sé ekki annað en hér beri að sama brunni, þegar jarðirnar eru alltaf metnar upp, þegar ábúandaskipti verða. Og þetta verður svo meðan haldið er áfram styrkveitingum til einstaklinga, í stað þess að leggja féð til jarðanna sjálfra. Eins og er kemur styrkurinn eingöngu núv. ábúanda til góða, en sá, sem við tekur, þarf að kaupa allt fyllsta verði.

Eins og ég tók fram í upphafi, tel ég þetta eitt allra þýðingarmesta mál landbúnaðarins. Ég hefi ekki heyrt, að neinn hafi hrökklazt af jörðum sínum fyrir það, að þeir hafi ekki getað útvegað sér og sínu heimili mat og greitt fólki kaup sitt, heldur vegna þess, að þeir hafa ekki getað staðið í skilum með greiðslur af þeim skuldum, sem á jörðum og húsum hvíla. Það er því og hefir verið skoðun mín og minna flokksbræðra, að þessu verði ekki kippt í lag nema með því að steinhætta að selja allar kirkju- og þjóðjarðir, og ríkið kaupi jarðir eftir því, sem það frekast getur, og leigi þær síðan út á erfðafestu. Ég sé ekki, að neitt sé unnið með því að stefna að óðalsrétti. Þó tekið sé fram, að ekki megi veðsetja jarðirnar nema fyrir 50% af matsverði, er ég hræddur um, að það verði aðeins pappírstala. Ef um það væri að ræða að forða jörð frá niðurníðslu eða sölu, mundi Alþ. vafalaust veita undanþágu upp í 70—80%, eða jafnvel hærra. Því nauðsyn brýtur lög. Ég hefi því ekki trú á, að þetta óðalsréttarfrv. komi að verulegu gagni. Þó var aðalástæðan fyrir því, að ég tók ekki þátt í flutningi frv., sú, að heimilað er að selja þjóðjarðirnar. Það er vitanlega alveg á móti stefnu míns flokks, og ekki langt frá því, að það sé á móti þeim samningi, sem opinberlega var gerður milli stj.flokkanna fyrir ári síðan.