07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Emil Jónsson [óyfirl.]:

Við 1. umr. þessa máls var það tekið fram af flestum, að þetta væri samkomulagsfrv. En ég hefi haldið því fram áður, að samkomulagið væri ekki nema milli 2 flokkanna, en ég gat þess, að ég og flokkur sá, sem ég fylgi, ætti ekki samleið með hinum flokkunum í þessu máli.

Ég hefi nú flutt brtt. við þetta frv., á þskj. 474, sem fer í þá átt að fella niður 27. gr. frv., en hún heimilar að selja þjóð og kirkjujarðir. En það er sú lágmarkskrafa, sem ég og minn flokkur getum gert í þessu máli. Því var haldið fram af hv. frsm. landbn., að svo skammt væri milli opinberra eigna og einstaklingseignar, að þar væri hér um bil um sama hlut að ræða. Ég hélt því fram við 1. umr., að þetta væri ekki rétt, því þetta gæti breytzt, svo að eignarréttur á óðali væri ekkert betri en almenn eign, því það gæti gengið kaupum og sölum eftir sem áður. Og ég sé það á brtt., sem fram er komin frá hv. 7. landsk., að það er komið berlega í ljós, sem ég hélt fram. En brtt. hans fer í þá átt, að sá, sem hefir eignar- og umráðarétt yfir óðali, teljist eigandi óðalsins og fari að öllu leyti með það sem sína eign, og hafi hann heimild til þess að gefa það. Ég get sagt það að ég er á móti þessari brtt. Það má auðvitað segja, að það sé um gjöf að ræða, þó að um fulla sölu sé að ræða. Þetta ákvæði er því til þess að gera að engu þann möguleika, sem var í frv. um það, að það mætti ekki selja jarðirnar. Og þarf ég ekki að skýra þetta frekar.

Um afstöðu mína til frv. og þessarar brtt. hefi ég nú stuttlega rætt, og get ég verið stuttorður um þær, sem eftir eru. Brtt. frá landbn. eru á þá lund, að ég get verið þeim samþykkur, því þær fara allar í þá átt að lagfæra kaflann um erfðaábúðina, en það er sá eini kafli, sem og er sammála öðrum landbnm. um.

Til brtt. á þskj. 483, frá hv. 7. landsk., hefi ég þegar tekið afstöðu, og verð ég að telja, að hún sé langt frá því að vera til bóta. Og till. á þskj. 474 er sú lágmarkskrafa, sem ég og minn flokkur getum sætt okkur við í þessu máli. Frá okkar sjónarmiði er enginn eðlismunur á því að selja jarðir á almennan hátt eða gera þær að óðali.

Ég mun því reyna að fylgja því fast fram, að þessi till. nái fram að ganga, og mun ég ekki geta fylgt frv. að öðrum kosti. Annars var svo mikið rætt um þetta mál við 1. umr., að ég þarf ekki að fara nánar út í að ræða það. En ég vildi geta þessa í sambandi við mína brtt. og aðrar brtt., sem fram hafa komið.