04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég vil byrja á því að þakka hv. frsm. fyrir greið og góð svör. Svörin voru á þá lund, sem ég bjóst við, en vildi fá staðfest, því að mér fannst n. ekki fullkomlega hafa það fyrir augum.

Ég sé, að inn í þann kafla, sem fjallar um ættaróðul og óðalsrétt, hafa verið sett mörg ákvæði, sem þrengja mjög kost óðalseigenda, án þess að ég geti séð, að það standi á neinn hátt í sambandi við að tryggja það, að fjármagn það, sem í sveitunum er, haldist þar. Skal ég þar aðeins nefna sem dæmi, að í þessu frv. er jarðeigendum fyrirmunað að gefa jarðir. Nú getur oft staðið svo á, að óðalseigandi hafi ekki aðstöðu eða tækifæri til að taka fósturbarn eða kjörbarn. Menn eru oft skjótlega af heimi kallaðir og geta ekki gert slíkar ráðstafanir í skyndi. Slíkt álít ég að stríði í bága við þá meginhugsun, sem liggur á bak við þetta frv. Ég vænti, að n. taki með góðvilja á móti þeim breyt., sem fram verða bornar við frv., sem ganga í þá átt að gera rétt óðalseigenda rýmri án þess að ganga á móti þeim höfuðtilgangi n., sem nú hefir verið lýst.

Þegar verið að ræða um leiguábúð og sjálfsábúð, þá má ekki gleyma því, að eins og málum horfir nú, þá hafa leiguliðar á undanförnum árum fengið ýmsar mikilsverðar endurbætur, og með þessu frv. er enn stigið stórt spor í áttina þeim til hjálpar. En mér er ekki kunnugt um, að á nokkurn hátt hafi verið reynt að bæta hag sjálfseignarbænda, sem eru þó fjölmennasti hluti íslenzkrar bændastéttar. Þetta er fyrsta sporið í þá átt, ef svo mætti segja, og jafnvel hefir að sumu leyti verið sérstaklega gengið á þeirra hlut, a. m. k. þeirra sjálfseignarbænda, sem hafa átt jarðir, sem þeir hafa leigt öðrum. Það eru þess vegna fullkomlega orð tíma töluð, að eitthvað sé litið til með þessum stóra hópi íslenzkra bænda og þeim hjálpað, til þess, að þeir geti haldið jörðum sínum. — Það er alveg rétt, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að eins og frá frv. er gengið nú, þá kemur það fyrst og fremst þeim til góða, sem bezt eru settir af bændum. En ég lít svo á, að þótt svo sé, þá verði fyrst að byrja á því að skapa skilyrði til þess, að það fjármagn, sem nú er í sveitunum, haldist þar, en það verður tæplega gert betur á annan hátt en þann, að hjálpa bændum, svo að sem flestir þeirra geti setzt í þann sess, sem þeir bændur, sem bezt eru stæðir, geta nú setzt, ef þetta frv. verður að l., og það er mín von, að hægt verði að hjálpa öllum þeim, sem verr eru stæðir, svo að þeir geti einnig setzt í þennan sess og orðið óðalsbændur, og fyrr tel ég ekki, að þessum málum sé komið í sæmilegt horf, og þar vil ég taka höndum saman við hv. þm. Hafnf. og alla aðra góða menn til að koma því mikilsverða máli áleiðis.

Að því er snertir það atriði, að ríkið kaupi jarðir í stórum stíl, þá skal ég ekki fara langt út í það mál. En það vil ég þó benda á, að ekkert ráð er handhægara til þess að skapa fjárflótta úr sveitunum og að ekkert ráð sé hægt að finna til þess, að það fé, sem nú er í sveitunum, flytjist þaðan burt, því að einmitt mundu þeir einir selja, sem eiga jarðir sínar að svo og svo miklu leyti óbundnar. Þeir einir mundu selja, sem ætluðu ekki að binda skóþvengi sína í sveitunum. Þeir mundu fara burt með féð, en eftir yrðu leiguliðar, sem oftast yrðu mun fátækari.

Ég skal ekki fara mikið frekar út í þetta frv. nú. Ég get ekki sagt, að ég hafi lesið það með neinni hrifningu. Mér þykir margt horfa þar til hins lakara. Mér finnst n. hafa farizt líkt og sagt er frá í þjóðsögunum. Hún hefir fengið þrjú börn til fósturs. Einu barninu hefir hún hossað mjög og fengið því falleg föt, en öðru barninu hefir hún tekið miklu miður og fengið því a. m. k. ekki betri búning en það hafði áður. Þó vil ég ekki neita því, að í sumum greinum fari þar fullt eins vel á nú eins og áður, þó að mér sýnist mörgum ákvæðum hafa verið spillt að mun, og skil ég ekki, hvers vegna þær breyt. hafa verið gerðar, því að ég sé ekki, að þær standi í neinu sambandi við það, sem hv. frsm. hefir lýst yfir, að væri grundvallarstefna þessa frv.

Ég ætla svo ekki frekar að ræða um þetta. Þetta mál heldur væntanlega áfram, og gefst þá tækifæri til að ræða það við 2. umr. og í sambandi við þær brtt., sem þá koma og ég hefi hugsað mér að bera þá fram.