07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég vil byrja með því að biðja hæstv. forseta að athuga, að það er prentvilla á þskj. 483, því þar stendur við 11. gr. en á að vera við 10. gr.

Ég þarf ekki margt að segja um þessar brtt. mínar, því ég vænti þess, að þær séu svo ljósar, að hv. þdm. hafi áttað sig á þeim. 1. brtt. hnígur að því, að ef það er lítið eitt hærri upphæð en 50% af fasteignarmatsverði, sem hvílir á jörð, sem á að gera að óðalseign, þá hafi jarðeigandi rétt til þess að bæta við arðberandi fylgifé upp í það, sem á vantar, svo að á jörðinni hvíli ekki hærri vextir en svo, að árlegir vextir af þeim nemi 3% af fasteignamatsverði jarðarinnar. Þetta er eðlilegt og ég sé ekki, að það raski neitt grundvallarreglu þeirri, sem n. hefir farið eftir. Við getum hugsað okkur 2 bændur, þar sem annar tekur við jörð, sem mikið hvílir á, og verður svo að kaupa bústofn, sem að mestu leyti er í skuld, en hinn tekur við samskonar jörð, og hann tekur við arðberandi fylgifé, sem ekkert gjald þarf að borga af. Sá bóndi, sem tekur við arðberandi fylgifé, hlýtur að vera betur fær um að borga vexti heldur en hinn. Þetta er ekkert annað en það, að heimila að jörðinni fylgi kúgildi, vaxtalaust eignarfé. Ég vænti þess, að hv. þdm. sjái, að það er ekki röskun á grundvallarreglum þeim, sem teknar hafa verið upp.

Á 2. brtt. hefir lítillega verið minnzt af hv. þm. Hafnf., og hefir hann ekki tekið henni vel. Ég bjóst nú aldrei við því, að hann myndi taka henni vel, en mér kom það samt hálfgert á óvart. hvað hann virtist taka hana illa upp. Í fyrri hluta gr. er ekki annað sagt en það, sem stendur í frv., en það er sagt þar í skýrari orðum en í frv. Það er tekið þar upp ákvæði, sem mér fannst vanta í frv., en það var um umráðarétt óðals á meðan erfingi getur ekki tekið við.

En það, sem hv. þm. virtist sérstaklega hnjóta um, var ákvæðið um það, að óðalseiganda væri heimilt að gefa óðalið. Ég gæti nú skilið þetta, ef gefa mætti óðalið án nokkurra skilyrða. En þegar það er tekið fram, að óðalseigandi megi því aðeins gefa óðalið, að enginn fáist til þess að taka við því, og að það sé komið að því, að ríkið taki það undir sig, þá er það hart, ef óðalseigandi má ekki ráðstafa því og reyna að tryggja sér uppihald í ellinni. vitanlega verður það svo í mörgum tilfellum, að hjón, sem eru barnlaus eða eiga enga nákomna ættingja, sem vilja taka við jörðinni eftir þau, eru þá samkv. frv. n. neydd til þess að kasta jörðinni í ríkissjóðinn, þegar þau hætta búskap, án tryggingar fyrir því, að þau geti lifað, því það er ekki neitt ákvæði um það, að ríkissjóður eigi að sjá þeim farborða, þó að hann taki við jörð þeirra. Það gæti því farið svo, að þau yrðu að fara á sveitina. Ég lít svo á, að það sem brtt. fer fram á, sé svo sjálfsagður hlutur, að það geti ekki komið til mála, að meiri hl. hv. d. gangi á móti henni.