04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Páll Zóphóníasson:

Mér er kunnugt um það af viðkynningu minni við bændur víðsvegar um landið, að menn skiptast alls ekki eftir hinum pólitísku flokkum í þessu máli. Fjöldi sjálfstæðismanna, sem ég þekki, aðhyllast skoðun hv. þm. Hafnf. í málinu, og fjöldi andstæðinga þeirra hina stefnuna. Þetta er því ekki flokkapólitískt mál.

Samkomulag það, sem orðið hefir í n. um lausn málsins, er aðeins bundið við nefndarmennina, en óvíst enn, hvernig hv. þm. yfirleitt skiptast í málinu.

Hv. 6. þm. Reykv. hefir verið að tala um, að hann myndi fylgja frv. um að gefa bændum milli 700 og 800 jarðir Ég bíð eftir að sjá tillögur hans um það. En hvernig ætlar hann að tryggja, að þeir og þeirra búi á þeim?

Hv. 7. landsk. sagði, að ekkert hefði verið gert fyrir sjálfseignarbændurna sérstaklega. En hverjir eru það, sem hafa fengið lán úr veðdeild Búnaðarbankans, ræktunarsjóði byggingar- og landnámssjóðs o. s. frv.? Eru það ekki sjálfseignarbændur, sem fyrst og fremst hafa fengið lán ú lánsstofnunum? (JS: Eru það nokkur hlunnindi, þótt við höfum ekki verið sviptir eignarrétti okkar?). Vitanlega taka þeir lán, sem hafa jarðir að veðsetja, og má því segja, að lánsstofnanirnar séu stofnaðar vegna þeirra.

Ég vona, að hv. þm. geri sér það ljóst fyrir 2. umr., að hér er fyrst og fremst um það að ræða, að tryggja það, að bændurnir og höfuðstóll jarðanna geti haldizt í sveitunum. Til þess hefir lítið verið gert hingað til, en ég vil vænta þess, að allir þeir, sem ekki vilja beinlínis draga bændur úr sveitunum til kaupstaðanna og smáflytja fjármagnið þangað úr sveitunum, geti sameinazt um lausn á þessu máli.

Ég skal játa það, að ég er að ýmsu leyti óánægður með frv. eins og það er, þótt ég fylgi því til samkomulags, í von um, að af því geti leitt, að hætt verði að selja þær jarðir, sem enn eru eftir í ríkiseign, og koma þeim þannig sama sem í sjálfsábúð. Áður en hann fer lengra út í þá sálma, vil ég benda honum á nokkrar tölur, sem sanna það, að sala þjóðjarða hefir sízt alltaf sjálfsábúð í för með sér. Í 12 sýslum sem ég hefi rannsakað þetta mál í, hafa verið seldar 729 þjóð- og kirkjujarðir. Þar af hafa 309 verið seldar aftur, eða 3 af hverjum 7. Og 125 af þessum jörðum eru nú komnar í leiguábúð.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að frv. gleymdi alveg þeim bændum, sem verst eru staddir. En þetta er þó enganveginn rétt. Erfðaábúð á ríkisjörðum nær til 700—800 bænda, og ef hagur þeirra batnar við slíka löggjöf, er ekki hægt að segja annað en frv. nái til töluvert margra af þeim, sem verst eru settir. Auk þess myndi batna aðstaða þeirra banda, sem sitja á ættaróðulum. Nú eru, sem kunnugt er, útsvör og vextir þyngstu byrðarnar í sveitum. Ef hagur þessara 700— 800 bænda og þó nokkurra annara batnaði við þessa löggjöf, ætti gjaldþol þeirra að aukast og þeir geta borið hærri útsvör eftir en áður lækkar þá á hinum.

Hinsvegar vill hv. 6. þm. Reykv., að ríkið gefi jarðir sínar í sjálfsábúð. Hér er mikið djúp staðfest á milli. Við í meiri hl. stöndum hér mitt á milli. Ég vil biðja hv. þm. að athuga, hvort sú lausn, sem við leggjum til, er ekki heppilegri en að vera að togast á um hina yztu skanka.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að það væri rangt, að það ylli fjárflótta í sveitum, ef ríkið keypti jarðirnar af bændum. En mér er kunnugt um, að fjöldi bænda helzt í sveitunum einungis af því, að þeir geta ekki selt jarðir sínar, en myndu annars þegar hverfa þaðan með eignir sínar.

Þá sagði hv. þm., að í frv. væri með öllu gengið inn á stefnu sjálfstæðismanna í þessum málum. Þetta er ekki rétt. Annars er stefna allra sjálfstæðismanna ekki alveg sú sama að þessu leyti. Sumir vilja, eins og fram hefir komið, neyta ýtrustu ráða til, að af verði sniðin þau horn, sem valda því, að menn geta ekki fellt sig við það. Aðrir vilja aftur ekkert gera fyrir framgang málsins. Ég vona, að meiri hl. hv. d. verði meiri hl. n. sammála um að fylgja málinu, því að þetta mál þarf lausn, og það sem fyrst.